21.03.1933
Neðri deild: 32. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

3. mál, landsreikninga 1931

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég hafði ekki búizt við miklum umr. um þetta efni við þessa umr. Enda er sumt af því, sem fram hefir verið talið, þess eðlis, að það er til athugunar fyrir bókhald ríkisins og endurskoðendur. Þær aths., sem komið hafa fram frá endurskoðunarmönnum við frágang bókhaldsins o. þ. h., verða til athugunar, og tjáir ekki að ræða þær neitt frekar hér. Í sambandi við fráganginn skal ég aðeins geta þess, að síðan þessu bókhaldi var lokið, sem nú hefir verið endurskoðað, hefir verið bætt við vél í bókhaldi ríkisins, svo að nú er vélritað í aðalatriðum, en ekki skrifað, eins og áður. Vona ég því, að ekki þurfi að kvarta yfir skriftinni framvegis.

Um form bókhaldsins kann að mega segja það, að það kunni að vera í einhverju þunglamalegt og standi í sumum greinum til bóta. Ég hefi beðið endurskoðendur ríkisins að athuga það og gera tillögur um endurbætur á því, og þær till., sem þeir gerðu undir áramótin, voru helzt í sambandi við þessa vél, sem nú hefir verið keypt, og um það, hvernig hún skyldi vinna.

En hitt er ómótmælanlegt, að það er mikið gagn að ýmsum endurbótum á þessu bókhaldi. Sérstaklega um að geta séð réttar útkomur um hag ríkissjóðs og að fá gleggri samanburð milli ára en nokkurn tíma hefir áður verið hægt. Bókhaldið er samið í meginatriðum eftir því, sem tíðkast í okkar nágrannalöndum, og sett í eitt kerfi af hinum beztu bókhaldsmönnum.

Um 23. aths. endurskoðenda er ég ekki tilbúinn að svara öðru en því, að póstmeistarinn í Rvík hefir verið látinn njóta þess starfsaldurs; sem hann hafði á Seyðisfirði, áður en hann kom hingað. Enda þótt það sé ekki regla, að láta menn njóta starfsaldurs í skyldum stöðum þessari, mun það þó ekki vera eina undantekningin í því efni. Þetta mun verða tekið til athugunar í samráði við atvmrn. og póstmálastjóra.

Eins og ég hefi tekið fram, hafði ég ekki gert ráð fyrir miklum umr. um útvarpið nú að þessu sinni, vegna þess að endurskoðendur hafa fallizt á úrskurð þann, sem fjármálaráðuneytið hefir gert við aths. endurskoðenda ríkisins.

Aðeins vil ég benda á það, að úrskurðir þessir voru allharðir, eftir því sem venja er til, og ekki sýnd meiri mildi í þeim en gert hefir verið gagnvart öðrum starfsmönnum í hliðstæðum tilfellum. Aðalendurgreiðslan er vegna bifreiðakostnaðar, og virðist þó sýnt, að útvarpsstjóri hafi ekki notað þessar bifreiðar að öllu leyti í sínar eigin þarfir. En þar sem langt var um liðið og erfitt að sundurgreina það, hve mikið af þessari bifreiðanotkun var í þarfir útvarpsstjóra og hve mikið í þarfir útvarpsins, var úrskurðað þannig, að allar þessar 500 kr. skyldu verða endurgreiddar af útvarpsstjóra. Slíkur úrskurður var ekki mildari en við var að búast.

Þá er ferðakostnaður stúlku frá Ameríku, sem hefir sérstaka þekkingu á starfi sínu við útvarpið, sem útvarpið greiddi í fyrstu. Um það hafði ekkert verið talað við atvinnumálaráðuneytið fyrirfram að taka þátt í þessum ferðakostnaði. En ég geri ráð fyrir því, eftir því sem mér er kunnugt, að ef talað hefði verið um það fyrirfram við ráðuneytið, þá hefði það tekið einhvern þátt í kostnaðinum. Útvarpsstjóri var svo látinn gjalda þess, að ekki var þannig farið fram á þátttöku, og honum gert að greiða helminginn. Það munu finnast hliðstæð dæmi þess, án þess að kvartað hafi verið yfir, þó að ráðuneytið hefði tekið að sér að greiða ekki minna en helming þessa ferðakostnaðar, því að þessi stúlka var sérlega vel að sér í ensku máli, sem nauðsynlegt er til þess að taka á móti enskum fréttaskeytum.

Ég skal játa það, að það var ekki úrskurðað um endurgreiðslu á fé til risnu, sem var í reikningnum. (MJ: Dálitlu af því). Jú, að vísu örlitlu. En mest af því var ekki endurgreitt, vegna þess að það er sannarlega ekki hliðstæðulaust, að stofnanir hafi sett slíkt á reikninga sína án nokkurs sérstaks samtals við ráðuneytið. Þarf ekki að benda á annað en vélsmiðju ríkisins, tóbakseinkasöluna og víneinkasöluna. Þær hafa allar nokkra risnu alltaf á reikningum sínum. Nú geri ég ráð fyrir því, að þau fyrirtæki, sem skyldari eru einkafyrirtækjum en ríkisstofnunum, verði að hafa slíka risnu, og hafi ekki verið um það kvartað eða settar viðvörunaraths. við þær greiðslur í þeim stofnunum. Þar sem hér var ekki um alveg einstæða hluti að ræða, þá var útvarpsstjóra ekki gert að endurgreiða þessa risnu, heldur var þess getið, að slík greiðsla mundi ekki verða samþ. framvegis.

Í sambandi við þessa risnu skal ég líka geta þess, að sumt af henni var þess eðlis, að ráðuneytið hefði tekið hana að sér, ef leitað hefði verið til þess, þegar um móttöku þeirra útlendinga var að ræða, sem útvarpið tók að sér að taka á móti.

Ég hygg, að ekki mundi hafa verið úrskurðað öllu harðara um endurgreiðslur við aðra embættismenn heldur en þarna var gert gagnvart útvarpsstjóra. Það var ekki yfir neitt breitt af þessu og það kom allt skýrt í ljós við endurskoðun. Og ekkert var um það fárazt, þótt endurgreiðsluskylda væri sett um þessar upphæðir.

Um útvarpstækin til spítalanna skal ég ekki segja margt. En það blandast engum hugur um, hvílíkt þing það er í spítölum, að sjúklingar geti notið þess að hlusta á útvarp. Þegar maður kemur inn í hæli eins og t. d. á Vífilsstöðum, þá finnur maður fljótt, að útvarpið er þeirra hálfa líf, sem þar liggja mánuðum og jafnvel árum saman. Hitt má náttúrlega segja, að það hefði átt að óska eftir fjárveitingu til að kaupa þessi tæki handa þessum hælum áður en það var framkvæmt. Það, að einstakir menn hefðu gefið slíkt sjálfir, er ekki annað en venjulegt blaðasnakk.

Um sparnað við rekstur útvarpsins í einstökum greinum skal ég leiða hjá mér að svara, því þar um er mér ekki vel kunnugt, enda á útvarpsstjóri sjálfur sæti í þessari hv. d., og atvmrh. er kunnugri þeim efnum heldur en ég.