31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2614 í B-deild Alþingistíðinda. (4168)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Torfason:

Ég skal ekki lengja umr., en vil aðeins svara því, sem með þarf. Ég hygg, að það sé mála sannast, að þessu máli verði ekki fyllilega komið fyrir fyrr en nokkur reynsla er fengin í því, og það er bezt, að hún fáist sem fyrst. Út af þessu samkomulagi, sem hefir orðið milli Mjólkurfélags Rvíkur og búanna austanfjalls um að þau vinni úr mjólkinni, en mjólkurbúið hérna hafi söluna í Rvík, kvað hv. þm. Hafnf. svo að orði, að þetta ætti að vera samningur milli búanna. Ég vil leyfa mér að benda á, að ef mjólkurbúið hérna ætti að borga þessi 5%, þá yrði það vitanlega til þess, að það færu allir úr mjólkurbúinu. Út af því, sem hv. 1. landsk. sagði, að ekki væru allir ánægðir með þetta fyrir austan, þá er það rétt að nokkru leyti. Það er rétt, að einstöku menn selja hingað nokkuð af mjólk og rjóma, en ég má fullyrða, að fullt tillit verði tekið til þess af mjólkurbúunum og loforð frá þeim um það.