08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2742 í B-deild Alþingistíðinda. (4479)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Héðinn Valdimarsson:

Ég get ekki fallizt á, að það sé einkamál Sjálfstfl., hver verður afstaða hans í þessu máli. Kjósendum landsins kemur það við, og þeim eigum við þm. að gera grein fyrir, hver er stefna flokkanna og hvaða afstöðu þeir taka. Það er því eðlilegt, að við spyrjum Sjálfstfl. um afstöðu hans til þessa frv., eftir allan þann skollaleik, sem hann hefir leikið í stjórnarskrármálinu. Stefna okkar jafnaðarmanna í því máli er öllum augljós, því við höfum lagt fyrir Alþingi okkar eigið frv. Það hafa sjálfstæðismenn ekki gert, nema þá ef frv., sem hér liggur fyrir, er þeirra frv. Þess vegna er full ástæða til að spyrja: Hvað ætlar Sjálfstfl. að leggja mikla áherzlu á þetta mál?

Hæstv. stj. ætti að geta svarað, hvað mikla áherzlu hún sjálf ætlar að leggja á framgang þessa frv. Ætlar hún að gera stjórnarskrármálið að Kabinet-spursmáli? Aðstaða okkar jafnaðarmanna gagnvart samsteypustj. er öllum kunn; við erum á móti henni og munum verða það. Og við verðum á móti öllum stj., sem ekki leysa stjórnarskrármálið á viðunandi hátt.