23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (4296)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Eins og sjá má af áliti fjhn., hefir n. orðið ásátt um að mæla með þessu frv. með nokkrum breyt., sem n. hefir flutt. N. hefir fallizt á, að það sé rétt, sem frv. fer fram á, að setja almenn l. og reglur um vörzlu opinberra sjóða, en hinsvegar hefir hún ekki getað fallizt alveg á þær reglur, sem komu fram í frv. sjálfu. N. telur þær vera of einskorðaðar að sumu leyti, svo sem eins og það, að þurfa að setja alla sjóði, smáa og stóra, undir yfirskoðun fjmrn., og reikningar þeirra allra vera birtir í Stjtíð. Annað það, að útiloka t. d. alla sparisjóði frá því að mega hafa til ávöxtunar óbundið fé hinna einstöku sjóða. Það getur verið hentugt að ávaxta í sparisjóðum úti um land það lausafé, sem til fellst á hverjum stað. Í þriðja lagi eru það þær reglur frv., sem útiloka, að hægt sé að ávaxta fé gegn fasteignaveði, eins og venja mun vera til og hefir einatt verið talið öruggt hér á landi, að því tilskildu, að ekki sé farið of hátt í veðsetningu fasteigna. N. hefir því sniðið sínar till. með tilliti til þess, sem ég hefi sagt. Í fyrsta lagi, að þeir sjóðir, sem eru í vörzlu ríkisins eða embættismanna og opinberra starfsmanna, skuli vera undir yfirskoðun fjmrn., eins og frv. fór fram á, en náttúrlega raskar þetta ekki því, að umráð sjóðanna skuli vera þau, sem sérstaklega eru ákveðin í stofnskrám, þannig, að ef ákveðið er í stofnskrám, að sjóðir séu í umsjá t. d. biskups eða annara embættismanna, eða e. t. v. í umsjá hinna ýmsu deilda stjórnarráðsins, þá haldi það áfram að vera í slíkri umsjá, en verði eftirleiðis undir yfirumsjá fjmrn. Um alla sjóði, sem frv. tekjur til, sé það ákveðið, að þeir skuli vera endurskoðaðir af hinni umboðslegu endurskoðun. Um þá aðra sjóði, sem 1. gr. tekur ekki til, eru settar þar fram þær reglur, að skylt sé að birta ársreikning þeirra í opinberu blaði eða tímariti. Ennfremur eru settar reglur um „kritíska“ endurskoðun, og skal hún athuga, hvort með féð er farið samkv. ákvæðum skipulagsskránna. Það er sjálfsagt, að almenningur eigi þess kost að fylgjast með, hversu farið er með fjármál þessara sjóða, og að hann eigi kost á að sjá það í opinberu blaði eða tímariti. Í framkvæmdinni býst ég við, að þetta yrði þannig, að reikningar sjóðanna yrðu birtir t. d. í Lögbirtingabl. Þó er það ekki ákveðið í till. n.

Þá er þess í þriðja lagi að geta, að n. hefir tekið hér upp till., sem ekki voru upphaflega í frv., um að stofnunum og fyrirtækjum, sem njóta ríkisstyrks, sé einnig skylt að birta ársreikninga sína opinberlega, til þess að almenningur, sem hér á hlut að máli, eigi aðgang að því að fylgjast með því, hvernig um fyrirtækin fer. Það er algengt, að fyrirtæki fái ábyrgð ríkis, bæjar- eða sýslufélags, eins og t. d. ýmsar hafnargerðir, rafveitufyrirtæki, atvinnurekstrarfélög, eins og samvinnufélög o. s. frv. N. vill, að þessum fyrirtækjum sé einnig skylt að birta sína reikninga opinberlega.

Að svo mæltu vil ég f. h. n. leggja þessar till. undir d. og þykir ekki ástæða til að taka fleira fram að svo stöddu.