22.02.1933
Efri deild: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (4218)

20. mál, gæslu landhelginnar og fl.

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er ekki búið að gera upp reikninga landhelgissjóðs fyrir árið 1932, svo að ég get ekki svarað því alveg nákvæmlega á þessari stundu, hvernig hagur hans er, enda er ekki innkomið í sjóðinn allt sektarfé, sem til hefir fallið á árinu. En þó að eitthvað kunni að vera til í sjóðnum, þá er það svo lítið, að ekki skiptir miklu máli. En að því er snertir þá fyrirspurn hv. 2. landsk., hvort ríkissjóður hafi tekið að láni fé hjá landhelgissjóði, þá hefir því alls ekki verið til að dreifa á síðastl. ári, af því að fé var ekki til í sjóðnum svo að neinu næmi. Eins og kunnugt er, þá hefir ríkissjóður stundum tekið lán hjá landhelgissjóði á undanförnum árum, og getur hv. 2. landsk. kynnt sér það t. d. í LR árið 1930. Mig minnir, að í árslok 1930 væri skuld ríkissjóðs við landhelgissjóð talin 300 þús. kr. En um árin 1931 og 1932 má ég fullyrða, þó að reikningum sé ekki lokið fyrir síðastl. ár, að þessi ár hefir verið greitt svo mikið úr ríkissjóði til landhelgisgæzlunnar, að það getur ekkert teljandi verið eftir í sjóðnum, þó að ríkissjóður hafi greitt honum að fullu skuld þá, sem talin var í árslok 1930.