06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (4367)

81. mál, sjúkrasjóð ríkisins

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Fjvn. leggur til, að frv. þetta verði samþ. Hún telur rétt, að ríkið geti hlaupið undir bagga í sérstökum veikindatilfellum, eins og þeim, sem 3. gr. þessa frv. nefnir, og telur hentara, að heilbrigðisstj. sé falin úthlutun á þeim styrk, sem hér er gert ráð fyrir, að verði veittur úr sérstökum sjóði. Ég vil benda á það, að þó að ætlazt sé til, að heilbrigðisstj. úthluti hjálp til sjúklinganna, þá er það þingsins í hvert sinn að ákveða, hversu mikilli upphæð skuli varið í þessu augnamiði, og n. vill lýsa yfir, að þá upphæð ber að skoða sem fasta veitingu, en ekki áætlunarupphæð. Aðaltilgangur þessa frv. mun vera sá, að hjálpa mænuveikum sjúklingum, þegar sú voðaveiki er á ferðinni, eins og líka hefir verið gert áður. Nú er þannig háttað, að þessi veiki hefir með meira móti gert var við sig í fyrra, og liggja margir sjúklingar til og frá um landið lamaðir í þessari ógnarveiki og þarfnast sárlega hjálpar, til þess að þeir geti vænzt bata, og ég geri ráð fyrir því, að þó að þetta frv. verði samþ., sem ég vænti fastlega, þá þurfi þessir sjúklingar, sem ég nefndi, á hjálp að halda nú þegar, þar sem veikinni mun þannig háttað, að hjálpin komi því aðeins að notum, að hún sé ekki dregin neitt til muna. Ég vænti, að ef frv. fær fram að ganga, þá sjái stj. sér fært að hjálpa þessum mönnum upp á væntanlegt samþykki þingsins á eftir, eins og gert hefir verið einmitt oft áður, þegar líkt hefir staðið á.

Þetta frv. er ljóst og stutt og ég sé ekki þörf á að fara fleiri orðum um það fyrir n. hönd. Að vísu var einn nm. ekki viðstaddur, þegar n. tók þessa ákvörðun sína, en hann mun gera grein fyrir, hvort hann hafi nokkuð sérstakt við það að athuga, þó að málið gangi fram.