31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (4400)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er nú í fersku minni, sem hv. 2. landsk. sagði um þetta mál, og mér finnst þess vegna rétt að snúa máli mínu fyrst til hans.

Hv. þm., 2. landsk., hafði það eftir hv. þm. Hafnf., að frv. væri gert að óskapnaði, ef brtt. okkar hv. þm. Snæf. yrði samþ. Ég sé ekki, að hverju leyti sköpulag frv. breytist með þessari till., nema að því, að með þessari till. okkar er girt fyrir, að danskir veiðimenn geti vaðið hér inn á firði og flóa til þess að moka upp kola innan landhelginnar. Það er kannske þessi óskapnaður, sem hv. 2. landsk. lætur svo illa við, en ég hygg, að það gildi ekki um hv. þm. Hafnf. Í þessu sambandi er fróðlegt að minnast dálítið á sögu þessa máls hér á þingi.

Eftir því, sem ég veit bezt, voru það flokksmenn hv. 2. landsk., sem fyrst báru fram frv. þess efnis að leyfa þessar veiðar. Það mun hafa verið þáv. þm. Ísaf., en núv. þm. Seyðf., sem fyrst kom með frv. þess efnis að leyfa þessar veiðar. Það átti að vera lífsnauðsyn fyrir Vestfirðinga að fá það leyfi, en það tókst ekki að samþ. það þá, en svo eru þeir nú alveg afskiptir eftir þessu frv. — Þeir eru þrátt fyrir það útilokaðir frá þessari sælu, að mega veiða kola í landhelgi, — það eru ekki þeirra hagsmunir, sem er verið að berjast fyrir.

Svo man ég ekki, hverjir báru fram frv. næst; ég held, að það hafi verið einhverjir Alþflmenn með öflugum stuðningi frá þingmönnum Austfirðinga, — en nú eru Austfirðingar engu bættari með þessu frv. Nú kemur í þriðja skiptið hv. þm. Vestm. Það má nú raunar segja, að Vestmannaeyingar séu ekki beinlínis útilokaðir frá því að njóta hagsmuna af þessu. Þó sé ég ekki, að það sé sérstaklega borið fram vegna hagsmuna þeirra, og ég held, að þeir hafi ekki hagsmuni af þessum veiðiskap. Í það minnsta hafa þeir ekki spunnið gull úr honum, og það veit maður, að maður, sem keypti af þeim nokkuð mikið af slíkum fiski, tapaði á honum stórfé, svo að nærri lá, að það riði hans efnahag að fullu. Það eru því býsna undarlegir þessir hagsmunir, sem fara hringferð í kringum landið og breytast alltaf frá þingi til þings.

Þá var hv. 2. landsk. að tyggja upp með mikilli ánægju þá gömlu sögu, að við ölum upp kolann handa útlendingum. Þetta er gömul tugga, sem ekki er annað en slagorð, sem styðst ekki við neina reynslu, af því að kolinn veiðist aðallega ekki nema innan landhelginnar. Það er alþekkt, og það er tekið sérstaklega eftir því, hvað sum skip eru kolasæl, og við vitum, að þær skýringar eru gefnar á því, að þau veiði hann í landhelgi. Ég gæti talið upp skipin, ég veit, að hv. 2. landsk. kannast við þau eins og ég. Þess vegna er þessi gamla tugga um uppeldi kolans handa útlendingum ekkert annað en eintóm vitleysa.

Svo er það atvinnuspursmálið, sem ýmsir hv. þm. hafa verið að tala um í þessu sambandi, eins og hv. 2. landsk. og hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. S.-M., þetta atvinnuspursmál, sem hv. 2. landsk. talaði um, að væri upp á fleiri hundruð þúsunda kr., og hv. 2. þm. S.-M. talaði um, að mundi verða um ½ millj. kr. En hvað ætli kostnaðurinn verði mikill? Ætli það verði þá mörg hundruð þús., að honum frádregnum, sem renna í vasa sjómanna?

Svo er þess að gæta, þegar um þessa atvinnu er að ræða, að hún er tekin af einum og fengin öðrum í staðinn, af því að ísfiskmarkaður okkar er svo takmarkaður. Það er því alls ekki um það að ræða, að þessi atvinna sé viðbót, heldur er hún tekin af Páli og fengin í hendur Pétri.

Hv. 2. landsk. talaði um, að hér væri um að ræða að búa til „kvalitets“vöru, gera vöruna verðmeiri fyrir þjóðina. En þetta sænska frystihús getur búið til „kvalitets“vöru úr fiski, sem er miklu verðminni heldur en kolinn. Það getur búið til „kvalitets“-vöru úr hvaða fiski sem er, og áreiðanlega hægt að fá miklu meiri markað fyrir það heldur en kola.

En hv. 2. landsk. getur gefið upplýsingar um, á hverju það hefir strandað, að frystihúsið hefir ekki getað byrjað á því. Það hefir strandað á því, að það hefir ekki komizt að samkomulagi um vinnuna. En ef á því yrði byrjað, þá yrði það miklu affarasælla heldur en útflutningur á kola, því að þar yrði miklu meira magni af verðminni vöru breytt í verðmeiri.

Hv. 2. landsk. byrjaði á því, að hann sagði, að helzt mætti vænta stuðnings frá þm. Reykv., en hér er ekki um hagsmuni Reykjavíkur að ræða, vegna þess að atvinnan verður með þessu tekin af einum og látin öðrum í té. Hann minntist á hjátrú í þessu sambandi. Mér finnst hér vera lagzt lágt til þess að finna rök með þessu máli, þegar farið er að bera saman við gamlar hégiljur. Ég veit það vel, að áður var sumum áhyggjuefni gufuskipaferðirnar. Þeir héldu, að fiskar mundu fælast skrúfuna og pípið í skipunum. En það kalla ég að leggjast lágt, að bera þetta saman við þau rök, sem færð hafa verið á móti þessu máli, sem eru miklu veigameiri heldur en þau, sem hv. 2. landsk. hefir fram borið sínu máli til stuðnings.

Hv. 2. þm. S.-M. talaði um vísindalegar sannanir og staðreyndir. En þessar staðreyndir, sem hann talaði um, voru nokkuð einkennilegar, því að þegar hann talaði um reynslu og staðreyndir hans sjálfs, þá voru það vísindalegar staðreyndir og sönnuðu, að dragnótaveiði í landhelgi væri óskaðleg, en þegar hann minntist á staðreyndir annara manna, þá voru þær einskis virði. En ég verð að segja, að ég sé ekki, í hverju þessi mikli munur liggur á staðreyndum hv. 2. þm. S.-M. um kúfiskveiðar og staðreyndum hreppstjórans í Gerðum. Ég er hræddur um, þegar hann gerir þennan greinarmun, þá taki hann ekki tillit til mismunandi staðhátta. Það getur verið, að við Austfirði sé sendinn botn og þurfi ekki að gruggast, þó að dregnar séu þar dragnætur eftir botninum. En hitt getur alveg eins verið rétt, að illt sé að róta upp leirbotni út af Gerðum og til tjóns fyrir fiskinn. Þar brjóta dragnæturnar ekki kúfiskinn, svo að hann verði að æti fyrir annan fisk, eins og hv. þm. minntist á, heldur róta upp leirbotninum og grugga sjóinn. Hv. þm. vildi gera lítið úr reynslu þessa hreppstjóra suður með sjó, en hann er nú á aldur við hv. þm., svo að þeirra reynsla er nokkuð svipuð, nema ef virða á miklu meira þingmannsreynslu en reynslu hreppstjórans í Gerðum. Mér var líka sagt af mönnum, sem komu til þess að agitera í mér að vera með dragnótaveiðunum, að ef óveður kæmu, þá gruggaðist sjórinn upp, og þá sögðu þeir, að um enga fiskigöngu væri að tala lengi á eftir. En þá hefir hreppstjórinn ekki svo litla reynslu til þess að byggja á, ef fiskurinn flýr af þessum sökum. Hann hefir þá fullkomlega ástæðu til að slá því föstu, að afleiðingin af dragnótaveiðum á þessu svæði verði sú, að sjórinn gruggist og fiskurinn, að undanteknum kolanum, flýi. Töldu Garðbúar, að dragnótaveiðar hefðu sömu áhrif eins og stormurinn. (JBald: Fiskast ekki nema í logni í Garðsjó?). Ég býst við, að þó að hv. 2. landsk. sé ekki veðurfróður maður, þá geti hann rennt grun í, að mismunandi mikinn storm muni þurfa til þess að róta upp botninum.

Af þessu leyfi ég mér að draga þá ályktun, að þessi staðreynd sé eins mikils virði eins og staðreyndir hv. þm. Það er ekki sannað vísindalega fremur en það, sem hann bar fram, en það er viðurkennd staðreynd.

Hv. 2. þm. S.-M. dró upp skjal frá 12 Keflvíkingum, sem óskuðu eftir dragnótaveiðum í landhelgi. Ég get sagt honum það, að hingað komu 8—10 Keflvíkingar til þess að agitera, og einn af þessum 8—10 mönnum var algerlega snúinn á móti dragnótaveiðum, þegar hann fór héðan, svo að ekki er mjög mikið að byggja á fylgi Keflvíkinga í þessu efni.

Ég vil mótmæla því eindregið, að brtt. okkar hv. þm. Snæf. geri frv. að óskapnaði eða hindri það, að hægt verði að framfylgja því. Það er einmitt ekki hægt að fá betri strandgæzlu heldur en þá, sem af þessu mundi leiða, þar sem héraðsbúar sjálfir mundu gæta landhelginnar betur en nokkur varðskip gætu gert. Út af því, sem hv. þm. Hafnf. sagði, að illindi gætu af hlotizt, þá er ekki hægt að fyrirbyggja slíkt; þau geta orðið samt, eins og sást bezt í fyrra hér suður með sjó, svo að það er ekki ástæða til að amast við brtt. þess vegna. Hinsvegar er augljóst, að ef þetta ákvæði verður sett inn í lögin, þá er fyrirbyggt, að veiðin verði stunduð af mönnum, sem við eigum ekki að sjá fyrir, útlendingum; eins er síður hætt við spjöllum, ef takmarkaður fjöldi má stunda þarna veiðiskap. Þess vegna vænti ég þess, að brtt. verði samþ., því að ekki er líklega meiningin með frv. að létta undir með útlendingum, Dönum, Færeyingum eða jafnvel sænska frystihúsinu.