23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (4306)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Héðinn Valdimarsson:

Aðeins stutt aths. Hæstv. atvmrh. bar fram þá fyrirspurn út af fyrirmælum 2. gr. frv. okkar, hvort meiningin sé að hafa að engu ákvæði, sem gefendurnir sjálfir kunna að hafa sett í skipulagsskrárnar um það, að innstæðufé sjóðanna skuli geymt í einhverjum sparisjóðum héraðanna. Viðvíkjandi þessu vil ég leyfa mér að vísa til 1. gr. frv., þar sem stendur, að með sjóðina skuli farið nákvæmlega eftir því, sem fyrir er mælt af stofnendunum, og eignir þeirra geymdar og ávaxtaðar samkv. lögum þessum, að svo miklu leyti sem það kemur ekki í bága við hin sérstöku lög um sjóðina eða skipulagsskrár þeirra. Þar sem skipulagsskrár kveða öðruvísi á um, halda þau ákvæði auðvitað áfram að vera í gildi, þrátt fyrir þessi lög.

Það er misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv., ef hann heldur, að þótt bréfin yrðu keypt beint af bönkunum, þá yrðu teknir hærri vextir og sjóðunum gert erfiðara fyrir. Þessu er alls ekki til að dreifa nú, því að sjóðirnir kaupa nú yfirleitt við svipuðu verði og Landsbankinn gerir. Það er mesti misskilningur, að það sé af því, að sjóðirnir kaupi hærra verði, að þeir græða lítið. Hitt er eðlilegra, að þessir peningar séu í vörzlum bankastofnana en þessara mörgu hundraða sjóðstjórna úti um allt land. Annað mál er það, hvaða gengi yrði haft á bréfunum. Má eftir atvikum segja, að Landsbankinn hafi það of hátt eða of lágt. Það er álitamál. Ætti auðvitað helzt að vera fast gengi á bréfunum, en það kemur í rauninni ekki því máli við, sem hér ræðir um.