08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (4313)

64. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Á allmörgum undanförnum þingum höfum við Alþfl.menn hreyft því, að nauðsyn bæri til að setja lög um almennar alþýðutryggingar. Á þinginu 1928 var samþ. till. um að fela stj. að láta undirbúa og leggja fyrir næsta þing, árið 1929, frv. um þetta efni. Á þinginu 1929 bólaði ekki á neinu frv. frá stj. um þetta efni, en á því þingi var að lokum samþ. till. um, að undirbúa skyldi fyrir næsta þing frv. um ellitryggingar. En á þinginu 1930 kemur svo ekki þetta frv. fram, en þá er að síðustu samþ. að skipa þriggja manna mþn. til þess að undirbúa frv. að almennri tryggingalöggjöf. Skömmu eftir þingslit skipaði svo stj. í þessa n. núv. forsrh., Ásgeir Ásgeirsson, núv. 1. þm. Reykv., Jakob Möller, og mig. N. hélt svo nokkra fundi seinni hluta ársins 1930. Maður, sem ríkisstj. hafði ári áður ráðið til þess að undirbúa ellitryggingafrv., tók þátt í þeim fundum og vann með n. En svo féllu niður störf þessarar n. án þess þeim væri lokið, og síðan hefir hún ekkert starfað. Það frv., sem hér liggur fyrir, er því ekki verk n., heldur er það að öllu leyti samið af mér; hefir mér ekki gefizt kostur á að bera það undir n. Það eru engin tvímæli á því, að þörf á tryggingum fyrir alþýðu manna hér á landi er mikil. Efnahagur manna er svo misjafn og atvinna margra svo stopul, að það má teljast knýjandi nauðsyn að koma á sem fullkomnustum tryggingum fyrir borgara þjóðfélagsins. En löggjöf um þau efni hefir fram að þessu verið nauðaómerkileg hér á Íslandi, svo að varla munu dæmi til slíks hjá siðuðu þjóðfélagi. Einu lögin, sem máli skipta í þessu efni, eru fátækralögin, sem eru bæði gömul og úrelt. Þau fela í sér margra mannsaldra gömul ákvæði, sem segja má, að séu allt að því úr forneskju, eins og t. d. ákvæðin um nauðugan sveitarflutning og réttindamissi fyrir þeginn sveitarstyrk, sem eru nú orðin þjóðfélaginu til vansæmdar; svo og ennfremur það fyrirkomulag, sem orsakar, að afarmismunandi þungar byrðar hvíla á hinum ýmsu sveitarfélögum vegna fátækraframfærslunnar, svo að sumum sveitarfélögum liggur við gjaldþroti þeirra vegna. Þrásinnis hafa verið fram bornar till. um endurbætur á þessari löggjöf, en þær hafa ekki náð samþykki, nema nokkrar fremur smávægilegar breytingar.

Við höfum lög um ellitryggingar frá 1922. Eftir þeim greiða menn í sjóð ellistyrktargjald, sem er mjög lágt. Þessu fé er svo ári síðar úthlutað til einstaklinga eins og náðarbrauði, nálægt 50 kr. handa hverju gamalmenni. Þessu er úthlutað án nokkurra reglna, en aðeins eftir verðleikum einstaklinganna, og enginn hefir neinn kröfurétt til þessa gjalds.

Í heilbrigðismálum höfum við berklavarnalögin, sem að mörgu leyti bera af þessum lögum, og svo lög um aðgreiningu holdsveikrasjúklinga frá öðrum sjúklingum og sérstakt sjúkrahús fyrir þá. Þá er nú upptalið, nema slysatryggingalöggjöfin frá 1928, sem eru hin sæmilegustu lög, og eru þau hér í þessu frv. viða lögð til grundvallar.

Ég skal þá ekki hafa þennan inngang lengri, heldur snúa mér að efni frv. og drepa á nokkur höfuðatriði þess.

Tryggingarnar skiptast í 2 aðalflokka, lögbundnar skyldutryggingar og frjálsar tryggingar. Skyldutryggingar eru lögbundnar með 1. gr. og ennfremur 5. gr. frv. og ná yfir slysatryggingu, sjúkratryggingu, örorkutryggingu, tryggingu gegn atvinnuleysi og ellilaun. Er gert ráð fyrir, að í þeim flokki tryggingarinnar taki þátt allir þeir, sem hafa meiri hluta sinna tekna sem kaup frá öðrum. Hinn flokkur tryggingarinnar, frjálsa tryggingin, nær til þeirra borgara, sem hafa yfir 4 þús. kr. árstekjur auk 500 kr. fyrir hvern skylduómaga, miðað við Reykjavík, en lægra úti um land. Þessi flokkur nær yfir sjúkratryggingar, örorku- og ellitryggingar, og eru ákvæði um þetta aðallega í 47.- 50. gr. frv.

Erlendis er það víða svo, að í stað þess að öllum þáttum trygginganna sé steypt saman í eina heild, eru þeir aðgreindir og þeim afmörkuð sín vissu ákveðnu svið, en hér í fámenninu mundi það verða mjög til sparnaðar að sameina þetta í eitt kerfi, sem yrði auk þess auðveldara í rekstri. Erlendis þykir bera t. d. talsvert á því, að sjúkratryggingar séu misnotaðar, einkum á atvinnuleysistímum. Með því að sjúkratryggingar og atvinnuleysistryggingar séu undir sömu stjórn, sem getur ákveðið t. d. dagpeninga beggja trygginganna hina sömu, mundi niður falla öll freisting til misnotkunar.

Með tilliti til þeirra hlýlegu undirtekta, sem þessi mál hafa fengið á undanförnum þingum, má gera ráð fyrir, að eins muni fara enn, en þó má gera ráð fyrir, að einhver ágreiningur kunni að verða um einstök atriði, svo sem það, hve há iðgjöld skuli vera og sömuleiðis styrkir.

Í frv. er byggt á sama grundvelli og slysavarnalögin frá 1928, þar sem gert er ráð fyrir því, að sveitarfélög og atvinnurekendur standi straum af hinum lögboðnu tryggingum, en ekki beinlínis þeir, sem tryggðir eru. Dagkaup er ákveðið 5 kr. á dag, en lágmark 2 kr. Þó eiga þeir, sem hafa sérstaklega þunga fjölskyldu fram að færa, að fá nokkra uppbót, er miðast við tölu ómaganna.

Þó þessi lagabálkur sé allumfangsmikill, er okkur flm. það vel ljóst, að hann nær ekki yfir nema nokkurn hluta þeirra verkefna á þessu sviði, er bíða úrlausnar og leysa þarf, ef komast eiga í nokkurnveginn sæmilegt horf einföldustu þjóðfélagsmálin. Þess vegna gerum við ráð fyrir öðrum lagabálki um opinbera framfærslu. Í fyrsta lagi fyrir sjúklinga ýmist með ólæknandi sjúkdóma eða þá sjúkdóma, sem einangra þarf, eins og t. d. berkla; í öðru lagi um framfærslu barna, og í þriðja lagi um framfærslu þurfamanna í gamalli merkingu þess orðs, þeirra, sem ekki ná að heyra undir neinn lið hinna almennu trygginga, vandræðamannanna. Ef tryggingarnar samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, komast á, þá eru eftir aðeins þessir þrír flokkar manna, sem framfærslulög þarf að setja fyrir: sjúklingar, munaðarlaus börn og vandræðamenn. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, eru þó sett ákvæði til bráðabirgða fyrir þetta fólk. Þó vil ég vekja séstaklega athygli á því, að frv. er samið með það fyrir augum, að bráðlega verði sett lög um framfærslu barna og annara, er frv. þetta nær ekki til. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um frv. í þetta sinn. Ég vil leyfa mér að vona, að sú n., sem fær það til meðferðar hér í þessari hv. þd., kalli mig á fundi sína, er hún tekur frv. fyrir. Ég er fús til að gefa henni ýmsar upplýsingar, sem kann að vera, að ekki finnist í grg., og veita ýmsar skýringar, ef þörf er á. Ég vildi svo mega vænta þess, að hv. allshn., sem ég legg til, að fái frv. til athugunar, standi sig betur með afgreiðslu þess en raun varð á á síðasta þingi.