15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2708 í B-deild Alþingistíðinda. (4422)

97. mál, veitingaskattur

Flm. (Jónas Jónsson):

Þessi skattur, sem hér um ræðir, hefir ekki áður verið lögleiddur hér, en í nágrannalöndum okkar er hann algengur, og er þetta frv. sniðið eftir l. nábúalanda okkar um þetta efni.

Aðalefni frv. er það, að skattleggja skuli veitingar á veitingahúsum. Það má segja, að alveg sérstakar ástæður réttlæti þennan skatt, því að margt af því fólki, sem almennt sækir gildaskála, borgar minna til almenningsþarfa tiltölulega en þeir, sem mestan toll borga af nauðsynjavörum. Ég býst við, að þetta frv. þyki svo sjálfsagt, að um það verði ekki miklar umr. Ég leyfi mér að óska, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.