25.03.1933
Efri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (4201)

8. mál, laun embættismanna

Jónas Jónsson:

Ég ætla aðeins að skjóta því fram til hv. 2. landsk., sem hefir verið mikill stuðningsmaður þessa frv. á undanförnum þingum, að frá hans sjónarmiði hlýtur það að vera hætta að stofna frv. í voða. Hv. 2. landsk. hlýtur að muna það, að fyrir 2 árum var borið fram samskonar frv. og þetta, og þá komum við framsóknarmenn með svipaðar till. og nú, en þær voru felldar af honum og öðrum íhaldsmönnum í d. Þá var opin leið fyrir okkur hina að fella frv., en það gerðum við ekki. Nú bættist við einn maður úr okkar flokki, sem lýsti því yfir, að hann væri tregur til að greiða frv. atkv., og ég býst við, að það gætu verið fleiri með í því. En af því að hv. 2. landsk. virðist hugsa meira um þá menn, sem hafa lág laun, og öll sanngirni mælir með, að dýrtíðaruppbót haldist á þeim launum frekar en á hærri launum, þá er það vafasamur greiði, sem þeir gera með því að vera á móti brtt., því þá getur farið svo, að frv. verði fellt og niður falli dýrtíðaruppbót á lágum launum.