29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2714 í B-deild Alþingistíðinda. (4432)

97. mál, veitingaskattur

Pétur Magnússon:

Aðeins örfá orð til grg. fyrir atkv. mínu í þessu máli.

Það gekk erfiðlega að fá þdm. til að greiða atkv. um þetta mál á laugardaginn, og var það ekki að ástæðulausu, því að eins og frv. liggur fyrir er ekki fært að gera það að 1. Mjög áberandi ágallar eru á frv., sem snúa að framkvæmd l. Ég álít þó ekki rétt að láta málið stranda á þessum göllum. Af því að frv. á eftir að fara í gegnum aðra d., er enn kostur á að bæta úr þeim. Eftir því, sem útlitið er með fjárhagsafkomu ríkissjóðs, finnst mér ekki rétt að setja sig á móti þeim sköttum, sem koma ekki mjög ósanngjarnlega niður, og þessi skattur verður að teljast einn slíkra. Ég tel hann hættuminni en ýmsa aðra skatta, sem verið er að bollaleggja um á þessum tímum.

Ég hefi orð hæstv. fjmrh. fyrir því, að hann muni beita sér fyrir endurskoðun á frv., þegar það kemur til Nd., og verða þar væntanlega gerðar nauðsynlegar breyt. á því.

Með þetta fyrir augum greiði ég atkv. með frv. út úr þessari hv. d.