07.03.1933
Neðri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (4326)

65. mál, prestkallasjóð

Flm. (Magnús Jónsson):

Þegar ég flutti þetta mál í 2. skipti á síðasta þingi, þá tók ég fullt tillit til till. hv. þm. Dal., en hinsvegar hefi ég nú fellt það úr frv., af því að mér finnst, að þar sem nú er komið kirkjuráð, sem ekki var áður, þá sé rétt að láta allt féð ganga þangað. Held ég, að kirkjuráðið muni taka fullt tillit til óska útvarpsins. Ég er því mjög hlynntur, að einhverju fé sé varið til eflingar útvarpsprédikunum, því að þær eru að mínu áliti eitthvert vinsælasta efni, sem útvarpið flytur. Er langt frá því, að ég haldi, að ekki beri að efla þær sem mest. En ég hefi ekki tekið þessar till. upp í frv., af því að ég álít, að þessi starfsgrein eigi að sækja um fé á sama vettvangi og aðrar.

Ég vil benda hv. n. á það, að þótt hún vilji taka tillit til þessarar till. hv. þm. Dal., þá held ég, að of frekt sé í farið, ef verja skal til útvarpsins helmingi fjárins. Mætti taka það fram með óákveðnum orðum, að nokkru af fénu skyldi varið til kirkjulegrar starfsemi útvarpsins. Myndi kirkjuráðið eflaust taka vel í það. Má ekki skilja orð mín sem andmæli gegn þessum till. hv. þm., heldur sem bendingar til n.