31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2597 í B-deild Alþingistíðinda. (4160)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Mér finnst, að í gangi þessa frv. hér á þingi hafi kennt of mikils kapps frá hálfu þeirra manna, sem augsjáanlega eru að hugsa um eigin hag, en það eru mjólkurframleiðendur, sem möguleika hafa til markaðar í Rvík og Hafnarfirði, en eru búsettir utan þeirra lögsagnarumdæma. Mig minnir, að það hafi verið hv. 4. þm. Reykv., sem bar fram tilmæli um það, að málinu yrði vísað til bæjarstjórnanna í þessum kaupstöðum til umsagnar, en því var afdráttarlaust neitað. Það er alveg óforsvaranlegt, þegar um slík mál er að ræða, þar sem tveir aðilar eiga í hlut, að öðrum þeirra sé enginn kostur gefinn á að láta uppi álit sitt um málið. Ég er líka hræddur um, að ábyggilegt sé, að ef frv. verður að lögum, verði töluvert skertur hlutur margra manna í þessum bæjum, svo að þeir eigi erfitt með að greiða gjöld sín til bæjarins. Það orkar ekki tvímælis, að þar eð ríkið þarf nú á miklu fé að halda og fer auðvitað í vasa þegna sinna til þess að fá það, og bæjunum er erfitt að fá nóga peninga, t. d. til fátækraframfærslu, þá er það ekki rétt gert af Alþingi að skerða hlut gjaldenda um skör fram. Ég get tekið það fram, að í Hafnarfirði eru um 20—30 manns, sem hafa mjólkurframleiðslu að aukaatvinnu, til þess að reyna að bæta kjör sín og sinna, og flestir eru þessir menn svo fátækir, að þessi skattur er ekki nálægt því í samræmi við útsvar það, sem á þá er lagt. Bærinn sér sér ekki fært að leggja svo jafnt á þegna sína sem skyldi, en samt á að styrkja framleiðendur utan kaupstaðarins á hans kostnað. Ég þarf ekki að orðlengja um þetta, ég býst við, að hv. dm. sé það ljóst, að þetta nær ekki nokkurri átt, og ber ég því fram svo hljóðandi rökst. dagskrá, til samkomulags:

„Í því trausti, að ríkisstjórnin, í samráði við bæjarstjórnirnar í Reykjavík og Hafnarfirði, rannsaki, á hvern hátt sala mjólkur í þessum bæjum væri heppilegust fyrir kaupendur og seljendur og leggi fyrir næsta þing tillögur í því efni, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.