31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2698 í B-deild Alþingistíðinda. (4402)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jón Baldvinsson:

Hv. þm. Hafnf. sagði, að ég hefði gert hið sama í ríkislögreglumálinu og hann í þessu máli, að ég hefði samþ. brtt. til þess að fella frv. En þær brtt., sem ég samþ., taldi ég að væru til bóta á frv., en hann segir, að þessi brtt. sé til skemmda, og greiðir af þeim ástæðum atkv. með henni, til þess að frv. verði fellt. Þetta er að vísu hugsanleg leið til að fella mál, en kynleg er hún engu að síður.

Hv. 1. þm. Reykv. fræddi mig á því, að togarar fiskuðu ekki kola utan landhelgi, og það sé á allra vitorði, að „fiskisælustu“ togararnir skjótist inn fyrir landhelgina til þess að fiska kola. En þá verð ég að segja, að hv. þm. er ekki kunnugur, ef hann veit ekki, að togarar veiða kola utan landhelgi. Þeir togarar útlendir, sem stunda veiðar hér við land ár eftir ár, þekkja botninn vel og fiska betri fisk en íslenzku togararnir. Ensku togararnir leggja mest upp úr því á ísfiskveiðum að fá góðan fisk, en íslenzku togararnir sækjast eftir fiskmagni. Þetta hafa togaraskipstjórar sagt mér, sem eru þessu þaulkunnugir. Það er rétt, sem ég sagði, að útlendingar taka kolann aðallega utan landhelgi, þótt þeir kunni einstöku sinnum að skjótast inn fyrir, í landhelgina.

Ef þetta frv. verður samþ., er von til þess, að sænska frystihúsið geti farið að snúa sér að því að framleiða þorskfilé, sem er góð vara, en þarf að vinna markað fyrir. Verður því að hafa kola og annan flatfisk með, svo starfrækslan geti borið sig. Á kaupgjaldi strandar ekki, heldur á því að geta haft nægilega mikinn rekstur, meðan verið er að vinna markað fyrir þorskfilé. Það er nauðsynlegt að verka okkar aðalútflutningsvöru, þorskinn, á fleiri en einn hátt og tryggja þar með markað fyrir aðalframleiðsluvöru okkar. Eins og ástatt er um þetta og ég hefi nú lýst, er nauðsynlegt að gefa sjómönnum okkar leyfi til að veiða kola og annan flatfisk. Og frv., sem hér liggur fyrir, miðar að því að gera það mögulegt. — Ég hefi þá svarað hv. 1. þm. Reykv. nægilega. Hann kom ekki fram með önnur aðalatriði en þau, sem ég hefi minnzt á. En mörg aukatriði komu fram í ræðu hans. En ég fer ekki að elta þau.