02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (4411)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Ingvar Pálmason:

Ég geri ráð fyrir, að hv. 1. þm. Reykv. hafi vænzt þess, að ég mundi svara honum, en ég sé ekki ástæðu til að fara langt aftur í tímann og ræða við hann um einhver símskeyti, sem þinginu hafa verið send fyrir langa löngu síðan. En af því hann sveigði að því, að ef mér væri umhugað um Reykvíkinga, þá ætti ég að samþ. brtt. hans, verð ég að segja fáein orð. Hvað sem þessari till. annars líður, þá álít ég, að samþykkt hennar hindri framgang málsins á þessu þingi. Þetta atriði ættu allir þeir að athuga, sem vilja stuðla að því, að lögin komi að notum á þessu ári. Það er öllum kunnugt, að nú er aðeins einn dagur eftir af þingtíma, og ef frv. verður að fara aftur til Nd., þá er ekki víst, að andstæðingarnir verði eins liðlegir að veita afbrigði eins og hv. 1. þm. Reykv. og samherjar hans í þessu máli hér í d. Hv. þm. skaut yfir markið, þegar hann talaði um að sýna umhyggju fyrir Reykvíkingum, því að hún er ekki fólgin í því að hindra framgang þessa máls.

Að því er snertir ræðu hv. 2. þm. Árn., þá þarf ég ekki að gera margar aths. við hana. Hann minntist á, að með samþykkt þessa frv. væri gefið illt fordæmi, en ég vil segja, að illt fordæmi sé einmitt gefið, ef samþ. verða brtt. hv. 2. þm. Árn. og 1. þm. Reykv., ef því verður skotið inn í fiskiveiðalöggjöfina, að menn megi ekki færa sig til á milli verstöðva. Og hvar verður numið staðar, ef inn á þá braut er farið, að útiloka menn frá verstöðvum? Hitt er annað mál, að það er dýrara að sækja til sjóróðra fjarri heimilum sínum, og þess vegna er ekki ástæða til að óttast, að aðrir noti þessa heimild svo nokkru nemi.

Annars get ég lýst því yfir, að mér er persónulega ekkert kappsmál að koma frv. í gegn, en mér finnst hart á þessum vandræðatímum, ef löggjöfin neitar mönnum um að draga þann afla að landi, sem þeir geta áreiðanlega fengið vel borgaðan.

Ég mótmæli því, sem hv. tveir þdm. hafa borið á mig, að hafa haft óvirðuleg orð um hreppstjórann í Garði. Ég nefndi hann mætan mann, og hafði ég það eftir sögusögn, því að sjálfur þekki ég manninn ekkert, og ekki kalla ég það að fara óvirðulegum orðum um einhvern mann að kalla hann mætan! (JakM: Ég minnist ekki að hafa viðhaft þessi orð). Jú, það var nú einmitt það, sem hv. þm. sagði. En hitt sagði ég, að hreppstjórinn hefði dregið skakkar ályktanir af staðreyndum. Ég vildi árétta þetta, því að mér fannst ekki ástæða til að rangfæra þannig orð mín.