18.02.1933
Neðri deild: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (4186)

27. mál, fiskframleiðslu ársins 1933

Jón Auðunn Jónsson:

Ég held, að það standi ekki í sambandi við frv., hvernig svörin frá fiskframleiðendunum verða til Sölusambands ísl. fiskframleiðenda. Ég lít svo á, að nú séu burt fallnar þær ástæður, sem voru til útgáfu bráðabirgðal., og vænti, að ekki þurfi að framlengja þau. Þá voru sérstakar ástæður fyrir hendi, og mér vitanlega eru þær nú þegar fallnar burt. Svör munu vera óvíða að komin, en allt bendir í þá átt, að Sölusambandið haldi áfram með svipuðu fyrirkomulagi, enda væri það glapræði að slíta nú þessum frjálsu samtökum framleiðenda. Hygg ég, að fisksölunefndin sé mér sammála um, að lögin geti nú bráðlega fallið úr gildi.