06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (4374)

81. mál, sjúkrasjóð ríkisins

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Andmæli hv. 2. þm. Rang. eru byggð á misskilningi. Þegar um er að ræða sjúkrahúsdvöl þurfalings, þá er tekinn burt sá styrkur, sem ríkissjóður veitti áður. En hér er alls ekki um sjúkrahúsdvöl að ræða. Sést það bezt á því, að mænusjúklingar t. d. eiga því aðeins að vera styrkhæfir, að þeim sé batavon. En þeir geta orðið þungi fyrir sveitarfélagið, þótt þeir fari ekki í sjúkrahús. Í slíkum tilfellum fá þau kostnaðinum af sér létt, ef hann fer upp úr vissu marki. Það er aðeins þegar um sjúkrahúsdvöl er að ræða, að þau missa nokkurs við fyrir samþykkt síðasta þings. Þá má benda á það, að í frv. er það fleira en læknishjálp og aðhlynning, sem kemur til greina, þar sem það hefir inni að halda ákvæði um útvegun gervilima, sjúkravagna o. s. frv.

Ég veit ekki, hvort mér hefir tekizt að gera hv. þm. þetta skiljanlegt, en hitt þykist ég vita, að allir aðrir munu hafa skilið þetta til fulls.