01.05.1933
Neðri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2617 í B-deild Alþingistíðinda. (4246)

43. mál, læknishéraða - og prestakallasjóðir

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Allsherjarnefnd hefir orðið ásátt um að mæla með því, að frv. þetta fái fram að ganga með dálitlum breyt., sem n. hefir gert till. um. Þó hafa tveir hv. nm. skrifað undir nál. og brtt. með fyrirvara. Það eru þeir hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. Rang., sem að sjálfsögðu gera grein fyrir sinni sérstöðu gagnvart frv. Að vísu sé ég, að hvorugur þessara hv. þm. er viðstaddur nú. Frv. þetta fer fram á það, að ef einstök héruð verða læknislaus um tíma, þá renni þau laun, er orðið hefði að greiða þjónandi lækni úr ríkissjóði, í sérstakan sjóð, sem skal vera eign þess læknishéraðs, sem læknislaust hefir verið. Skal síðan þessum sjóði varið til endurbóta á heilbrigðismálum héraðsins, svo sem með því að leggja fé úr sjóðnum til læknisbústaða eða annars þess, sem mest þörf er fyrir og að gagni má verða.

Allshn. fellst á meginhugsun þessa frv., að það fé, sem sparast við það, að afskekkt héruð verða læknislaus, oftast af því, að erfitt er að fá lækni til að setjast þar að við þau skilyrði, sem fyrir hendi eru, skuli notað til þess að gera héraðinu léttara fyrir að geta haft lækni eftirleiðis. Það hefir á þessu þingi orðið að veita einu læknishéraði allverulegan styrk, sem vegna fátæktar gat ekki staðið undir kostnaði af byggingu læknisbústaðar, og það er ekki ólíklegt, að slíkar styrkbeiðnir geti komið fleiri. Þess vegna hefir allshn. fallizt á það, að því fé, sem ríkissjóði sparast við það, að héruðin eru læknislaus, verði varið til þessara hluta, en n. leggur áherzlu á það, að því verði eingöngu varið héruðunum til góða, svo sem til að byggja læknisbústaði, en ekki til þess að veita starfandi læknum launauppbætur.

Hinsvegar hefir n. ekki getað fallizt á það, að þau laun yfirsetukvenna, sem spöruðust vegna þess að umdæmi væru yfirsetukonulaus, skyldi farið með á sama hátt. Sú skoðun er byggð á þeim ástæðum, að ef bæta ætti á einhvern hátt aðstöðu yfirsetukvenna í einstökum héruðum, þá yrði það ekki hægt á annan hátt en með launauppbót, en þá stefnu getur n. alls ekki fallizt á. Nefndin telur það orka mjög tvímælis, hvort frekar þyrfti að bæta kjör yfirsetukvenna í strjálbyggðum héruðum eða hinna, er hafa fjölmennari umdæmi. Starfið er svo lítið í hinum fámennu umdæmum, að þau laun, sem greidd eru nú, virðast vel viðunandi. Laun yfirsetukvenna hafa nú líka verið hækkuð fyrir skömmu, og sýnist því muni síður vera þörf breytinga í því efni, enda er n. mótfallin, að laun séu hækkuð við þessa starfsmenn eða aðra eins og nú er ástatt. Af þessum ástæðum hefir n. lagt til með sínum brtt., að tekin verði út úr frv. öll ákvæði, er snerta yfirsetukonur, svo að frv. fjalli aðeins um læknana. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. í þetta sinn. Ég geri ráð fyrir, að þeir hv. nm., sem hafa skrifað undir nál. með fyrirvara, geri grein fyrir sinni afstöðu sjálfir.