02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2704 í B-deild Alþingistíðinda. (4412)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Magnús Torfason:

Það er ekki hægt að bregða mér um málþóf í þessu máli. Nál. hv. 2. þm. S.-M. hefir hv. 1. þm. Reykv. skrifað undir, en ég hefi ekki skrifað undir það.

Mér þótti leitt, að hv. 2. þm. S.-M., sá stórmæti maður, — ég vil vonast til, að það verði ekki kallaðar skammir, þó ég kalli hann stórmætan mann —, að sá stórmæti maður var að bregða mér um meinfýsi í þessu máli. Það er hart, þegar maður kostgæfilega leggur eyrun við hvert orð, sem sagt er um mál, til þess að komast í skilning um það, og leggur sig í líma til að bæta málið eins og hægt er, að það sé kallað meinfýsi við málið. Ég hygg, að minn málstaður sé svo ljós, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um hann, og ég þykist vita, að þingmaðurinn sjái eftir að hafa látið slík orð fara út úr sínum fríða munni.

Þá sagði hv. þm., að mjög lítil rök hefðu verið færð fyrir mínum málstað í þessu máli. Hvað sem öllu líður, þá voru þau rök samt það mikil, að hv. 2. þm. S.-M. reyndi ekki til að hrekja þau. Og á meðan hann gerir það ekki, þá verð ég að leyfa mér að líta svo á, að ég hafi rétt til þess að halda því fram, að mín rök séu engu verri en hans.

Hv. þm. hefir leyft sér að slá því fram, að ef mál þetta yrði látið fara til Nd. aftur, þá yrði það sama sem að stöðva málið í þinginu. Í þessu liggur stórkostleg móðgun við hv. Nd. Ég hefi lengst af minni þingsetu átt sæti í þeirri hv. d., og ég þoli það bara illa, að verið sé að bregða hv. d. um slíkt, og þó sérstaklega það, þegar hv. þm. komst svo að orði, að hv. Nd. hafi snúizt eins og snælda. Það er ekki satt, að hv. Nd. hafi snúizt eins og snælda um þetta mál.

Eins og við vitum, var í Nd. fellt frv. um þetta mál í vetur. Svo var borið fram frv. um það aftur sem tilraunafrv. Ég hygg, að það hefði fyrir mörgum orðið eins og mér, því að ég hefði algerlega orðið á móti því, að gera þetta frv. að lögum, ef ekki hefði verið sett það ákvæði inn í það, að þau lög ættu ekki að gilda nema til 31. des. 1934. En af því að þau eiga að falla niður þá, vil ég ekki setja fót fyrir þau nú, heldur bæta þau eins og unnt er.

Það eru ekki rétt rök hjá hv. 2. þm. S.-M., að hv. Nd. muni neita um afbrigði í málinu; þess er ég fullviss.

Ég þykist hafa rétt til að vænta þess, að svo verði litið á, að ég hafi lagt fram mitt bezta til að bæta þetta mál, eins og ég geri æfinlega í öllum málum hér á þingi.