31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2681 í B-deild Alþingistíðinda. (4394)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Bjarni Snæbjörnsson:

Eins og hv. dm. er kunnugt, hefir staðið töluverður styrr um þetta dragnótamál á síðustu þingum. Það hefir verið fellt hvað eftir annað í hv. Nd., en svo hafa komið síðar meir áskoranir frá einstökum þm. til ríkisstj. um að leyfa dragnótaveiðar. Ég hefi verið meðal þeirra manna, sem skrifað hafa undir þetta skjal, og hefir það. verið af sömu ástæðum og hv. 2. þm. S.-M. nefndi, að mér fannst varhugavert að neita þessu bjargráði, sem mjög margir menn utan þings hafa álitið, að væri af því. Vildi ég, að tilraunir í þessa átt væru gerðar á þeim erfiðu tímum, sem verið hafa undanfarið og eru að vísu enn. En ég hefi gert mér það að skyldu að spyrja nákvæmlega alla þá, sem ég hefi náð til og hafa verið fyrir sunnan mig, og sömuleiðis í Hafnarfirði, hvernig afkoma þeirra væri eftir þessar dragnótaveiðar. Mér er óhætt að segja, að eftir þessi tvö skipti, sem þetta leyfi hefir verið veitt, þá er það svo, að langflestir af þeim, sem ég hefi talað við, hafa sagt, að upp úr þessum veiðum væri ekkert að hafa annað en tapið. Í Hafnarfirði byrjuðu menn fyrst á dragnótaveiðum sumarið 1931, en hafa ekki borið það við síðan. Fyrir sunnan Hafnarfjörð hafa tilraunir aðallega verið gerðar í Keflavík og Njarðvíkum. Í Keflavík eru mjög skiptar skoðanir, en ég býst við, að þeir séu fleiri, sem álíta, að það sé nokkuð lítið upp úr þessum veiðum að hafa, og í Njarðvíkunum segja menn, að það sé alls ekkert. Þetta gefur mér fyllstu ástæðu til að álíta, að þetta sé a. m. k. enginn bjargráðavegur eins og stendur, enda sagði hv. 2. þm. S.-M., að af því að menn hefðu tapað á undanförnum árum, þá væri viðurhlutamikið fyrir þingið að neita þeim um það, m. ö. o. að neita þeim um að tapa áfram. Tap þeirra manna, sem stunda kolaveiðar, var alla jafnan meira á síðastl. ári en árið þar áður, og ég tala nú ekki um þá menn, sem keyptu þessa vöru; ég ætla ekki að fara út í það. Nú er það útlent firma, sem ætlar að kaupa þessa vöru. Hv. 1. þm. Reykv. drap á landhelgina og botnvörpu- og dragnótaveiðar. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma. Ég styðst eingöngu við það, sem skynsemin segir mér, og hefi þar mína persónulega skoðun um það mál; jafnframt styðst ég við það, sem þeir menn segja, sem stunda þessa veiði þarna fyrir sunnan mig, og þar eru skoðanir svo skiptar, að það eru heilir hreppar, sem eru á móti þessum veiðum, en aðrir hreppar eru með þeim og segja, að þær spilli ekkert öðrum, veiðum á þeim slóðum. En það er eftirtektarvert samt, að þeir, sem segja, að það spilli ekki öðrum veiðum, það eru þeir, sem fiska á miðum þeirra, sem segja, að þetta spilli veiðunum, og þeim dettur ekki í hug að gera út á þennan hátt. Við skulum taka t. d. Keflvíkinga og Garðbúa. Keflvíkingar sækja kolann suður í Garðsjó og segja, að dragnótaveiðarnar spilli ekki öðrum veiðum. Garðbúum dettur ekki í hug að stunda kolaveiðar í Garðsjónum, þó að þeir eigi að mörgu leyti hægari aðstöðu, af því að þeir vilja ekki spilla fyrir sinni veiði síðar meir. Þetta eru þær upplýsingar, sem ég hefi getað aflað mér einmitt af þessum tilraunum, og þær eru svona útlítandi. Það er alveg rétt, að það er viðurhlutamikið fyrir þingið að kasta steini í götu þeirra manna, sem vilja reyna að ná í lífsviðurværi handa sér og sínum nú á þessum tímum; en ég álít, að það sé líka viðurhlutamikið fyrir þingið að eyðileggja máske afkomu manna einmitt með því að spilla þeirra veiðistöð, án þess að nokkurn hlut sé að hafa upp úr því í aðra hönd af þeim, sem spilla veiðistöðvunum, að sárafáum undanteknum. Ég hjó einnig eftir því hjá hv. 2. þm. S.-M. eins og hv. 1. þm. Reykv., að þetta myndi ekki þrengja markaðsmöguleikana fyrir aðrar okkar fiskitegundir. Ég verð þar að taka í sama streng og hv. 1. þm. Reykv. og get ekki skilið annað en að þetta verði til þess að spilla fyrir ísfisksölu togaranna. Nú er það vitanlegt, að ísfisksala togaranna hefir borið sig nær undantekningarlaust, og þá finnst mér ekki farandi í grafgötur um það, hvort sé heppilegra fyrir þjóðarheildina.

Hvað viðvíkur brtt. þeirri, sem liggur hér fyrir frá hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Snæf., verð ég að segja það, að svo framarlega sem hún verður samþ., þá sé ég auðvitað, að tilganginum er alls ekki náð með frv. Ennfremur get ég ekki séð annað en að það verði til þess að gera ýfingar milli manna um það, hverjir megi veiða þarna. Mér væri nær að halda, af því að ég þekki svo margan manninn, sem fer á þessar veiðar, og sem ógjarnan vilja láta hlut sinn, að þarna yrði kannske hálfgerður sjóslagur. Frá mínum bæjardyrum séð væri máske rétt að samþ. till., því að þá yrði frv. óskapnaður. Ég hygg, að aðalkrafa a. m. k. allra þeirra, sem eru fyrir sunnan mig á Reykjanesskaganum, Keflavík og þar suður frá, sé ekki sú, að lengja dragnótaveiðitímann, heldur að höfð sé öflug landhelgisgæzla fyrir sunnan einmitt á þeim tíma, sem farið er fram á að lengja tímann. — Við þessa menn hefi ég talað og leitað upplýsinga hjá undanfarið, og þeir segja þetta, sem ég hefi hér sagt.