23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (4301)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Þegar þetta frv. kom hér fram í þd., þá gat ég ekki séð, að það væri neitt tilefni fyrir hendi til löggjafar um þau atriði, er í frv. felast, ekki sízt þegar litið er á, af hvaða ástæðum það er fram komið. Mér skildist, að þetta frv. væri nokkurskonar framhald af stríði hv. jafnaðarmanna gegn hæstv. dómsmrh. út af Reykjahlíðarmálinu. Frv. er þannig úr garði gert frá hendi hv. flm., að það má með fullum rétti segja, að ekki sé nokkur vegur til þess að framkvæma það, þó það yrði gert að lögum. Ég felli mig miklu betur við brtt. hv. fjhn., ef ástæða þætti til að setja lög um þetta. En ég get bara ekki fundið nokkurt réttmætt tilefni til þess eins og nú stendur. Um einstök atriði í frv. skal ég ekki fjölyrða, en þó vil ég taka það fram, að ég álít alls ekki rétt að fyrirskipa þeim, sem hafa opinbera sjóði undir höndum, eða skylda þá með lögum til að kaupa veðdeildarbréf hærra verði en þau ganga kaupum og sölum á opnum markaði, nema forstöðumönnum sjóðanna sé ekki trúandi til þess að gera reikningslega grein fyrir því, við hvaða verði þeir hafi keypt bréfin. Ég veit ekki til, að það sé nokkurt tilefni fyrir hendi til þess að væna forstöðumennina á þann hátt. En ef það er álitið óheiðarlegt fyrir opinbera sjóði eða stofnanir að kaupa verðbréf lægra verði en þau eru nóteruð í Landsbankanum, þá get ég ekki séð, hvaða ástæða er til þess, ef kaupandi álítur sér hag að bréfakaupunum og seljandi telur viðskiptin líka vera sér til hagnaðar. Viðskiptin fara venjulega þannig fram, að lántakandi fær veðdeildarbréfin út á skuldabréf í banka.

Sé það tilgangurinn með þessu frv. að halda uppi óeðlilega háu verði á skuldabréfunum, þá held ég, að þetta sé þýðingarlaus löggjöf, því að ef það er svo mikill munur á verði bréfanna, sem sagt hefir verið, ef til vill um 10%, þá tel ég ekki nokkra von til þess, að opinberir sjóðir, sem hafa yfir tiltölulega litlu fé að ráða árlega, hafi bolmagn til að kaupa bréfin yfirleitt á frjálsum markaði það dýrara en Landsbankinn, þó þeir kunni að álíta sér hag að slíkum kaupum í einstökum tilfellum. Ég get ekki verið sammála þeim mönnum, sem álíta sjálfsagt, að þeir sjóðir, sem hér um ræðir, neiti sér um að kaupa þau verðbréf, sem þeir kaupa árlega, við því verði, sem þeir fá þau lægst fyrir. Ég skil ekki heldur almennilega, hvaða meiningu á að leggja í 2. gr. brtt., þar sem segir: „Stjórnendum og forráðamönnum allra annara sjóða, sem varða almenning, er skylt að birta reikninga þeirra árlega í opinberu blaði eða riti“. Ég vildi spyrja, hvort fjhn. hefir gert sér ljósa grein fyrir því, hvaða fyrirmæli felast í þessari grein. Mér er það ekki ljóst og óska upplýsinga um þetta atriði. Að síðustu vil ég endurtaka það, sem hæstv. fjmrh. sagði um 3. gr., að mér þykir það ekki nauðsynlegt fyrirmæli, að allar þær stofnanir og fyrirtæki, sem á einhvern hátt eru styrkt af almannafé eða njóta opinberrar ábyrgðar, skuli birta reikninga sína opinberlega. Ég hefi ekki heyrt grg. fyrir þessari grein heldur, sem ég get fellt mig við, svo að ég geti gefið henni mitt atkv. enn sem komið er. Um þetta vildi ég gjarnan heyra frekari upplýsingar frá hv. frsm. n. áður en ég get tekið ákvörðun fyrir sjálfan mig í þessum efnum.