08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (4359)

73. mál, víxilskuldir á Austfjörðum vegna Síldareinkasölu Íslands 1931

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Í frv. þessu á þskj. 98 er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði eftirstöðvar nokkurra víxla, sem Síldareinkasalan ábyrgðist fyrir síldareigendur á Austfjörðum 1931 og lét þá selja þar til lúkningar á verkunarlaunum síldarinnar og öðru, er einkasalan átti að greiða við móttöku síldarinnar. Upphæð þessara víxla, sú ógreidda, er nær 70 þús. kr., eða einhversstaðar milli 67- 70 þús. kr. Nú kann ýmsum að finnast, að til mikils sé hér mælzt. En í raun og veru er ekki um annað að ræða en að þessir menn, sem eiga hlut að máli, fái að njóta jafnréttis við aðra viðskiptavini Síldareinkasölunnar, bæði norðanlands og vestan; frekari eru kröfurnar ekki en það. Hreinskilnislega sagt hefir verið leikið svo ósæmilega á þessa síldareigendur austanlands, að slíks munu fá dæmi í almennum viðskiptum. Norðanlands og vestan lagði einkasalan útgerðarmönnum til tunnur allar og salt og greiddi verkunarlaun að auki víðast hvar 2 kr. fyrir innihald hverrar tunnu. En á Austurlandi greiddi hún alls ekkert og lagði sumum síldveiðimönnum hvorki til tunnur né salt. Útgerðarmenn þar urðu að útvega sér þessa hluti sjálfir og greiða verkunarlaunin að auki af eigin fé. Liggur því mjög nærri að álíta, að þeir hafi beittir verið saknæmum svikum af einkasölunni. Ég endurtek það, að hér er aðeins farið fram á, að þessir menn fái að njóta jafnréttis við aðra viðskiptavini einkasölunnar. Mér finnst ég verði að gera ráð fyrir því, að allir sanngjarnir og réttsýnir menn muni hljóta að fallast á það, að ekki sæmi að láta nokkurn hluta af skiptavinum einkasölunnar fórna fé sínu fyrir hana og sæta þeim afarkostum, sem lýst hefir verið. Ég vil ekki tefja tímann að óþörfu með því að hafa þessi skýringarorð fleiri. Ég þykist mega vænta góðra undirtekta undir þetta mál og vil að lokum óska þess, að málinu verði vísað til fjvn. Það getur að vísu verið álitamál, hvort það ætti ekki að fara til allshn. En ég geng að því vísu, að þingheimur allur viðurkenni, að hér sé ekki nema um sjálfsagt sanngirnismál að ræða, og að það verði því að lokum hlutverk fjvn. að gera till. um það, hvað langt verði hægt að fara í þessu efni. Vitanlega förum við flm. fram á, að öll upphæðin verði greidd, en hugsanleg er þó málamiðlun í þessu efni.