31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2686 í B-deild Alþingistíðinda. (4396)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Halldór Steinsson:

Um þetta mál hafa verið skiptar og breytilegar skoðanir utan þings og innan. Þarf í því efni ekki annað en benda á gang málsins hér á þingi, þar sem Nd. samþ. þetta frv., eftir að hafa áður fellt frv. um sama efni. Utan þings eru líka uppi ólíkar skoðanir um málið, og er það eðlilegt, þar sem það er hvergi nærri rannsakað til hlítar enn, hvort dragnótaveiðarnar spilli sjávarbotninum eða annari veiði.

Það eina, sem hægt er að byggja á, eru athuganir sjómanna sjálfra. Benda þær í þá átt, að þessar veiðar spilli heldur en hitt. Þetta er álit sjómanna, þar sem ég er kunnugastur, kringum Breiðafjörð. Því er eðlilegt, að menn séu hikandi gagnvart því að innleiða víðtæka löggjöf í þessu efni.

Fyrir 2 árum lækkaði saltfiskverð mjög, og mátti segja, að þá horfði til vandræða hér við sjávarsíðuna. Þá vaknaði þessi dragnótaalda. Menn bentu á, að Danir hefðu rekið þessa veiði um nokkurra ára skeið hér, raunar framan af með tapi, meðan þeir voru að kynnast betur þessari veiðiaðferð. Voru þá margir, sem komu sér upp dragnótum. En 1931 varð þó stórtap á þessari veiði, t. d. á Austfjörðum. Furðar mig því á, að hv. 2. þm. S.-M. skuli koma hér fram og mæla með þessu, þar sem hann hefir þessa reynslu. En reynslan er ekki betri annarsstaðar á landinu. Við Breiðafjörð hefir orðið sama reynslan. En nú voru menn víða um land búnir að koma sér upp þessum dýru veiðitækjum, og var þá eðlilegt, að þeir vildu reyna þau til hlítar. 1932 var því þessi veiði tekin upp aftur, en það fór á sömu leið.

Þetta frv. er svo ósanngjarnt, að það fer fram á að taka tvo flóa út úr, Breiðafjörð og Faxaflóa, og leyfa öllum, hvort heldur það eru Danir eða Færeyingar eða Íslendingar úr öðrum landshlutum, að vaða inn á þessi takmörkuðu svæði. Þetta er aðalósanngirnin í frv. Til þess að bæta úr þessu, kom þessi till. frá okkur hv. 1. þm. Reykv. Ef hún nær samþykki, þá komast ekki aðrir að veiðinni en þeir, sem mestan rétt hafa til hennar, þeir, sem búa við þessa flóa.

Hv. 2. þm. S.-M. taldi það öfgar, að þessi veiðarfæri skemmdu botninn. Hann er þó enginn vísindamaður á þessu sviði og getur því ekkert um það sagt. Vitnisburður og álit þúsunda sjómanna styður þessa skoðun, en hinsvegar hefir ekki komið fram álit vísindam., er hrekti það.

Hv. 5. landsk. sagði, að ef málið næði ekki fram að ganga, þá væri þar með tekið brauðið frá þúsundum landsmanna. En ég vil snúa við setningunni og segja, að ef frv. verður samþ., þá verður það til þess að taka brauðið frá þúsundum landsmanna.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að ef brtt. okkar næði samþykki, þá yrði frv. að óskapnaði, en þessu er öfugt farið. Frv. er nú óskapnaður, en það myndi lagast talsvert, ef brtt. yrði samþ.

Mér finnst annars þessir hv. þm. taka nokkuð djúpt í árinni, er þeir segja, að brtt. sé aðeins borin fram til þess að eyðileggja málið. Það er ósvífin aðdróttun að segja, að þm. beri fram till. til þess að eyðileggja mál. Hv. þm. geta ekki lesið í huga okkar. Þessi brtt. er fram komin fyrir einlægan vilja okkar á því að lagfæra frv., svo að eitthvert vit verði í því, en því er ekki að heilsa eins og nú er. Þetta er eitt með ranglátari frv., sem fram hafa komið á þessu þingi.