08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (4471)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Jónsson:

Af því að þessar stuttu umræður, sem hér fara fram nú, bera á sér nokkuð stórpólitískan blæ, vil ég fara um það nokkrum orðum. En ég skal þegar í upphafi geta þess, að ég tala hér ekki af hálfu míns flokks, enda þótt mér sé kunnugt um, að ýmsir menn í flokknum líta á málið á sama hátt og ég.

Þetta stjórnarskrárfrv. samsteypustj. er borið hér fram samkv. áður gefnu loforði, þegar stjórnin var mynduð í lok síðasta þings. Við athugun á þessu frv. er ómögulegt að neita því, að nokkuð brestur á, að það fullnægi kröfum Sjálfstfl. í kjördæmamálinu, og vil ég leyfa mér að benda á nokkra agnúa, sem eru á frv.

Í fyrsta lagi kann ég því illa, að núv. kjördæmaskipun sé lögfest í teksta stjskr., og tel ég það vera til lýta. Ég álít, að í stjskr. eigi aðeins að vera meginreglur stjórnskipulagsins, en ekki útfærsla eða tæmandi skýringar á fyrirkomulagi þess í smærri atriðum.

Einnig tel ég það galla á frv., að tvímenningskjördæmi skuli vera ákveðin í stjskr. og haldið áfram þeirri leiðinlegu reglu að banna hlutfallskosningar, sem annarsstaðar eru viðurkenndar sem réttlát skipun, þar á meðal við nefndakosningar á sjálfu Alþingi. Það er leiður blettur á frv. að taka svo óheppilega og úrelta reglu inn í teksta stjskr.

Þá tel ég það ennfremur galla á frv., að Reykjavíkurkjördæmi, sem áður hefir verið mjög afskipt um tölu þm., skuli framvegis eiga að vera meira afskipt en það er nú raunverulega, þar sem gert er ráð fyrir, að í Rvík geti ekki orðið nema 6 þm., enda þótt þm. geti orðið 50 samtals. Það hljóta allir að sjá, að þetta er mjög ranglátt.

Þá verð ég líka að telja gallað það fyrirkomulag, sem hugsað er á skipun uppbótarsæta. Vitanlega væri heppilegast að dreifa uppbótarsætum sem jafnast um allt land. En samkv. því, sem frv. gerir ráð fyrir, gætu uppbótarsætin að miklu leyti hrúgazt saman í einn landsfjórðung, og það ef til vill þann landsfjórðung, sem hefði áður fengið flesta kjörna fulltrúa við kosningar í einstökum kjördæmum. Náttúrlega er það einn megingallinn á þessu frv., að tala uppbótarsæta skuli vera fastákveðin, og þess vegna næst ekki til fulls það markmið, sem liggur til grundvallar fyrir úthlutun uppbótasætanna.

Það er og ókostur á þessu frv., að gert er ráð fyrir allverulegri fjölgun þm., einkum af því að það er gert að óþörfu. En ástæðan fyrir því virðist aðeins vera sú, að ekki hefir náðst samkomulag á milli flokkanna um heillavænlegri leiðir til kosningaskipulags, sem þó væru margar til. Enda mun óhætt að fullyrða, að það er ekki gert samkv. þjóðarvilja að fjölga þingmönnum.

Þrátt fyrir alla þessa galla, sem ég hefi nú talið á þessu frv., sem sumir eru að vísu smávægir, en aðrir miklir, þá hefir Sjálfstfl. litið svo á, að þetta frv. væri stórt spor í rétta átt og að það væri útrétt hönd til samkomulags í þessu mikilsverða máli, sem flokkurinn vili taka í með velvild. Með því er lagður grundvöllur, sem í framtíðinni má halda áfram við að auka og bæta.

Sjálfstfl. lítur svo á, að hæstv. forsrh. hafi efnt þau heit, er hann gaf, þegar samsteypustj. var mynduð, um að flytja á þessu þingi frv., sem fæli í sér sanngjarna lausn á kjördæmamálinu. Þess vegna hefir flokkurinn ekki talið ástæðu til að óska eftir því, að ráðh. hans viki úr stj., eins og hann hefði annars gert að sjálfsögðu, ef þetta loforð hefði ekki verið efnt.

Þá vil ég aðeins minnast á tvö atriði í ræðu hæstv. forsrh. Hann lagði mikla áherzlu á það, að höfuðverkefni samsteypustj. væru fyrst og fremst þau, að ráða fram úr þeim fjárhagsvandamálum, sem stæðu í sambandi við kreppuna og erfiðleika atvinnuveganna, og ennfremur, að stjórnarskrármálið væri ekki nema einn aukaþáttur af verkefnum hennar. En þar er ég algerlega á öðru máli og hlýt því að mótmæla þessu. Þó að hæstv. forsrh. legði mikla áherzlu á fjárhags- og kreppumálin í ræðu sinni, þegar hann tók við stjórnartaumunum, þá var það ekki nema sjálfsagt, og í raun og veru hefði hver og einn stjórnarformaður hlotið að gera hið sama á þessum erfiðleikatímum. En þrátt fyrir þetta er sú staðreynd á allra vitorði, að það var ekkert annað en kjördæmamálið, sem olli stjórnarskiptunum og kom samsteypustj. á laggirnar. Þessu til sönnunar þarf ekki annað en að vitna til þeirrar tilkynningar, sem fyrrv. forsrh. (TrÞ) fól forsetum beggja deilda að lesa upp á þingfundum 27. maí síðastl., þar sem hann gerir grein fyrir lausnarbeiðni sinni skömmu áður en stjórnarskiptin fóru fram. Í þessari yfirlýsingu felast ástæðurnar fyrir lausnarbeiðni fyrrv. stj., og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr henni nokkur orð. Eftir að fyrrv. forsrh. hefir gert grein fyrir yfirlýsingum frá andstöðuflokkum stj. í Ed. um að þeir greiði atkv. gegn fjármálafrv. stj., nema fyrir liggi viðunandi lausn í kjördæmamálinu, kemst hann þannig að orði:

„Síðan hafa verið gerðar mjög ýtarlegar tilraunir til að fá þá lausn á kjördæmamálinu, sem flokkarnir gætu orðið ásáttir um. Af hálfu beggja aðilja hefir komið fram vilji um að leysa málið. Eigi að síður hafa samningatilraunir ekki borið fullnægjandi árangur, og ég tel fullreynt, að lausn málsins fáist ekki við mína forystu. Liggur það því fyrir, að núv. stjórn er þess ómáttug að fá þá afgreiðslu mála á Alþingi, sem gerir henni mögulegt að reka þjóðarbúið eins og þörfin krefur nú“.

Fyrrv. forsrh. lýsir því hér með yfir, að vegna þessa eina máls, kjördæmamálsins, sé stj. ómáttug til þess að vera við völd og reka þjóðarbúið, og þess vegna hljóti hún að segja af sér. Það liggur því í augum uppi, að það var kjördæmamálið — og það mál eitt —, sem var grundvöllur samsteypustj. Það var fyrrv. stj. Framsfl. ofraun að leysa það mál. Enda kom þetta fram í ræðu hæstv. núv. forsrh., þegar hann tók við stj. En vegna þess, að samsteypustj. er einmitt til orðin fyrir þetta mál og að hún hefir lifað fyrir það, þá hlýtur af því að leiða, að hennar dagar eru taldir og að hún hlýtur að víkja með þessu máli, ef henni tekst ekki að leysa það. Samsteypustj. hlýtur að standa eða falla með þessu máli. Ef stjórnin hefir ekki nægan þingvilja á bak við sig til þess að leiða stjskr. til lykta, þá er það sama sem yfirlýsing um, að hún geti ekki haldið áfram að starfa. Þeir þm., sem styðja þessa stjórn, verða því að skera úr um það, hvort þeir vilja fylgja henni að samþykkt þessa frv., eða hvort þeir ætlast til, að hennar dagar séu taldir. Það verður þá á þeirra ábyrgð, og þeir verða því að hljóta heiður eða vanheiður af því, að hafa rofið samningana um stjórnarmyndunina og lausn kjördæmamálsins.

Annað atriði í ræðu hæstv. forsrh., sem mér þótti athugavert, var það, að hann ympraði eitthvað á því, að óvíst væri, að þetta frv. hlyti fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi. Ég skal ekkert véfengja það að svo stöddu; það má vel vera, að hann viti eitthvað nákvæmar um það efni en ég. En ég saknaði þess einungis í ræðu hæstv. forsrh., að hann skyldi þá ekki halda lengra áfram og skýra hv. þd. frá því, hverjar afleiðingar það myndi hafa fyrir stj. og hvað hún ætlar sér að gera, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga á þinginu.

Ég hefi nú gert grein fyrir mínu áliti á þessu frv., og ég sé ekki, að það muni miklu á því, hvort frv. verður fellt eða að á því verða gerðar breyt. til skemmda, þannig að það dagar uppi. (HStef: Það er líka hægt að breyta því til batnaðar).