31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2690 í B-deild Alþingistíðinda. (4399)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jón Baldvinsson:

Mér datt í hug, þegar hv. þm. voru að lýsa þessu skaðræði, sem þessi undanþága um dragnótaveiði í landhelgi á að vera að þeirra dómi, gömul hjátrú á „fiskiveiðalínum“, sem áður fyrr voru settar víðsvegar kringum land. Ég man eftir því, að ein slík lína var dregin yfir Ísafjarðardjúp, og það var bannað að beita skelfiski fyrir utan þá línu. Þetta kom til af því, að inndjúpsmenn vildu ekki leyfa útdjúpsmönnum að nota skelfisk, af því að þeir töldu, að það mundi spilla fiskigöngunni í inndjúpið, ef þeir beittu þessari heitu utar við djúpið, en þetta var í raun og veru megnasta hjátrú, eins og margt annað í sambandi við fiskveiðasamþykktirnar gömlu.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði mjög fast á móti þessari breyt. á dragnótalöggjöfinni, og skyldi maður þó helzt ætla, að þaðan væri stuðnings að vænta, þar sem þm. Reykv. eru, því að fjöldi manna hér í Rvík óskar sérstaklega eftir þessari breyt. á löggjöfinni, vegna þess að hún miðar til aukinnar atvinnu.

Undanfarið hefir gengið fremur stirt með þennan atvinnuveg, dragnótaveiðarnar, og hv. 2. þm. S.-M. hefir nú greinilega lýst því, af hverju það hafi verið og hvers vegna nú má vænta betri árangurs. Áður fóru menn út í þetta í óvissu, en nú liggur vissa fyrir um, að hægt muni að reka þessar veiðar með viðunandi árangri. Mér þykir sennilegt, að einhver hluti af fiskveiðum okkar í framtíðinni hljóti að snúast að þessu, að hafa til góða vöru, sem hægt er að fá hátt verð fyrir. Þetta hafa t. d. Danir séð allra manna bezt. Mér er sagt, að þeirra fiskur sé bezti fiskur, sem flyzt til Bretlands, vegna þess að þeir vandi hann svo vel, og þeir hafi kynnt sér, hvað Bretum líkar bezt. Þó að það hafi verið svo, að þeir flytji lítið út að magni til, þá er þeirra fiskútflutningur meiri að krónutölu heldur en okkar fiskútflutningur í sumum árum. Nú eru hér orðnir æði margir bátaeigendur og fiskimenn, sem vilja stunda dragnótaveiðar. Þeir eru búnir að fá sér tæki til að stunda þær, og þeir eru búnir að sjá, hvernig bezt er að fara með fiskinn. Og þegar þeim þröskuldi er nú rutt úr vegi, þá vilja þeir reyna á nýjan leik. Þess vegna er það þeirra ósk, að þetta frv. nái fram að ganga. Þá reynslu, sem menn áður höfðu af þessum veiðum, er ekki hægt að nota sem ástæðu á móti þessu frv., því að nú er komin sú reynsla um sölu á fiskinum, að líkur eru til, að þessi atvinnuvegur muni bera sig, og nú er sænska frystihúsið viðbúið til að kaupa og flytja út fisk, sem þeir ætla að búa til úr „kvalitets“vöru og vanda á allan hátt.

Mér skildist á hv. þm. Hafnf., að ef leyft væri að fiska þannig, þá mundi „kvóti“ okkar við Englendinga minnka. En mér finnst, að það megi ekki eingöngu hugsa um stóru skipin, það verði líka að taka tillit til bátaveiðanna og leyfa þeim að komast að á þessum markaði, einkum ef þeir gætu fiskað góðan fisk, sem hægt væri að selja með góðu verði. Vegna „kvóta“ okkar hjá Bretum væri það meira virði fyrir okkur, ef við gætum selt til Englands fisk, sem ekki vigtaði mikið, en mikið verð fengist fyrir, heldur en fisk, sem mikið fer fyrir og er miklu þyngri í samanburði við verðmæti. En þetta á við um kola og heilagfiski í samanburði við þorsk og ufsa. Ef við þess vegna gætum komið öllu okkar fiskþungamagni út til Englands í slíkri dýrri og vel verkaðri vöru, mundum við hafa stórkostlega miklu meira upp úr því. Það er meira og meira kvartað yfir því, að sá fiskur, sem við flytjum út, sé misjafnlega vandaður, og þá verður verra og verra að selja hann, eftir því sem fleiri fara að vanda sig með fiskinn og reyna að hafa fleiri og betri tegundir á boðstólum.

Mér sýnist því, að það séu margar stoðir, sem renna undir þetta mál. Það er atvinnuspursmál, sem skiptir hundruðum þúsunda fyrir sjómenn, sem hlut eiga að máli. Það er líka tíminn, sem notaður er til þessara veiða; hann er sá, sem erfiðast er að komast að öðru, og þá sérstaklega þar sem búast má við, að minna verði upp úr síldveiðunum að hafa, þá má ekki sleppa neinu tækifæri.

Þá var hv. þm. að tala um, að þetta mundi alveg eyðileggja kolaveiðarnar. En hvað er það, sem við gerum nú? Við lofum kolanum að dafna inni í landhelginni, og svo gengur hann út fyrir landhelgina og þá taka botnvörpuskipin hann í sínar vörpur. Sjálf veiða íslenzku skipin eitthvað af því, en hvað eru þau mikill hluti af öllum þeim sæg skipa, sem stunda veiðar hér við land? Það eru aðeins 40 togarar, sem við höfum, en hvað er það mikill hluti af þeim hundruðum erlendra skipa, sem sækja kolann hingað til okkar? Það má vel vera, að það sé góðsemi af okkur að lofa kolanum að þróast hér í friði handa mönnum, sem koma hingað um langan veg. En þetta er það, sem hefir verið gert um langt skeið. Það eru sérstaklega enskir togarar og kannske þýzkir líka, sem leggja mikið kapp á að fá þennan góða fisk, og þeir eru nú orðnir svo kunnugir hér við land, að þeir vita, hvar helzt er að leita hans, og hafa þeir venjulega mikið upp úr þessum veiðum.

Hv. þm. Hafnf. minntist á brtt. hv. þm. Snæf. og hv. 1. þm. Reykv., og sagði hann, að hann væri með henni af því, að hún væri svo vitlaus og gerði frv. að óskapnaði. Ég sé ekki, að hv. þm. geti verið þekktur fyrir að samþ. till. í þeim tilgangi að gera frv. að óskapnaði, en hitt er annað, að það mun vaka fyrir ýmsum, að með því að samþ. till. geti frv. farið til Nd. aftur, og þá sé það komið í þá stóru hættu að verða ekki útrætt fyrir þinglok. Af þessari ástæðu finnst mér óráðlegt að samþ. þessa till.