26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (4354)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég tók það fram í upphafi við flutning þessa máls, að frv. væri fram komið vegna þess, að með samþykkt þess væri séð fyrir sumaratvinnu fjölda sjómanna og margra verkamanna hér í Reykjavík. Í því sambandi drap ég einnig á það, að Alþingi gerir nú stórfelldari ráðstafanir en venjulegt er að gera, vegna vandræða manna á yfirstandandi örðugleikatímum, til þess að mönnum mætti skiljast, að hér er virkilega um þjóðþrifamál að ræða, sem þarf fram að ganga, því að ég tók þetta aðallega fram til skilningsauka fyrir þá, sem eru á móti þessu máli. Við í sjútvn. viljum undirstrika þennan skilning á frv. enn frekar með því að binda þessa löggjöf við árslok 1934, og flytjum við brtt. í þá átt á þskj. 799, þannig, að ef l. hafa ekki komið til framkvæmda fyrir þann tíma, falla þau úr gildi af sjálfu sér. N. var þeirrar skoðunar, að þetta mundi gera málið aðgengilegra fyrir þá, sem enn höfðu ekki opin augu fyrir nytsemi þess. Þetta er aðalbrtt. n. við frv., og hin brtt. er aðeins nauðsynleg leiðrétting á texta frv. vegna breyt., sem áður hefir verið á því gerð.