31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2602 í B-deild Alþingistíðinda. (4163)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Jón Baldvinsson:

Það er sjálfsagt rétt, að sala mjólkur til Rvíkur hefir verið miklum erfiðleikum bundin, kostnaðarsöm fyrir bæjarbúa og í mesta ólagi um langt skeið. En mér finnst það ekki vera leiðin til umbóta, að taka af bæjarstj. og íbúum Rvíkur og Hafnarfjarðar það vald, sem þeim er veitt yfir skipulagi innanbæjar. (JónJ: Þeir hafa farið illa með þetta vald). Það er nú deilt um það, hverjir fari vel með sitt vald og hverjir illa. Sjálfsagt á bæjarstj. einhverja sök. En mér finnst ekki koma til mála að láta menn úr fjarlægum héruðum samþ. reglur fyrir kaupstaðina, t. d. um bein heilbrigðismál, sem heyra undir ákvarðanir bæjarstjórna.

Þá tel ég það allhart að gengið, að láta þá menn, sem í kaupstöðum búa og bæjarstj. hefir styrkt — marga hverja — til þess að efla búskap innan bæjarfélagsins, bera skatt til þess að borga bændum í Rangárvallaýslu, Skaftafellssýslu, Árnessýslu, Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu — og kannske lengra að —uppbót á verði á mjólk. Það er náttúrlega rétt, að það er dýrara í nágrenni Rvíkur að framleiða mjólk; en hinir, sem fjær búa, þola líka betur að fá lægra fyrir mjólkina.

Ekki er hægt að segja, að þeir hafi verið sérlega sanngjarnir í garð Rvíkur, bændur í mjólkurfélögum hér, austanfjalls og annarsstaðar. Ég man eftir, að fyrir nokkrum árum gerði ég samning við framkvæmdarstjóra mjólkurbús í nágrannasýslu um að kaupa mjólk til að selja aftur í Rvík nokkuð undir því verði, sem hér var þá. Þetta var viðurkenndur samningur, þótt ekki væri skrifaður í öllum atriðum. En mjólkurfélögin hér, og sérstaklega mjólkurfélögin fyrir austan, héldu ráðstefnu og kúguðu framkvæmdarstjóra þessa fyrirtækis til að svíkja þann samning, sem hann hafði gert. Það var náttúrlega engin sérstök velvild til Rvíkur í þessu, að koma í veg fyrir 10% lækkun á mjólk.

Nú hafa mjólkurframleiðendur hér í Rvík lagt mikið fé og mikið erfiði í það að rækta sína bletti, enda eru þeir með bezt ræktuðu túnum landsins. En í kostnaðinn hafa þeir lagt af því að þeir byggðu á fljótri sölu og a. m. k. sæmilegu verði. Þeir eiga þá að fá hærra verð en hinir, sem byggja framleiðslu sína talsvert á beit og engjaheyskap. Nú er svo komið, að framleiðslan í nágrenni bæjarins er verulegur hluti af mjólkinni, sem bærinn þarf að nota, enda eru hér á annað þúsund kýr.

Eðlilegastur hlutur til að koma skipulagi á þetta mál væri það, að bæjarstjórn Rvíkur tæki málið algerlega í sínar hendur, hefði einkasölu á mjólk í bæinn. Ég játa, að margt mætti laga, m. a. lækka mikið búðakostnað. Víða er selt fyrir litla upphæð daglega, en kostnaður verður alltaf talsverður, húsnæði, fólkshald, áhöld o. s. frv.

Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir að skipa 7 manna nefnd til þess að ákveða útsöluverð á mjólk af samlagssvæðinu og skera úr ágreiningi, sem rísa kann milli seljenda annarsvegar og bæjarstjórna eða hreppsnefnda hinsvegar. Bæjarstjórn eða sveitarstjórn á aðeins að skipa tvo menn, mjólkurframleiðendur eða félög þeirra tvo, og atvmrh. skipi þrjá. Ég geri nú ráð fyrir, að t. d. núverandi stj. mundi skipa þrjá bændur, svo að þar yrðu þrír á móti tveimur úr Rvík, og svo fulltrúar mjólkurframleiðenda, sem einnig yrðu bændur. En svo er annað. Mér skilst þessi n. vera óafsetjanleg, að mennirnir sitji æfilangt. Ég skal taka því, ef skýringar koma. En mér skilst, að þegar þessir stjórnskipuðu menn hafa tekið þarna sæti, þá muni þeir sitja æfilangt, eins og hæstaréttardómarar. (MT: Nei, nei). Hv. þm. getur þá sennilega skýrt þetta nánar.

Ég treysti mér ekki til að greiða atkv. með þessu frv. eins og það er nú, en mun greiða atkv. dagskrártill. hv. þm. Hafnf.