15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2709 í B-deild Alþingistíðinda. (4423)

97. mál, veitingaskattur

Jón Baldvinsson:

Mér skildist það svo, að höfuðrökin frá hendi hv. flm. fyrir þessu frv. væru þau, að þessi skattur væri algengur hér í nágrannalöndunum. En það er nú svo, að þar, sem þessi skattur hefir verið, er hann alstaðar mjög óvinsæll og hefir verið afnuminn víðasthvar. Það er ekki fjarri sanni, að rétt sé að skattleggja óhófseyðslu, og vitað er, að mikið af því, sem keypt er á kaffihúsum, má telja til óhófseyðslu.

En aðalaths., sem ég vil gera við þetta frv., er sú, að mér er ekki um, að stj. fái svona tekjuauka, sem hún hefir óskorað vald yfir. Ég hefði viljað, að ákveðið væri í l. sjálfum, til hvers skattinum ætti að verja.

Ég veit það ekki enn, hvort ég eða minn flokkur verður með þessu frv., eða yfirleitt slíkum tekjuaukafrv., nema þá að fénu ætti að verja til þess að bæta úr því erfiða atvinnuástandi, sem nú ríkir í landinu. Svo er ég frekar vantrúaður á, að þetta frv. gefi ríkissjóði miklar tekjur.