02.06.1933
Neðri deild: 93. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2718 í B-deild Alþingistíðinda. (4455)

97. mál, veitingaskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Nýlega var útbýtt brtt., sem teknar eru eftir till. skrifstofustjóra í fjmrn. og tollstjóra. Þær eru flestar smávægilegar breyt., og 9. brtt. sú eina, sem verulegu máli skiptir. Hún hljóðar svo:

„Fjármálaráðuneytið setur með reglugerð nánari ákvæði um innheimtu skattsins og framkvæmd þessara laga og ákveður sektir fyrir brot á reglugerðinni í samræmi við sektarákvæði laganna“.

Tollstjóri, sem farið hefir yfir frv., hefir ekki fundið neitt sérstakt við það að athuga, þegar teknar eru til greina allar brtt., en hann segir, sem satt er, að það sé með þessi 1. eins og öll önnur, að það verður að feta sig áfram með þau, og er því borgið með 9. brtt.

Vænti ég þess, að þessar breyt. verði samþ., þó að hv. þdm. kunni að virðast frv. nokkuð flókið eins og það liggur fyrir, þá er það sniðið eftir erlendri fyrirmynd. Auk þess ætti það að vera nokkur trygging, að þeir embættismenn, sem vanir eru að fást við framkvæmdir slíkra laga, hafa farið yfir frv. án þess að hafa neitt stórvægilegt við það að athuga. Ég vænti því, að frv. og till., sérstaklega 9. brtt., fái góðar undirtektir, þar sem upphæð skattsins stendur óhögguð, en eftir því aðallega taka þingmenn afstöðu sína.