19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2589 í B-deild Alþingistíðinda. (4151)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það má e. t. v. kalla þessi lög, sem hér um ræðir, ofbeldi, en hið sama má þá segja um öll þau lög, sem ekki eru samþ. í einu hljóði, og ég get ekki séð, að þessum lögum sé vandara um en öðrum. Og ég vil mótmæla því, að hér sé verið að níðast á þeim mönnum, sem framleiða hér í Rvík. Eins og margbúið er að taka fram, þá kemur gjaldið jafnt niður á öllum, alveg eins á þeim, sem búa í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og í grenndinni. Þetta verður því aðeins uppbót fyrir fjarlægðina. Ég sagði og segi það enn, að sérstaða bænda hér í grennd helzt eftir sem áður, og því verður ekki kippt í burtu, nema öllum þeim fjölda manna, sem erfitt eiga með að keppa við þá, séu gefin einhver forréttindi, en um slíkt er ekki að ræða hér.

Þá vil ég víkja að brtt. hv. 4. þm. Reykv., um undanþágu frá gjaldi fyrir framleiðendur hér í Rvík. Ég held, að þetta mundi verka þannig, að menn myndu á einn eða annan hátt fara að koma kúm sínum til bæjarins til þess að losna við skattinn. Og út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. vil ég taka það fram, að það er vitanlega betra að öðlast hlunnindin og losna við skattinn heldur en að öðlast þau og verða að greiða hann. Það liggur í hlutarins eðli. En það getur borgað sig að greiða skattinn til þess að öðlast hlunnindin. Sem sagt, menn myndu láta skrá kýr sínar hér meir og meir, og það er ekki ástæða til þess að yfirfylla þennan markað. Það yrði því framleiðendunum hér sjálfum til skemmdar, ef brtt. yrði samþ.