23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (4303)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Það voru nokkur einstök atriði, sem mig langaði til að minnast á, og þá vil ég fyrst byrja á þeirri fyrirspurn til hv. 1. flm. um l. lið 2. gr., þar sem stendur, að eignir skuli ávaxtaðar í innstæðum í peningastofnunum, tryggðum með ríkisábyrgð, hvort þar sé átt við, að þá skuli að engu höfð ákvæði, sem oft standa í skipulagsskrám frá gefandanum sjálfum, þar sem það er tiltekið, að innstæða sjóðsins skuli geymd í einhverjum tilteknum sparisjóði í héraðinu. Ef það er meiningin, vil ég, að sá skilningur komi fram.

Þegar gefandinn hefir ákveðið það í gjafabréfinu sjálfu, að sjóðurinn yrði ávaxtaður í héraðinu, þá mundi það vekja andstöðu og óþægindi hjá ýmsum héruðum úti um land, ef nú ætti allt í einu að kippa sjóðnum úr héraðinu og ávaxta hann á annan hátt. Þar fyrir er ég ekki að segja, að það sé eins tryggt að ávaxta slíkt fé í sparisjóðum eins og stofnunum, sem tryggðar eru með ríkisábyrgð, heldur á ég aðeins við þá sjóði, þar sem sjálfar skipulagsskrárnar tiltaka, að svo skuli vera.

Þá vil ég minnast á 1. gr. í brtt. hv. fjhn., þar sem lagt er til, að fyrirskipað sé, að reikningur hvers einasta sjóðs, ekki aðeins þeirra, sem eru í umsjá og vörzlu ríkisstj., heldur og hvers embættismanns ríkisins, skuli birtur í B-deild Stjtíð. Þarf ekki að líta yfir nema lítinn part af sumum sýslum til að komast að raun um, að í 2- 3 hreppum skipta slíkir sjóðir jafnvel tugum, og mundi þurfa að bæta allmiklu við af prentuðu máli í B-deild Stjtíð., ef hver slíkur sjóður, sem er á einhvern hátt undir eftirliti einhvers embættismanns, t. d. prests, læknis eða hreppstjóra, ætti að birtast þar.

Ég vil skjóta því til n., hvort ekki mundi mega fá fullkomlega eins mikla tryggingu með því að láta það ákvæði standa, að reikningar sjóðanna skuli árlega yfirskoðaðir af ríkisendurskoðuninni, eða þá af þeim stjórnarvöldum, sem stj. fæli endurskoðunina. Stundum getur staðið svo á, að sýslunefnd eða bæjarstjórn eða fulltrúar, kosnir af henni, hefðu enn meiri kunnugleika til þess að gera „kritíska“endurskoðun á þeim sjóðum, sem hér er um að ræða. Mér skilst, að ríkisendurskoðun geti í mörgum tilfellum, þegar um sjóði úti um land er að ræða, ekki orðið annað en töluendurskoðun, því að til kritískrar endurskoðunar mundi ríkisendurskoðunina vanta nægan kunnugleika. jafnframt vil ég skjóta því til hv. fjhn., hvort henni þætti ekki vera eins mikil trygging í því, að hver slíkur reikningur, sem ræðir um í 2. lið brtt., sé sendur hlutaðeigandi sýslunefnd eða bæjarstjórn til yfirskoðunar og kritískrar endurskoðunar, og síðan sendur fjmrn., eins og þó að slíkir reikningar væru birtir í opinberu blaði. Það verður að líta á það, að það hefir nokkurn kostnað í för með sér að birta reikning hvers smásjóðs í opinberu blaði, og sumum sjóðum er þannig fyrir komið, að þeir eiga að ávaxtast þangað til þeir hafa náð vissri upphæð, og ef slíkum sjóðum er komið fyrir í söfnunarsjóði Íslands, hafa sjóðirnir fyrst um sinn engar handbærar tekjur til að borga eitt eða neitt, fyrr en þeir hafa náð einhverri tiltekinni upphæð, sem gefandinn hefir sett í skipulagsskrána. Slíkir sjóðir eru margir til í landinu, og ég veit ekki vel, hvaðan það fé ætti að koma, sem færi til birtingar þeirra reikninga, nema því aðeins, að ríkið ætti að kosta þá auglýsingu.

Ég vil skjóta þessu til n. til þess að hún yfirvegi það. Sama mun í mörgum tilfellum mega segja um 3. brtt., sem ræðir um breyt. á 3. gr. frv., um að stofnunum og fyrirtækjum, sem njóta styrks af almannafé eða opinberrar ábyrgðar, sé skylt að birta reikninga sína árlega opinberlega. Má segja, að í mörgum tilfellum sé þetta æskilegt. Hæstv. fjmrh. hefir nú samt bent á ýms tilfelli, þar sem slíkt yrði erfitt í vöfum og verður varla við komið, eins og t. d. ef birta ætti alla skólareikninga.

Ég hygg, að sömu tryggingu mætti fá með því, að þeir væru sendir tilteknum stjórnarvöldum til endurskoðunar, sem mundi í mörgum tilfellum vera bæjarstjórn eða sýslunefnd, en sjálfsagt er og mjög nauðsynlegt, að fjmrn. hafi á hverjum tíma nægilegt og glöggt yfirlit yfir alla opinbera sjóði í landinu, og finnst mér tæplega vera nógu vel séð fyrir því í brtt. fjhn.