08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2744 í B-deild Alþingistíðinda. (4484)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Mér finnst umr. þessar vera farnar að snúast einkennilega við. Það er nú enn ekki svo komið, að hv. þm. G.-K. sé orðinn forsrh. En hann er farinn að standa upp og svara fyrir hæstv. forsrh. Sá ég þó ekki, að hann færi einu sinni til hæstv. ráðh. til að spyrja um, hvað hann mætti nú segja, sem mér finnst, að hefði þó verið nærgætnislegra og kurteisara gagnvart honum.

Afstaða okkar jafnaðarmanna í stjórnarskrármálinu er mjög skýr, eins og búið er að taka fram. Við höfum lagt fyrir þingið frv., sem er í samræmi við okkar stefnu. Hinsvegar teljum við frv. stj. samningsgrundvöll, sem vel megi tala um. Að bregða fæti fyrir hæstv. stj. eigum við engan kost á, ef framhald verður á stuðningi Sjálfstfl. og svo traustlega um búið í flokki hæstv. forsrh. sem ætla má.