25.03.1933
Efri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (4196)

8. mál, laun embættismanna

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Svo sem sjá má á nál. frá minni hl. fjhn., hefir n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Það er nokkuð nánar vikið að því í nál. okkar meirihl.-manna, hverjar eru ástæðurnar fyrir því, að við sjáum okkur ekki fært að greiða atkv. með frv. óbreyttu, og í raun og veru geri ég ráð fyrir, að lítt virðist þörf á að skýra það öllu nánar.

Afkoma þeirra landsmanna, sem við framleiðslu fást, bæði atvinnurekenda og hinna, sem við framleiðsluna vinna fyrir kaupi, er á þann veg, að ekki er hægt að bera hana að neinu leyti saman við afkomu þeirra, er föst laun hafa. Með því vil ég þó ekki segja, að laun allra starfsmanna ríkisins séu nægileg, en hitt er víst, að auk þess sem þau eru miklum mun hærri en sá framfærslueyrir, sem alþýða manna í landinu hefir, þá hafa þau þann kost, að fyrirfram eru þau ákveðin og trygg, og á þessum tímum er það ekki lítill kostur, því að þó að menn hafi allan hug á að spara sitt lífsframfæri, verður þó alltaf erfiðara að framkvæma það, þegar með öllu er óvíst um, hverjir möguleikarnir verða. Ég held, að það sé ekki ástæða til að lýsa þessu öllu nánar. Því verður ekki neitað, að það verði að gera þær kröfur til þeirra, sem laun taka hjá því opinbera, að þeir einnig á þessum tímum neiti sér um margt eins og aðrir, og ég hygg, að fyrir starfsmönnum ríkisins sé það svo, að eftir að launin eru komin upp yfir 4000 kr., þá sé mögulegt að komast af, ef fjölskylduþyngsli eru ekki mjög mikil. Við höfum því, meiri hl. n., gengið inn á - og sérstaklega með það fyrir augum, að samkomulag næðist um afgreiðslu málsins - , að dýrtíðaruppbót verði framvegis greitt á hin lægri laun. Við gerum ráð fyrir, að það megi til sanns vegar færast, að það sé ekki með öllu ástæðulaust, þó að dýrtíðaruppbótin verði ákveðin samkv. brtt. okkar, en hinsvegar getum við ekki fundið, að það verði á neinn hátt réttlætt, eins og tímarnir eru nú, að greiða dýrtíðaruppbót á laun; þegar þau eru orðin svo, að viðunandi mætti teljast til lífsframfærslu.

Ég skal að svo stöddu ekki fara langt út í þann ágreining, sem er milli nefndarhlutanna, eða þær ástæður, sem minni hl. færir fyrir því, að hann vill samþ. frv. eins og það liggur fyrir. Mér virðist það vera af því, að nokkurt ósamræmi sé á launum þeirra, er laun taka samkvæmt launal., og öðrum starfsmönnum, sem laun taka eftir sérstökum lögum. Þetta má vel vera, og því er ekki að neita, að á launagreiðslum hins opinbera er mikið ósamræmi, en ég tel, að þessa leið sé ekki rétt að fara, að jafna þetta á þann hátt að bæta upp þeim, sem lægra eru launaðir, ef þeir hafa þau laun, sem telja verður á þessum tímum, að við verði unandi. Ég tel, að hina leiðina eigi frekar að fara, að lækka á þeim starfsmönnum, sem laun taka eftir sérstökum l., ef þau eru ekki sambærileg við laun hinna. Ég skal játa, að launal. eru þannig, að hin brýnasta þörf er á, að þau séu endurskoðuð, og hefir öllum þm. verið það ljóst um langt árabil, en þingið hefir ýtt því máli á undan sér með þeirri aðferð, sem hingað til hefir verið höfð: að framlengja dýrtíðaruppbótina - og mér virðist, að einmitt það, að haldið er áfram á þessari braut, ýti undir það, að enn um skeið verði því máli ekki sinnt, að endurskoða launalögin. Má vel vera, að segja megi, að tímarnir séu ekki hentugir til slíkra hluta, en ég hygg þó, að það starf hljóti að taka nokkurn tíma, og þess fyrr sem undirbúningur verði hafinn, þess fyrr megi vænta lausnar á málinu.

Ég vil taka það fram að því er snertir meiri hl. fjhn., að við munum ekki greiða atkv. með frv., ef brtt. okkar verða felldar, og ég hygg, að þannig sé ástatt hér í hv. d., að falli brtt. okkar, þá séu ekki miklar líkur til, að frv. gangi fram. Ég vil vænta þess, að hv. d. gangi inn á þessa miðlunarleið okkar og samþ. brtt. okkar, því að ég geri ráð fyrir, að fyrir þá, sem það vakir fyrir að geta fengið frv. samþ. eins og það liggur fyrir, þá sé betra að fá það samþ. með brtt. okkar en að fá enga réttarbót.

Ég skal svo að þessu sinni láta máli mínu lokið og geri ekki ráð fyrir, að ég þurfi að ræða þetta mál öllu meira frá minni hálfu. Málið er allljóst og till. okkar eru a. m. k. fyllilega í samræmi við það, sem nú er talið, að uppi verði að vera á teningnum um öll fjárútlát ríkissjóðs.