07.03.1933
Neðri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (4327)

65. mál, prestkallasjóð

Jónas Þorbergsson:

Ég hefi litlu að bæta við orð hv. flm. Skil ég, að hann treystir kirkjuráðinu til að ráða fram úr þessu máli og fara vel með féð. En eftir því sem farið hefir um kirkjulega starfsemi í landinu, gæti hugsazt, að kirkjuráðið hefði nóga staði aðra en útvarpið, þar sem því fyndist ástæða til að koma fénu fyrir. En ég vil endurtaka þau orð mín, að mér þykir öll sanngirni mæla með því, að nokkru af þessu fé yrði varið til þess að halda uppi fjölbreytilegum útvarpsguðsþjónustum. Er og betri einn fugl í hendi en tveir í skógi, og vildi ég því helzt, að þetta væri fastákveðið. Vildi ég óska, að hv. n. og svo d. sæju sér fært að ákveða með 1., hversu stór hluti fjárins skuli fara til útvarpsins.