26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (4355)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég hafði ekki lokið máli mínu síðast, er þetta mál var hér til umr. við 2. umr., en eftir samtali við forseta treysti ég því, að annað mál á dagskránni, sem vitað er, að tekur nokkurn tíma að afgreiða, yrði tekið fyrir á undan, og hefi ég því nú ráðstafað tíma mínum svo, að ég er meira viðbundinn en ég hefði óskað að vera, þegar d. leggur síðustu hönd á þetta dragnótaveiðamál.

Mér er kunnugt um það, að meira kapp er nú lagt á að koma þessu máli áfram en nokkru sinni áður, og er mjög reynt að snúa þm. og fá þá til að greiða atkv. ofan í sjálfa sig. Við eigum oft að fagna innlendum og útlendum gestum hér á Alþingi, sem velkomnir eru hingað, en það hefir sýnt sig í þessu máli, að þeir eru ekki síður velkomnir hér á Alþingi, sem eiga rætur sínar að rekja til annara landa, og virðist sem útlendingarnir hafi ekki síður áhuga fyrir málinu en sjálf landsins börn, sem eiga framfærslu sína og afkomu undir því, hvernig fer um íslenzka atvinnuvegi í nútíð og framtíð. Það virðast því ýms öfl vera hér að verki nú, sem ekki er venjulegt, þegar um er að ræða löggjöf hér á Alþingi. Ég minnist þó eins dæmis, þegar líkt var ástatt í þessum efnum, en þá var um að ræða ráðstafanir út af dýrasjúkdómi einum, sem þá geisaði í nágrannalöndum okkar, og gengu þær ráðstafanir í þá átt að takmarga innflutning á vissum dýraafurðum. Var óspart unnið á móti þeim ráðstöfunum af fulltrúum þeirra ríkja, sem innflutningstakmörkunin kom niður á. Stendur líkt á hér nú, og vildi ég aðeins vekja athygli hv. dm. á þessu, og ætti þess þó reyndar ekki að þurfa, því að ég býst við, að flestir hv. þm. hafi fengið að smakka á þeim beint eða óbeint í gegnum ýmsa milliliði.

Sjútvn. flytur nú brtt. við frv., sem í sjálfu sér er einskis virði, en felur þó í sér viðurkenningu á málstað okkar, sem á móti þessu máli höfum barizt, af hálfu þeirra manna, sem fastast hafa haldið á málinu og digurbarkalegast talað um það, að allar mótbárur gegn því væru ekki annað en bábiljur og annað því um líkt, sem látið hefir verið klingja, Í brtt. felst þó sú viðurkenning, að þetta sé ekki eins mikil bábilja og hv. flm. og fylgismenn málsins hafa látið. Í þeim felst viðurkenning á því, að ekki sé rétt að setja löggjöf um þetta til frambúðar, þó að tilgangurinn með brtt. sé að vísu ekki annar en sá, að fleka menn til fylgis við málið, svo að hægt sé að koma þessari fáránlegu skaðsemdarlöggjöf á um aldur og æfi. Ég vil endurtaka það, að brtt. er ekki annað en lævísleg tilraun til blekkingar.

Auk þeirrar skaðsemdar fyrir fiskiveiðar vorar í nútíð og framtíð, sem frv. felur í sér, þá leiðir líka af því, að þjóðfélagið er hreint og beint klofið í tvennt. Norður- og Austurland eiga að búa við önnur lagaákvæði en Suður- og Vesturland. Það hefir bólað á því, að ýmsir æsingamenn hafa reynt að koma slíkum klofningi af stað með því að blása að kolum óánægju og sundurlyndis, til að geta fiskað sjálfir í gruggugu vatni. En þetta er fyrsta skiptið, sem löggjafarvaldið sjálft gerir slíka tilraun. Aldrei fyrr hefir komið fram á Alþingi viðleitni í þá átt að gera þegnana misréttháa eftir því, hvar þeir búa á landinu. Mætti því vænta þess, þó að sleppt sé öðrum skaðsemdarákvæðum frv., að sjálft Alþingi gengi ekki inn á þá braut að kljúfa þjóðfélagið til að stofna til óeirða og illinda meðal þegnanna, sem hlýtur að leiða af slíku misrétti. Það er óhugsandi, að þegnarnir láti bjóða sér slíkt. Borgararnir, sem standa jafnt undir byrðum ríkisins hvar á landinu sem þeir eru, sætta sig ekki við, að réttur þeirra til ákvarðana sé gerður svo misjafn sem frv. þetta miðar að.

Það er skömm að því, að nokkur þm. skuli bera þetta frv. fram, og höfuðskömm, að nefnd skuli ljá því fylgi sitt. En það bítur höfuðið af skömminni, ef Alþingi leggur blessun sína yfir slíkan draug og ófreskju.

Ég hefi bent á það áður, að frv. þetta ber næsta undarlega að. Um leið og Alþingi er að ganga frá lögum, sem tryggja mönnum sem jafnastan rétt til að hafa áhrif á fulltrúaval þjóðarinnar hvar sem þeir eru á landinu, er borið fram frv. um þetta, er gengur svo herfilega í gagnstæða átt. Ég vænti þess því, að þótt einungis sé litið á þetta atriði, firri meiri hl. deildarinnar Alþingi þeirri svívirðingu, að frv. nái fram að ganga.

Þá vil ég víkja nokkuð að þeirri stefnu, sem tekin er upp í frv. að öðru leyti, þótt ég hafi að vísu oft gert það áður. Það er hv. þm. Vestm., sem ber ábyrgð á því, að frv. er fram komið, ásamt þeim, er lagt hafa sinn skerf til þess, að hann flytur það. (JJós: Frv. er flutt beint af mér). Hv. þm. veitir ekkert af að dreifa ábyrgðinni, og mun ekki hrökkva til; þótt hann hafi breitt bak og herðar, hefir hann engan kraft til þess, hvorki andlega né líkamlega, að rísa undir slíkri ábyrgð, hvorki einn né með öðrum, og reynslan mun sýna honum, að hann hefir hér af oftrausti reist sér hurðarás um öxl.

Til að gera fullkomlega ljóst, í hvaða farvegi þetta mál hans liggur, vil ég benda mönnum á grein um dragnótaveiðar, sem birtist í einu dagblaðinu í gær, og vil ég í því sambandi sérstaklega beina máli mínu til hv. 1. þm. S.-M., sem hefir nú látið flekast í þessu máli á gamals aldri. Í greininni er sagt, að dragnótaveiðar séu ekki aðeins óskaðlegar, heldur hreinasta auðsuppspretta, og ekki nóg með það, heldur eiga þær að vera nauðsynlegur liður í öðrum fiskiveiðum. Hv. þm. Vestm. hefir jafnan haldið þessu sama fram, en sá er munurinn, að Arinbirni þessum, er greinina hefir skrifað, hefir tekizt að setja þetta skýrar fram í nokkrum orðum en hv. þm. Vestm. í öllum ræðum sínum á Alþingi. Hjá Arinbirni kemur fram sama lotningin fyrir hinum nýja fiskifræðing, svo að úr þessu öllu saman verður ein brosandi þrenning: Arinbjörn, hv. þm. Vestm. og fiskifræðingurinn. Og svo kemur Arinbjörn með höfuðatriðið úr kenningu þrenningarinnar í fáum en ljósum orðum í Vísi á uppstigningardag. Hann segir, að fiskur hafi undanfarið verið tregur við Garðskagann, en sé nú þar uppi í landsteinum. Og orsökin er, að þar hefir verið veitt með dragnótum á sumrum!! Og svo klykkir hann út með þessum vísdómi: „Þetta kemur alveg heim við álit fiskifræðinga, er halda því fram, að dragnótin sé raunverulega jafnnauðsynleg fyrir sjávarbotninn eins og plógurinn fyrir akurinn“.

Þarna er búið að draga saman í þrjár línur í Vísi kjarnann í kenningum þeirra manna utan þings og innan, er að frv. standa. Hún er þá sú, að nauðsynlegt sé að plægja sævarbotninn með botnvörpum og dragnótum og hverskonar vélum og vítisvélum, eins og plógur gerir, sem dreginn er yfir holt og hæðir. Ég vil rækilega vekja athygli hv. 1. þm. S.-M. á þessu. Við höfum nú setið saman á 20 þingum og átt mikið saman að sælda, m. a. í sjútvn., og oftast verið í góðri samvinnu. 1919 fluttum við þáltill. um að skora á stj. að færa út landhelgina. Þá var Alþingi þeirrar skoðunar, að landhelgin væri ekki nógu stór til að veita ungviðinu öryggi og að stærri svæði út frá landi þyrfti að fá friðuð fyrir botnvörpum og öðrum tækjum, sem eyða öllu, sem fyrir er.

Ég vil gjarnan minna hv. 1. þm. S.-M. á þetta nú, þegar hann hefir látið flekast til fylgis við þá menn, sem telja það nauðsyn að plægja sjávarbotninn eins og kargaþýfi.

Hv. 1. þm. S.-M. samdi grg. við þessa þáltill. 1919 og var frsm, hennar í Nd. Í grg. komst hann m. a. svo að orði:

„Mesta áherzlu verður að leggja á friðun fjarða og flóa, þar sem grunnmiðaveiði er stunduð og botngróðurinn með dýralífi því, sem honum fylgir, hænir fiskinn að á vertíðinni; þær stöðvar liggja víða rétt utan við núv. landhelgislínu, eins og t. d. í innri hluta Faxaflóa“.

Þá var hv. 1. þm. S.-M. þeirrar skoðunar, að skaðlegt væri, að þessum botngróðri frá náttúrunnar hendi væri rótað um og spillt. Ég vil benda á þetta til að sýna, hve ákaflega þessi hv. þm. hefir látið flekast síðan.

Það er byrjað á því að slaka á banni gegn dragnótaveiði í landhelgi. En ef nauðsynlegt er að róta upp sjávarbotninum — hvar á þá að láta staðar numið? Við erum á leiðinni til að gera landhelgina að sama fótaskinni og miðin eru nú. (JJós: Það er enginn, sem heldur þessu fram). Ég er einmitt að túlka skoðun hv. þm. Vestm., nema hann vilji nú eta allt ofan í sig, sem hann er búinn að segja. (JJós: Ekki get ég gert að því, hvað skrifað er í Vísi). Nei, en hv. þm. getur gert að því, til hvers hann er notaður hér á Alþingi. Og þótt ekki sé nema gott, að hv. þm. sjái að sér nú á síðustu stundu, finnst mér það alls ekki drengilegt af honum að afneita nú þegar Keflvíkingnum, sem manna bezt og gagnorðast hefir sett fram skoðanir hans.

Það, sem frv. stefnir því að, auk þess að kljúfa þjóðfélagið í tvennt, er að opna landhelgina til fulls. Þeim, sem að þessu frv. standa, væri alveg eins trúandi til að koma með það sem hallærisráðstöfun að leyfa botnvörpuveiðar í eitt ár í landhelginni. Það er sennilegt, að þetta eina ár aflaðist meira en ella, þótt það yrði auðvitað aðeins á kostnað allrar framtíðar.

Það verður að gera sér ljósa grein fyrir, hvaða stefna er að skjóta hér höfðinu upp. Undanfarin ár hefir verið lögð áherzla á að rækta landið og landhelgina, ef svo mætti að orði kveða, með því að friða þar ungviðið. En sú stefna, sem fram kemur í frv., brýtur í bág við þessa viðleitni og alla framtíðarstefnu, auk þess sem hún er fyrsta tilraunin af hálfu þess opinbera til að kljúfa þjóðfélagið í tvennt.

Hv. þm. Vestm. var að nota þetta tækifæri til að telja eftir stuðning Alþingis við bændur í kreppunni. (JJós: Þetta er ósatt). Hann sagði, að í frv. þessu fælust miðlunarráðstafanir, og það var einhver eftirtöluhreimur í honum. En ef hann neitar, að svo hafi verið, skal ég taka orð mín aftur.

Hv. þm. sagði, að við, sem erum á móti frv., værum að berjast á móti hagsmunum sjávarútvegsins. En við viljum einmitt verja landhelgina fyrir sjávarútveginn, eins og gert hefir verið. Hefði það ekki verið gert, hefði ástand sjávarútvegsins verið eitthvað svipað og landbúnaðarins nú. Það er einmitt vegna þessarar varðveizlu landhelginnar, að sjávarútvegurinn hefir bolmagn, jafnframt góðum vilja, til að hjálpa sveitunum nú. Þetta verður hv. þm. Vestm. og þeir, sem fylgja honum, að gera sér ljóst. Ég vona, að aldrei komi til þess, að Alþingi fari að samþ. löggjöf, sem bæði er hættuleg fyrir stærsta atvinnuveginn og friðinn í landinu. Því að friðnum er hætt, ef gert er upp á milli þegnanna. Það er ekki góð bjargráðaráðstöfun af hálfu sjálfs löggjafarvaldsins, að kljúfa þjóðina í tvennt, og sízt á erfiðum tímum, þegar nauðsyn ber til, að vandamál þjóðarinnar verði leyst í sátt og samlyndi.