31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (4162)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Jónas Jónsson:

Mér kom nokkuð á óvart stefna hv. l. landsk. í þessu máli, með því að ræða hans varð varla skilin öðruvísi en að hann hugsaði sér, að mjólkurmál þessa bæjarfélags, og þó sérstaklega Hafnarfjarðar, gætu orðið leyst aðallega með flutningi frá næstu framleiðsluhéruðunum, sem yrði þá nánast að hugsa sér sveitirnar austanvert við bæinn og bæinn sjálfan. Mér kom þetta á óvart, vegna þess að fyrr, þegar hann hafði forgöngu í baráttu fyrir samgöngubótum austur, þá var ein af ástæðunum sú, að með því að koma Rvík í samband við Suðurlandsundirlendið með járnbraut væri hægt að búast við, að mjólkin lækkaði, til hagsmuna fyrir bæinn.

Ég vil nú áður en ég fer lengra spyrja hv. 1. landsk., hvort það sé rétt, að hann hafi staðið í samningum við Mjólkurfélag Rvíkur um það, að láta það eitt fá einkasölu á mjólk í bænum, og Mjólkurfélagið hafi neitað þessu, — að Mjólkurfélagið hafi sýnt meiri víðsýni í þessu heldur en formaður bæjarstj. Ég hafði nú ekki trú á sannleiksgildi þessarar sögu, en verður frekar á að geta hugsað mér þetta eftir ræðu hv. þm. í dag.

Ég hygg, að þetta frv. sé nú eins og önnur mannaverk, ekki alfullkomið, en mér skilst það miða í áttina til hagsbóta fyrir Rvík, Hafnarfjörð og mjólkurframleiðendur á stóru svæði á Suðurlandi og í Borgarfirði, sem nú eru farnir að selja hingað. Ef horfið væri að því ráði að semja við þá, sem framleiða á dýrustu landi, þá eykur það dýrtíð í Rvík, en lækka má mjólkina nokkuð með því að fá hana þaðan, sem hún er auðframleiddari. Það er óhugsandi annað en að slík ráðabreytni, sem þm. talaði um, verði verst fyrir bæjarbúa sjálfa.

Hugsunin bak við þetta frv. er að koma á því skipulagi um mjólkursölu til Rvíkur og Hafnarfjarðar, að engin óeðlileg samkeppni skapi óþarfa eyðslu. Það er t. d. eyðsla að hafa of marga sölustaði, sem er forráðamönnunum í Rvík að kenna. Þeir gætu takmarkað sölustaðina og dregið úr kostnaðinum, hvað meiri hl. bæjarstj. og núverandi borgarstjóri hefir ekki gert, frekar en hans fyrirrennarar.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að fyrst og fremst verði seld í bænum sú mjólk, sem er framleidd nær, í stað þess að oft og tíðum er mikið unnið úr henni, en flutt er mikið af henni óunninni austan yfir fjall með miklum kostnaði.

Nú er hugsað, að þeir, sem búa nær, borgi litla verðuppbót til hinna, sem verr eru settir. En aðalsparnaðurinn fyrir alla liggur í minnkun dreifingarkostnaðar og sölukostnaðar. Og það er enginn vafi, að þar geta þessir aðilar mætzt. Rvík líður hinn mesta baga af því, að mjólk er svo að segja dýrust af öllum vörum, á sama tíma og tugir og hundruð af bændum hafa nóg af ódýrri mjólk, sem þeir vildu selja hingað, en geta ekki sökum skipulagsleysisins. Sú varð reynslan á Akureyri, þegar sú deild kaupfél. Eyfirðinga, sem hefir mjólkursöluna með höndum, lækkaði lítrann í 25 aur., að þá hraðóx salan og útrýmdi útlendri vöru. Þessa miklu lækkun framkvæmdi félagið í skjóli síns góða skipulags og varð bæði seljendum og neytendum í hag. Ég ætla ekki að spá neinu, hvað lækka má mjólkurverðið hér, en það má vafalaust lækka það verulega, og þó til hagsmuna fyrir bændur, en hér er mest komið undir stj. og hennar mönnum.

Borgarstjórinn í Rvík brosir að þessu. En bæjarstjórinn á Akureyri getur brosað í alvöru og einlægni, af því að það hefir tekizt í hans bæ að gera þetta kraftaverk.

Ég hygg, að uppástungan í 5. gr. um það að hafa 3 menn, sem ríkisstj. skipar til ákveðins tíma til að miðla málum milli framleiðenda og neytenda, sé eins hyggileg úrlausn og fyrirfram er hægt að ákveða. Mér hafði dottið í hug, áður en ég sá þessa uppástungu, að ef svona þvingunarverð er sett í Rvík og Hafnarfirði, þá mætti taka meðalverð mjólkurlítrans í 3 höfuðborgum Norðurlanda, þar sem er óhindraður flutningur með járnbrautum, þar sem verðið er nú kringum 35—36 ísl. aur. En till. 5. gr. álít ég miklu framkvæmanlegri en það, sem vakir fyrir hv. 1. landsk. Það er jafnmikil fjarstæða að hugsa sér að reikna út framleiðslukostnað mjólkur eins og annara vara. Hugsum okkur, að reikna ætti út framleiðslukostnað á kjöti. Það væri gott fyrir bændur, ef miða mætti sölu kjötsins við framleiðsluverð, því að nú fá þeir ekki svo hátt verð. Hefir það nokkra þýðingu fyrir okkur heldur gagnvart Spánverjum, að reikna út framleiðslukostnað útgerðarinnar? Það er hvergi nokkursstaðar framkvæmt til lengdar, að binda verð framleiðsluvara við útreikninga á framleiðslukostnaði; því að ef farið er út í það, þá eru svo margir þættir, sem ómögulegt er að meta. En meiri hl. bæjarstj. hefir kannske sótt fyrirmyndir sínar til Rússlands.

Annars er ástandið í Rvík og Hafnarfirði kröftugust mótmæli gegn hv. þm. Hafnf. og hv. 1. landsk. Meiri hl. bæjarstjórnanna í báðum bæjunum hefir ekkert gert til að skipuleggja þetta mál, ekkert annað viljað heyra en að allt sé játið reka á reiðanum. En það er ómögulegt að neita því, að þetta mjólkurmál Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins er eitt af stórmálum landsins. Það er stórmál, að þessir bæir með um það bil 1/3 íbúa landsins skuli standa í vandræðum með að kaupa þá mjólk, sem þeir þurfa, af því að hún er til muna of dýr; hundruð af mönnum vilja selja mjólk, en þúsundir þurfa að kaupa; en aðilarnir ná ekki saman sökum skipulagsleysis. Afleiðingin er sú, að í þessum tveimur bæjum veg æskulýðurinn upp við allt of litla mjólkurneyzlu. Og landbúnaðurinn í 4—5 sýslum í kring bíður tjón við að geta ekki fyllilega notað markaðinn í Rvík. Þetta mál er miklu þýðingarmeira en þó að við fengjum fleiri þingmenn á þessa bekki. Ef þetta frv. verður látið daga uppi, er það skaði fyrir Rvík og bændur. Tilraun þessi er máske ekki svo fullkomin sem þyrfti, en þó það skársta, sem stungið hefir verið upp á. Þess vegna á málið að ganga fram; og reynist skipulagið ekki nógu vel, eiga Reykvíkingar og bændur á Suðurlandi að hjálpast að því að endurbæta það.