25.03.1933
Efri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (4200)

8. mál, laun embættismanna

Jón Jónsson:

Ég get fyrir mitt leyti ekki annað en vottað meiri hl. fjhn. þakkir fyrir till. sínar, þrátt fyrir það, þó að þær hafi ekki fengið hér góðar undirtektir það sem af er. Ég verð að segja, að eins og nú er högum háttað hjá miklum meiri hl. þjóðarinnar, fyrir hvaða kaupi hann verður að vinna, þá sé ekki með öllu ósanngjarnt, þó að ekki séu bætt upp laun þeirra manna, sem hafa margfalt meira kaup en almenningur í landinu. Það verð ég að segja, ef rannsökuð væru launakjör almennings í landinu, sérstaklega bændastéttarinnar, að þá væri það miklu minna en þessu nemur, og það mætti gera róttækar ráðstafanir, ef kaup bænda ætti að vera meira en þessir menn hafa. Svo ég held, að þetta geti ekki verið sérstakt hneyksli eins og nú standa sakir.

Það er rétt, sem hv. 1. landsk. tók fram, að ýmsir, sem taka laun utan launalaganna, hafa of há laun, miðað við þessa menn, en þá er það gefið, að það á að lækka þeirra laun á einhvern hátt. Það er ekki við öðru að búast en það hneyksli almenning í landinu, sem lifir við mesta skort, vegna þess hvernig gengur með afurðasöluna, ef sérstaklega á að fara að hlynna að þeim mönnum, sem eru margfalt betur settir. Ég hefði því heldur búizt við, að stjórnin kæmi með frv., áður en þingi sliti, sem færi í þá átt að lækka laun þeirra manna, sem betur eru settir. Ætti það að grípa yfir þá, sem eru utan launalaganna og þess vegna hafa hærri laun. Ég tel sjálfsagt, að það ætti að koma fram sem skattafrv., ef það ekki yrði á annan hátt.

Annars finnst mér, að það sé kominn tími til að endurskoða launalögin og að kippt verði í lag því misræmi, sem á sér stað með launagreiðslur. Væri því ekki úr vegi, að Alþ. fæli stj. að byrja á þeim undirbúningi, hvort sem það gæti orðið að framkvæmd fyrir næsta þing.

Af þeirri ástæðu, hvernig ástatt er með launakjör mikils meiri hluta þjóðarinnar, þá hika ég ekki við að greiða atkv. á móti frv.