01.05.1933
Neðri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2620 í B-deild Alþingistíðinda. (4251)

43. mál, læknishéraða - og prestakallasjóðir

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég vildi aðeins vekja athygli hv. d. á því, að ef frv. þetta, um að leggja það fé, sem sparast ríkissjóði vegna þess að einstök læknishéruð eru læknislaus, í sérstaka sjóði handa þeim einstöku héruðum, verður samþ., þá má ganga út frá því sem vísu, að það hljóta að koma fram kröfur frá öðrum embættisgreinum um samskonar greiðslur úr ríkissjóði. Um þetta vildi ég aðvara hv. þdm. Það hefir verið mikið gert úr því í umr., hve mismunandi launakjör læknar hefðu í hinum einstöku héruðum hér á landi, og að læknar í hinum stærri og strjálbyggðari héruðum væru miklu verr settir en aðrir læknar, en ég vil benda á það í þessu sambandi, að það ber ekki mikið á því, að það gangi illa að fá lækna í þessi héruð. En það, sem ég aðallega hefi á móti þessu frv., er það, að ég sé ekki, með hvaða sanngirni Alþingi gæti staðið á móti samskonar kröfum annara embættisgreina, ef þetta frv. verður samþ. Það er auðséð bæði á frv. og brtt., að búizt er við að nota þessa sjóði til þess að bæta launakjör lækna í einstökum héruðum, en þá virðist auðsætt, að miklu eðlilegra væri að taka launalögin að því er snertir héraðslækna til endurskoðunar. Þá væri gengið hreint til verks, en þessa aðferð kann ég ekki við og finnst hún í mesta máta undarleg og augljóst, að ef henni leiðir, að fleiri slíkar kröfur koma til Alþingis, sem það á bágt með að neita.