02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2699 í B-deild Alþingistíðinda. (4404)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 1. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Hér kemur danska skipið enn „með jolluna aftan í, með jolluna aftan í“, eins og stendur í gömlum húsgangi úr Vestmannaeyjum. Viðlagið við vísuna er endurtekið hvað eftir annað. Nál. á þskj. 917 er jollan aftan í þessu margumrædda máli hér á þinginu. Því var útbýtt núna á þinginu, en samkv. 2. málsgr. 18. gr. þingskapanna þarf afbrigði til þess, að það megi koma hér til umr. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp 18. gr. þingskapanna, 2. málsgr. Þar stendur :

„Nefndin lætur uppi álit sitt, og skal prenta það og útbýta meðal þingmanna á fundi. Eigi má taka málið af nýju til umræðu fyrr en að minnsta kosti 2 nóttum síðar en nefndarálitinu var útbýtt“.

Þetta nál. er að vísu aðeins frá minni hl. nefndar, en um það gilda eftir þingsköpum sömu ákvæði og um nál. yfirleitt.

Ég vildi minna hæstv. forseta á að leita afbrigða fyrir þetta mál; ég skal samt ekki ásaka hann um að hafa ekki gert það þegar, þar sem ekki er getið um á dagskránni, að þess þurfi.