19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2630 í B-deild Alþingistíðinda. (4309)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Forseti (JörB):

Hv. þm. Borgf. hefir vikið að ákvæði því, er felst í 28. gr. þingskapanna, um að frv. eða till., sem önnurhvor d. hafi fellt, megi ekki bera aftur fram á því sama þingi. Þetta ákvæði er sett til þess að varna því, að samskonar frv., í öllum aðalatriðum eins, séu borin fram oftar en einu sinni á sama þinginu. Hvað þetta frv. snertir, þá verður því ekki á móti mælt, að það fjallar um ámóta efni og frv. það, sem borið var fram af ríkisstj. í byrjun þingsins og þá fellt. Þó er efnismunur þessara frv. allverulegur. Í fyrra frv. voru undanþáguheimildirnar miklu víðtækari, þar sem stj. var gefin heimild til að leyfa dragnótaveiðar í landhelgi allt að 2 mánuðum lengur en annars mátti samkv. l. Þó átti þetta leyfi aðeins að gilda um eins árs bil. Hinsvegar er heimildin í þessu frv. allstaðbundin. Ákvæði 1. gr. taka til aðeins vissan tíma af árinu, og annan en þann, sem var tiltekinn í frv. stj. Og sú undanþága, sem hér er farið fram á, gildir ekki nema um nokkurn hluta landhelginnar, eða svæðið frá Hjörleifshöfða að Látrabjargi. Efnismunur frv. er þannig svo mikill, að ég mun ekki treysta mér til þess að vísa því frv., er nú hefir verið flutt, frá. Úrskurður minn er því sá, að málið megi koma hér til meðferðar. (PO: Má ég ekki gefa nokkrar frekari upplýsingar?). Jú, sjálfsagt. Ég er hv. þm. Borgf. þakklátur fyrir allar hans upplýsingar.