08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2743 í B-deild Alþingistíðinda. (4481)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Mig langar til að beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. Seyðf., hvort hann varð viljandi til þess í ræðu sinni áðan að láta í ljós, að hans flokkur myndi fylgja þessu frv. eins og það liggur nú fyrir, eða hvort ummæli hans í þá átt voru aðeins vanhugsuð.

Hann sagði hér með miklum þjósti, að sér þætti það galli og vottur um alvöruleysi í þessu máli, ef hæstv. forsrh. hefði eigi einu sinni tryggt frv. þrjú til fjögur atkv. innan síns flokks, svo það gæti náð fram að ganga. Sannleikur málsins er sá, að ef hæstv. forsrh. getur tryggt frv. eitt atkv. í Ed. og tvö í Nd. auk síns atkvæðis, þá nær það fram að ganga, ef Sjálfstfl. fylgir því og jafnaðarmenn, allir líka. Áttu orð hv. þm. Seyðf. í garð hæstv. forsrh. að vera yfirlýsing um það, að flokkur hans væri þegar búinn að taka afstöðu með frv. stj. eins og það liggur fyrir? Hafi þau ekki átt að skiljast þannig, voru þau ekkert annað en vanhugsuð vitleysa. Hv. þm. sér, að ef hans flokkur er á móti frv., þarf hæstv. forsrh. að tryggja því fleiri atkv. innan síns flokks, til þess það nái samþykki.

Eða var kannske hv. þm. Seyðf. að glopra hér út úr sér einhverju leyndarmáli? Er Alþfl. búinn að taka ákvörðun um afstöðu sína til frv., þó frsm. hans hér í d. (HV) færi dult með það? E. t. v. á það að ráða afstöðu hans, hvort stj. gerir málið að fráfararatriði. Allar þessar fyrirspurnir þeirra sócialistanna eru kannske gerðar með það fyrir augum að fá vitneskju um, hvað stj. ætlar sér, áður en flokkur þeirra lýsir yfir afstöðu sinni. Ef hæstv. stj. gerði stjórnarskrármálið að kabinet-máli, efast ég ekki um, að hv. jafnaðarmenn mundu fúsir að fórna málefninu fyrir valdafíknina, greiða atkv. á móti stj. í þeirri von að komast úr þeirri pólitísku ládeyðu, sem þeir nú eru í; þar kunna þeir illa við sig, vilja fá að ráða meiru.