23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (4298)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það er eitt atriði í 2. gr. hins upphaflega frv., sem hv. fjhn. hefir sleppt úr brtt. sínum, og á ég þar við 2. tölul. gr., þar sem ákveðið er, að sjóðirnir skuli ávaxtaðir í skuldabréfum og verðbréfum, tryggðum með ríkisábyrgð, og séu bréfin keypt beint af stofnunum þeim og fyrirtækjum, sem gefa út bréfin, og með venjulegu markaðsverði þeirra og kjörum, og skal leita úrskurðar fjmrh. um kaup bréfa í hvert sinn. Ég tel hér fullfast að orði kveðið, að öll slík bréf skuli vera tryggð með ríkisábyrgð. En hitt er mikill kostur, að ákveða, að fé sjóðanna skuli geymt í tryggum skuldabréfum og verðbréfum og að það sé lagt undir úrskurð fjmrn., hvaða verðbréf séu trygg. Það er nauðsynlegt, ekki sízt á þessum tímum, þegar verð skuldabréfa er svo hvikult sem raun er á, og sala á veðdeildarbréfum er algerlega frjáls. Það er sjálfsagt, að þær stofnanir, sem gefa skuldabréfin út, kaupi þau sjálfar. Þetta er það ákvæði, sem ekki má sleppa úr frv. Landsbankinn hefir ekki gefið út neitt fast verð á veðdeildarbréfunum, heldur hafa þau verið keypt með mismunandi verði. En öruggasta skilyrðið fyrir því að verðfesta bréfin er það, að Landsbankinn kaupi þau einn. Þetta er sú till. í hinu upphafl. frv., sem ég styð eindregið og vil láta standa; einnig mætti taka þetta atriði upp með sérstakri brtt. - Aftur á móti álít ég fulllangt gengið í 3. gr. frv., að ætlast til þess, að sagt verði upp eða riftað lánasamningum einstakra manna við opinbera sjóði, svo sem unnt er, um leið og Landsb. eða önnur peningastofnun með ríkisábyrgð yfirtekur sjóðina eða skuldabréf þeirra.

Það má ekki krefjast þess, að þau lán, sem sjóðirnir eiga útistandandi, verði innkölluð umsvifalaust, heldur verður að sýna meiri nærgætni og linkind í því efni.

Þá vildi ég minnast á 3. brtt. hv. fjhn., um að öllum stofnunum og fyrirtækjum, sem njóta styrks af almannafé eða opinberrar ábyrgðar, sé skylt að birta ársreikninga sína opinberlega. Það er vitanlega eðlilegt og sjálfsagt að gera þessa kröfu til ýmsra stofnana, sem njóta opinbers styrks eða ábyrgðar, en ég tel enga þörf á að hafa þetta ákvæði svona rúmt eða víðtækt, þannig að t. d. ársreikningar einstakra skóla og annara þess háttar stofnana, sem koma almenningi eða því opinbera lítið við, séu birtir opinberlega, enda þótt þær stofnanir njóti einhvers styrks eða ábyrgðar. Ég held það mætti takmarka þetta, svo að ekki verði prentuð stórflóð af skólareikningum o. fl., sem hreppsn. og sýslun. eiga að úrskurða.

Það var einkum þetta þrennt, sem ég vildi drepa á. En aðalatriðið er það, að skuldabréfin séu vel tryggð og að þau séu keypt beint af þeim stofnunum, sem gefa þau út, enda sé leitað úrskurðar fjmrh. um kaup bréfanna.