21.03.1933
Neðri deild: 32. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

3. mál, landsreikninga 1931

Magnús Jónsson:

Ég hefi verið svo óheppinn að vera frá störfum nú að undanförnu og hefi því ekki fylgzt með málinu sem skyldi, en ég kann ekki við að láta frv. fara út úr þessari d. án þess að fara um það nokkrum orðum.

Eins og menn kannast við, þá var bókhaldi ríkisins breytt fyrir nokkru, og ég hygg, að það væri nóg efni í bækling og hann ekki svo lítinn, ef safnað væri saman öllum þeim lofræðum, sem haldnar hafa verið um stj. fyrir að koma þessum dæmalausu umbótum í framkvæmd. Ég ætla ekki að fara út í þau ágreiningsmál, sem hafa verið um það, hvort þetta form á LR. og fjárlagafrv., sem fylgt hefir verið nú um hríð, né til bóta eða ekki, eða þær aths., sem gerðar hafa verið um það frá þeirra hálfu, sem fannst þessi breyt. ekki til bóta, en þó verð ég að segja það, að við yfirskoðun LR. virtist mér þetta nýja form að mörgu leyti mesta vansmíði.

Í fyrstu aths. yfirskoðunarmanna er því hreyft, sem auðvitað getur komið fyrir, hvernig sem bókhaldið er, að því fari fjarri, að frágangur bókhaldsins sé í góðu lagi. Ég er ekki vanur að sjá bækur ýmissa fyrirtækja, en ég býst þó við, að það þætti leiður frágangur á bókhaldi einkafyrirtækja, ef það liti út eins og verið hefir hjá ríkinu, að í höfuðbók séu niðurstöðutölur ekki færðar út nema lauslega með blýanti, og svo það, sem lakara er, að þessar tölur eru alls ekki alltaf réttar. Það vakti eftirtekt okkar endurskoðendanna, að það kom fyrir, að niðurstöðutölurnar voru aðrar en í LR. Fórum við þá að athuga þær, og þá reyndust tölurnar í LR. réttar, en hinar skakkar.

Þessar skekkjur hafa valdið yfirskoðunarmönnunum mikilla óþæginda og erfiðisauka, því að þær urðu til þess, að taka varð ekki einungis þessa liði, heldur og marga aðra, og kostaði það mikla fyrirhöfn.

En ef litið er á formið sjálft, þá verður ekki annað sagt en að það sé mjög þunglamalegt. Samanburðurinn, sem yfirskoðunarmenn verða að byrja á, þ. e. a. s. að bera tölur LR. saman við fylgiskjölin, kostaði áður 2 menn í vikutíma, en með þessu nýja fyrirkomulagi tekur hann 3 menn í hálfu lengri tíma. Þetta út af fyrir sig er reyndar aukaatriði, þótt það sé meira verk að endurskoða með þessu fyrirkomulagi. Hitt er lakara, að við það, að þetta er fært inn í fleiri bækur, koma inn stórvægilegar villur.

Hv. þdm. munu hafa tekið eftir 19. aths., þar sem sagt er, að við samanburð á fskj. og dagbók hafi yfirskoðunarmenn veitt því eftirtekt, að ófærðir eru til gjalda á LR. þessir liðir.

Samkvæmt dagbók:

Laun presta .............. kr. 5168,27

Berklakostnaður .......... — 1000,00

Skipaskoðun ............. — 700,00

Skattanefndakostnaður .... — 2594,85

Samtals kr. 9463,12

Gjöldin eru því vantalin um þessa upphæð.

Það eru ekki stór orð, sem höfð eru um þessa aths., en hér er um hreina villu að ræða, sem nemur nærri því 10 þús. kr. Þetta hefir orsakazt vegna þess, að þegar fært var inn í dagbók, hafa fyrirsagnir að liðunum verið skrifaðar, en tölurnar ekki útfærðar. Nú má segja, að slíkar villur geti komið fyrir hjá öllum, en það sýndist ekki mikið vandaverk að taka eftir slíkum skekkjum svo að segja undir eins og þær koma fram. Jafnvel þótt ekki væri lesið saman, sem vitanlega væri óafsakanlegt, gæti maður þó haldið, að þetta kæmi fljótlega fram sem skekkja á sjóði. — Ég er enginn bókhaldsfræðingur, en eitthvað hlýtur þó að vera bogið við bókhaldið, þegar svona getur skakkað um 10 þús. kr. án þess að það komi fram í sjóði og án þess að þeir, sem bókhaldið hafa með höndum, hafi hugmynd um það, fyrr en yfirskoðunarmenn LR. nærri því ári síðar koma auga á þetta. Sem sagt, það virðist svo sem gera megi næstum ótakmarkaðar villur og vitleysur án þess að menn komi auga á það. Hér er um þann megin galla í bókfærslunni að ræða, að það er enginn galli til, sem getur verið stærri, þegar ómögulegt er að sjá á bókhaldinu, hvað á að vera í sjóði.

Auðvitað átti bókhaldið að vera þannig, að þegar yfirskoðunarmenn byrja á sínu starfi, þá gætu þeir sagt við bókhaldsmennina: „Hvað á að vera í sjóði hjá ríkisféhirði í dag, góðir herrar?“, og við því áttu þeir að geta samstundis fengið rétt svar, og þegar það var fengið, að fara til ríkisféhirðis og telja hjá honum, hvort þar væri allt það fé, sem vera átti. En í staðinn fyrir þetta, var ekki hægt að fá svar við svona einfaldri spurningu í ríkisbókhaldinu. Nú mætti spyrja, hvernig við hefðum leyst af hendi þessa talningu hjá ríkisféhirði, sem er nú eitt af því, sem yfirskoðunarmenn eiga að gera, og skal ég þá upplýsa það, að við urðum að fá upplýsingarnar hjá ríkisféhirði sjálfum, því að hann hefir sjálfur sitt bókhald, sem virðist allt vera í prýðilegasta lagi. En það sér hver maður, að það ætti ekki að þurfa að fá upplýsingar hjá honum, sem einmitt á að hafa eftirlitið með.

Það verður ekki sagt annað en að það sé allmikið sleifarlag, þegar þessir makalausu sérfræðingar stjórnarinnar, sem komu upp þessu fullkomna bókhaldi, geta ekki séð svo um, að ekki sé eftir nein smuga, sem geri allt hitt ónýtt. Það þarf ekki nema eitt gat á síldarlásinn, til að öll síldin fari út og það þarf ekki nema eina ruslakistu í hvert bókhald til þess að allt hitt verði ónýtt.

Hæstv. stj. hefir tekið vel undir aths. um þetta og haft góð orð um, að þetta skuli verða fært í lag, og er gott, ef svo verður. Nú mun það vera tilætlunin að taka upp notkun véla við ríkisbókhaldið, og ef þetta tekst vel, þá mun það gera allt öruggara og léttara að endurskoða en verið hefir, því að þá verða tvær bækur, sem áður þurfti að lesa saman, ekkert annað en vélritaður gegnumsláttur, og getur því ekki greint á.

Þá vil ég beina til hæstv. forsrh. einni fyrirspurn út af 23. aths. um laun Sig. Baldvinssonar póstmeistara í Rvík. Í aths. við LR. í fyrra var svipuð aths. um embættismann, sem voru borguð hærri laun en lögákveðið var. Þetta er þó ekki eins merkilegt tilfelli að því leyti, að í hinu tilfellinu voru greidd hærri laun en voru til í því embætti, en hér er þessum embættismanni greidd frá byrjun hámarkslaun. Yfirskoðunarmenn gátu ekki séð, að nein heimild væri til að gera þetta. Í þessu efni dugir ekki fyrir stj. að afsaka sig með því, að það væri sanngjarnt, að launin væru hærri, því að þá hefði hún átt að bera fram frv. til breyt. á því, sem henni finnst ósanngjarnt, en ekki leyfa sér að breyta sjálf til án lagaheimildar.

Stj. hefir svarað þessu í 23. svari sínu, að tekið hafi verið tillit til þess, að Sig. Baldvinsson hafi áður starfað að póstafgreiðslu í 12 ár, en þótt svo sé, þá heimilar þetta ekki nema fyrstu launahækkunina. Það er algengt, að þegar mönnum er veitt embætti, þá hafi þeir starfað meira en12 ár að samskonar störfum. Og af því að þetta svar er óákveðið, vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort stj. muni ekki leiðrétta þetta.

Í 24. aths. gera yfirskoðunarmenn nokkrar aths. út af stórkostlegum misfellum í sambandi við stjórn útvarpsins. Ég held þó, að ég þurfi ekki við þessa umr. að fara langt út í það mál, en vel mér þá annað tækifæri, ef mér þykir ástæða til. Eins og má sjá á svari yfirskoðunarmanna, þá höfum við fallizt á till. stjórnarráðsins um endurgreiðslu útvarpsstjóra, og þar sem rætt er um LR., þá er ekki að ræða um annað en væntanlega endurgreiðslu á þessu.

Fyrir mér vakir ekki fyrst og fremst krónutalan í þessu sambandi. Hér er ekki að ræða um stórar upphæðir. Fjárhagur ríkisins eða kreppan breytist ekki verulega þeirra vegna. En framkoma hlutaðeiganda í ábyrgðarmikilli stöðu er í mínum augum aðalatriðið, sem kemur þó í sjálfu sér ekki mikið við samþ. LR. Það er sama að segja um andvirði útvarpstækjanna, sem voru afhent hér nokkrum spítölum. Eins og marga mun reka minni til, barst út sú fregn, að Jónas Jónsson hefði gefið þessi tæki til spítalanna. Og blessunaróskirnar út af því voru nú ekkert smáræði, og skal ég alls ekki reyna að hafa þær af honum. En sumir undruðust það, að ekki tekjuhærri maður eftir skattaframtali skyldi hafa ráð á að gefa þessum hælum svona dýr tæki. Það er ekki algengt, að menn geti snarað út töluvert á 6 þús. kr. í einu, eins og verð þessara gjalda var. En nú sést hér, að útvarpið var látið borga. Kostuðu þau sem hér segir: Tækin til hressingarhælisins í Kópavogi 1236,10 kr., til Vífilstaðahælis 2049,90 kr., til Kristneshælis 1862,80 kr., til geðveikarhælisins á Kleppi 698,00 kr., eða samtals 5846,80 kr.

Það hefir nú verið valin sú leið, að þessar stofnanir hafa verið taldar skulda andvirði tækjanna. Það nær ekki nokkurri átt, að útvarpið sé að eiga hjá þessum stofnunum. Það er skömm fyrir stofnanirnar og það fé er arðlaust útvarpinu. Það má náttúrlega segja, að það sé ekki mikið peningaspursmál, og þó að hér sé um ríkisstofnanir að ræða, sem verða þessa aðnjótandi, þá dugir hér enginn grautarreikningur á milli ríkisstofnana. Það verður að innheimta þetta og koma því í lag.

Einn liður er ennþá, sem við höfum gert aths. við fyrir utan það, sem úrskurðað hefir verið um endurgreiðslu á, en það er kostnaður við útvarpið, og það er eins með það, að það er raunverulega ekki viðkomandi þessu máli, sem hér liggur fyrir. Það er miklu frekar efni fyrir fjvn. að athuga, hvort ekki sé hægt að spara á rekstri útvarpsins án þess að það biði hnekki af. Við endurskoðendur höfum bent á það, að einn liður rekstrarkostnaðarins virðist vera ákaflega dýr, nefnilega fréttasöfnunin. Þær innlendu fréttir, sem í útvarpinu koma, eru margar nauðaómerkilegar, upplestur úr hagskýrslum og fréttir úr blöðum, inngangur að reikningum Landsbankans o. þ. h. Þá eru lesnar upp fréttir úr skeytum frá fréttariturum útvarpsins úti um land. Ég hefi nú um tíma haft tæki, og ég er hissa á því, hve þessar fréttir eru ómerkilegar og litlar. Ég saka ekki útvarpið um þetta. Þegar um litlar innlendar fréttir er að ræða, getur það ekki annað en sagt frá því, sem er lítið. En það, sem mér er óskiljanlegt, er, hve dýrt það er að safna þessum litlu fréttum. Ég veit, að útvarpsstjórinn gæti safnað þessum fréttum sjálfur, ef hann væri duglegur maður, og lesið þær upp meira að segja. En það eru 2 vel launaðir embættismenn, sem það gera, og þurfa þeir þó ekki að lesa þær upp.

Það er fleira, sem ég álít, að vel mætti spara við útvarpið. Jón Eyþórsson, sem er í útvarpsráðinu, hefir gert skýrslu um ýmsar greinir útvarpskostnaðarins. Allir fyrirlestrar, upplestrar, sólósöngvar og allt þess háttar, kostaði eitthvað um 12 þús. kr. yfir árið. En útvarpskvartettinn, sem leikur einstöku sinnum smærri eða stærri lög, kostar um 17 þús. kr. Þó má fullyrða það, að það væri í flestum tilfellum miklu skemmtilegra að fá að heyra grammófónplötur. Ég get vel unnað ýmsum kunningjum mínum, sem eru í honum, góðra launa, en í rekstri útvarpsins er þetta mikið ósamræmi.

En aðalatriðið í þessu sambandi er útvarpsstjórinn sjálfur. Mestur sparnaðurinn yrði í því að fella embætti hans niður. Mér hefir ekki enn lukkast, enda þótt ég hafi gengið eftir því — og ég geri það hér með enn á ný — að fá að vita, hvað hann eiginlega starfar við útvarpið. Hann er ekki fréttamaður, ekki skrifstofumaður, ekki vélamaður, ekki þulur, semur ekki dagskrá og ekki gerir hann við tæki. Ég hefi aðeins fengið eitt svar við fyrirspurnum mínum um þetta efni, það, hvort ég héldi ekki, að það þyrfti yfirmann yfir útvarpið, eins og aðrar stofnanir. En þessi útvarpsstjóri kostar útvarpið rétt að segja eins mikið og allir fyrirlestrar, upplestrar og sólósöngur og öll sú vinna, sem útvarpsnotendur hafa mest gagn af. Hann fær rétt að segja eins mikið, bæði í föstum launum og fyrir eftirlit, sem hann hefir með viðtækjaverzluninni.

Ég er sannfærður um það, að á þessum þrem liðum má spara mikið fé, og það án þess, að nokkur hlustandi yrði var við það. Mér virðist, að það lægi langnæst að leggja skrifstofuhald útvarpsins undir landssímann. Hann hefir mörgu fólki á að skipa, og þó að bæta þyrfti við starfsfólki þess vegna, yrði þó sparnaður að því, vegna þess að þetta skrifstofuhald yrði þá rekið með sameiginlegri yfirstjórn. Dagskrána annast útvarpsráð, og formaður þess fær sérstaka þóknun fyrir að ganga frá henni. Viðtækjaverzlunin mundi sennilega geta haldið áfram, þótt útvarpsstjóri væri ekki þar með sína yfirumsjón. Tekjur hennar yrðu bara þeim 2 þús. kr. meiri árlega, sem útvarpsstjóri fær nú fyrir þetta eftirlit. Ég er viss um, að hlustendur eða aðrir yrðu ekkert varir við það; sem sagt, enginn nema útvarpsstjóri sjálfur. Þetta kemur nú ekki beinlínis við landsreikningnum, heldur er því skotið til þingsins, það er fjvn., sem tekur málið til meðferðar og gerir sínar till. um það. En ég vil aðeins benda n. á það, að hér er tækifæri til að spara töluvert mikla fjárupphæð.

Menn munu hafa tekið eftir því, að undir þessa 24. aths. hefir einn endurskoðunarmaður LR. skrifað með fyrirvara, en það er Hannes Jónsson dýralæknir. Hann mun hafa verið fulltrúi allra sárustu vandlætingaseminnar í garð hinnar spilltu embættismannastéttar, sem flokksmenn útvarpsstjóra hafa sífellt verið að klifa á. Það er sannarlega dálítið nöpur mynd af því, hve þessi vandlætingasemi er misjöfn eftir því, hver á í hlut. (LH: Er það einsdæmi?). Er hvað einsdæmi? Að menn skrifi undir aths. með fyrirvara? Ég man ekki eftir að hafa séð það fyrr, að skrifað hafi verið undir sérstaka aths. með fyrirvara, og sízt um svo sjálfsagða aths. sem hér er um að ræða.

Fleiri aths. gæti maður sagt eitthvað um hér, en ég geri það ekki að svo komnu.