25.03.1933
Efri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (4205)

8. mál, laun embættismanna

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það er alveg rétt, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði, að ég hefi oft bent á, að laun, þ. e. a. s. tekjur landsmanna, eru nú komin langt niður fyrir það, sem vanalegt er. En þegar ég sagði, að embættismenn, sem taka laun eftir launalögunum, yrðu verst staddir allra manna, þá átti ég vitanlega við þá menn, sem fá laun sín greidd í peningum. Það er ekki viðfelldið, að farið sé að lækka á þeim mönnum, sem þegar hafa fengið launalækkun samkv. þessum lögum, því að þessi lög, sem hér er um að ræða að framlengja, hafa reynzt launalækkunarlög ár frá ári. Og launalækkunin fer eftir verðlaginu í landinu, svo að þeir hafa þegar fengið launalækkun, þessir menn. Ég vil líka minna á það, að í hópi þeirra manna, sem kosta ríkissjóð á milli 3 og upp í 5- 6 þús. kr., eru flestir virðulegustu og ábyrgðarmestu starfsmenn landsins, þeir menn, sem mest er undir komið fyrir þjóðfélagið, að vinni sín störf vel, og mest er undir því komið að fá sómasamlega menn í þau embætti. Ég tel það enga bót fyrir ríkið, að laun þessara manna væru lækkuð svo úr hófi, að þau yrðu eins og t. d. laun kokka á togurum, með allri virðingu fyrir því starfi. Menn, sem hafa undirbúið sig á mjög löngum tíma og með miklum kostnaði til þeirra starfa, sem þeir svo gætu fengið laun fyrir, sem svaraði þeim skyldum og lifnaðarháttum umfram suma aðra í öðrum stöðum. Þeirra aðstaða er svo margháttuð, þannig að aukakostnað leiðir af.

Ég álít, að almenningur eigi kröfu til þess, að ekki verði farið að lækka á þeim mönnum, sem settir eru í ábyrgðarmestu embættin í þjóðfélaginu. Ef þeir eru teknir út úr án þess að um leið sé hugsað til þeirra starfsmanna, sem taka laun utan launalaganna, þá verður það hróplegt misræmi milli þessara tveggja flokka.

Yfirleitt eru í þeim launaflokknum, sem taka laun utan launalaganna, menn sem eru miklu sambærilegri við ýms störf, sem hvergi í heiminum eru eins hátt launuð, eins og t. d. prófessora, dómara og sýslumenn eða hvað annað, sem ég gæti til nefnt. Það má því ekki minna vera en fyrst sé gáð að því, hvað þurfi að lækka á þeim hóp manna, sem eru utan launalaganna, til þess að koma þeim í samræmi við þessa launalagamenn, sem verða verst úti allra manna.

Hv. frsm. meiri hl. óskaði þess, að málið væri tekið út af dagskrá, og get ég vel fallizt á það. Ég skildi hann svo, að hann fyrir sitt leyti vildi fallast á, að þessi samanburður væri gerður.

Það mun um það bil vera lokið skýrslugerð um laun starfsmanna utan launalaganna, og verður sú skýrsla lögð fyrir fjhn., enda má skýrt af henni sjá þennan samanburð.

Afgreiðslu þingsins má ekki vera þannig á neinn hátt, að eingöngu verði klipið af þessum föstu og virðulegustu starfsmönnum ríkisins, en allt annað látið halda sér. Það er ástæða til að gera þennan samanburð, sem ég gerði áðan, á starfsmönnum atvinnuveganna og verzlunarfyrirtækja. Það má vel vera, að þau laun megi lækka meira en orðið er, en þau hafa hvergi nærri lækkað á móts við þá lækkun, sem þegar er orðin á þeim starfsmönnum, sem hér um ræðir, og þegar atvinnufyrirtækin hafa orðið fyrir slíkum skakkaföllum, sem kunnugt er, þá er ástæða til að lækka á þeim starfsmönnum, sem þau hafa í sinni þjónustu. Ef um þetta er að ræða, að fyrst og fremst sé athugað um laun þeirra manna, sem eru utan launalaganna, þá get ég vel fellt mig við, að málið verði tekið út af dagskrá, þó ég annars hefði ekki hikað við að láta það ganga til atkv., hvernig sem færi.