16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2750 í B-deild Alþingistíðinda. (4489)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. 2. minni hl. (Magnús Jónsson):

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þau ummæli hv. form. n. og frsm. meiri hl., sem hann hafði um það, hvernig störfum n. lyktaði eða hvort n. hafi í raun og veru klofnað. Þó vil ég segja það út af störfum n., að mér þykir ólíklegt, að ómögulegt hefði verið, ef mikill áhugi hefði verið á því hjá hv. form. n., að ná n. saman til fundar um slíkt mál sem þetta fyrr á þinginu. Annað mál er það, að ekki þarf að leggja mikið upp úr þessu, þar sem það er öllum vitanlegt, að slíkt mál er ekki afgr. í n. á venjulegan hátt, því að þetta er svo pólitískt mál, að flokkarnir í heild standa að því.

Þó að þetta sé 2. umr. málsins og samkv. þingsköpum eigi aðeins að ræða einstakar gr. frv., vil ég samt leyfa mér að fara nokkrum orðum um málið almennt.

Grundvöllur lýðræðisins er sú hugsun, að meðlimir þjóðfélagsins eigi allir sömu mannréttindi, meðan þeir glata þeim ekki, og eigi að hafa jafnmikil áhrif á meðferð mála. Vald sitt fá þeir svo í hendur kjörnum fulltrúum, og liggur þá í augum uppi, að allir eiga að hafa jafna aðstöðu í því fulltrúavali. Sjálf fulltrúasamkoman hefir allt vald sitt frá kjósendunum. Og ein helgasta skylda hennar er að sjá um, að þessum mannréttindum sé ekki misboðið.

Um þessi efni eru svo settar reglur. En það er almenn reynsla, að reglur allar verða úreltar, bæði af því, að byggð flyzt til, af því að hugmyndir manna um framkvæmdina breytast, og af því, að nýjar aðferðir finnast, er ná betur tilganginum. Af þessu leiðir, að kosningafyrirkomulag hlýtur að breytast smám saman, ef lýðræði á að haldast. Þeir, sem standa móti slíkum breytingum, gerast því beinlínis með meiri mótspyrnu andstæðingar lýðræðishugsunarinnar, grafa undan henni grundvöllinn og stofna henni í verulega hættu.

Orsök þessarar andstöðu gegn eðlilegum og sjálfsögðum og nauðsynlegum breytingum í þessum efnum er æfinlega ein og hin sama: Sú, að breytingin, sem á hefir orðið, hefir fært einum flokk manna, stétt eða landshluta sterkari aðstöðu en honum ber. Honum skapast aðstaða til þess að hafa meiri áhrif á úrslit mála á fulltrúasamkomunni en honum ber eftir fylgi í landinu, og hann vill ekki sleppa þessari aðstöðu. Þetta kemur fyrir í öllum löndum við og við, og sagan endurtekur sig í sífellu. Og þar sem fulltrúasamkomunni, sem þannig er kosin, er fengið valdið til þess að ákveða um sjálft val fulltrúanna, verður aðstaða sterkari að halda í þau rangfengnu völd, og freistingin mjög mikil að halda þeim til hins ýtrasta.

En sagan sýnir, að þetta getur ekki haldizt til lengdar. Annaðhvort verður sá flokkur, er þannig hefir náð völdunum gegn vilja meiri hl., að láta undan, eða afnema lýðræðið og beita öðru valdi eins lengi og það helzt uppi. — Hitt, að viðurkenna lýðræðið með vörunum en afneita þess krafti í reyndinni, er aðstaða, sem aldrei getur haldizt nema stundarkorn. Sé boginn spenntur þar of hátt, brestur hann fyrr eða síðar. Meiri hl. kjósendanna, sem á valdið, er borinn til valdsins, lætur ekki til lengdar fulltrúana, sem hann hefir kjörið til þess að fara með þetta vald, heita því á annan hátt en hann vill. Hann tekur þá þetta vald, og hann á rétt á að taka það, því að það er hans eign, og einskis annars.

Ég hefi leyft mér að bera hér fram þessar almennu hugleiðingar vegna þess, að þær eru grundvöllur þeirrar kröfu, sem fram hefir komið hér á landi um leiðrétting á kosningafyrirkomulaginu. — Ég skal ekki þreyta menn á því að endurtaka þær mörgu og greinilegu skýrslur, sem bornar hafa verið fram til þess að sýna, hve gersamlega kosningafyrirkomulagið er komið úr skorðum hér á landi. Réttur manna til áhrifa á fulltrúavalið er orðinn ákaflega misjafn, eftir því, hvar á landinu menn eiga heima. Og þar sem fylgi við skoðanir og flokka fer að nokkru leyti eftir búsetu, og sumpart af öðrum atburðum, er svo komið, að einn flokkur nýtur svo mikilla forréttinda af þessu úrelta kosningafyrirkomulagi, að hann hefir getað náð meiri hl. allra þingmanna, þó að hann hafi ekki nema rúml. þriðjung kjósenda í landinu.

Mál þetta hefir nú verið í þófi alllengi, og tekið ýmsum breyt. Það verður ekki sagt, að á því hafi verið tekið með neinni óbilgirni. Hvað eftir annað hefir verið veittur frestur til þess að leita friðsamlegrar lausnar á málinu. Því hefir verið frestað til þess að milliþinganefnd gæti rannsakað það og leitað úrræða. Því hefir verið frestað til þess að stjórn, skipuð tveim andstæðum flokkum, gæti unnið að lausn þess. Þessir frestir hafa vafalaust verið sanngjarnir. En því er ekki að leyna, að í hvert sinn, sem þingið slær slíku máli á frest án þess að geta leyst það, missir það nokkuð af virðing sinni. Í hvert sinn eykst sú tilfinning, sem er hverju þingi hættulegust, að það sé ekki fært um að ráða fram úr þeim málum, sem mest kalla að og mest er undir komið, að ráðið sé farsællega til lykta.

Starf það, sem unnið hefir verið að þessu máli, hefir leitt til þess stjórnarskrárfrumvarps, sem hér liggur nú fyrir. Sé á það litið við hlið þeirra till., sem fulltrúar Sjálfstfl. í mþn. báru fram, og frv. frá síðasta þingi, þá er alllangt frá því, að hinni sjálfsögðu kröfu um jafnrétti kjósendanna sé fullnægt, og auk þess langt frá því, að þau spor, sem stigin eru í áttina til jafnréttis, séu þau heppilegustu. Ég minntist að vísu við 1. umr. málsins stuttlega á helztu ágalla frv., en ég vil þó nefna þá aftur hér, til áréttingar:

Aðalgallinn er auðvitað sá, að jafnframt því, að jafnréttishugsunin er viðurkennd, er ekki séð fyrir því á neinn fullnægjandi hátt, að hún verði að veruleika. Þetta felst í takmörkun uppbótarsætanna við 12. Bæði sjálf takmörkunin og svo það, að talan er sett svo lágt, gerir það að verkum, að mjög litlar líkur eru til þess, að sæmilegur jöfnuður náist milli flokka. Hér er um að ræða beina skerðingu á sjálfri réttarkröfunni, og við hlið þessa verða aðrir gallar frv. miklu smávægilegri og snerta fremur fyrirkomulagið.

Það er ókostur, að sjálf kjördæmaskipunin er tekin í stjórnarskrána. Kjördæmaskipun er ákaflega háð breytingum, og hefir sumstaðar komizt út í hreinar öfgar og vitleysu, eins og t. d. á Englandi, þar sem eitt kjördæmið var komið í sjó og varð því að kjósa á bát, og sum kjördæmi voru svo að segja mannlaus. Að binda þesskonar í stjórnarskrá er mjög mikil vansmíð.

Það bætir á þennan ókost, að haldið er tvímenningskjördæmum, án þess þó að sjá um, að það séu fjölmennustu kjördæmin, og því svo bætt þar ofan á, að banna í stjórnarskránni að viðhafa þar hlutfallskosningu, sem annars er viðurkennd, hvar sem kjósa á fleiri en einn mann.

Af þessu leiðir aftur, að þingmönnum er fjölgað algerlega um þarfir fram, án þess þó að ná því marki, sem að er stefnt, nema að litlu leyti. Hitt virðist liggja miklu nær, að láta öll kjördæmin kjósa einn fulltrúa hvert. Með því er séð fyrir þeirra rétti. En við það verður rúm fyrir miklu fleiri uppbótarsæti án þess að fjölga þingmönnum að nokkrum verulegum mun. Athugun á kosningum undanfarandi hefir sýnt, að tala þingmanna hefði að jafnaði ekki þurft að verða meiri en 42—45 til þess að ná sæmilegu jafnrétti milli flokka, í stað þess að nú eiga þeir að vera 50 án þess að ná jafnréttinu. Og hitt, að ákveða a. m. k. hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum, hefði nálega undantekningarlaust dregið úr þörf uppbótarsæta.

Þá er úthlutun uppbótarsæta ekki óbundin í frv., eins og eðlilegast væri í stjórnarskrá. Ákvæði um það væri miklu eðlilegra að hafa í kosningalögum, því að vel getur verið, að reynslan kenni mönnum þar fljótlega heppilegri leiðir, og þá er óviðeigandi, að það skuli vera bundið af stjórnarskrárákvæði.

En þrátt fyrir þessa ágalla frv. höfum við sjálfstæðismenn talið rétt að taka því vinsamlega sem viðunanlegum samningsgrundvelli. Þó að réttlætið sé skammtað úr hnefa og það sé í rauninni alltaf óviðkunnanlegt, þá viljum við líta á mannlegan breyskleika og gjarnan mæta andstæðingunum á miðri leið. Við lítum svo á, að í frv. komi fram góður vilji að láta þingið geta skilizt við þetta mál vanvirðulaust, og að því viljum við stuðla. Jafnréttishugsunin er viðurkennd, og það tel ég meginkost frv., enda þótt leitt sé að sjá, hvað ófimlega hefir tekizt að feta þessa réttlætisbraut. Samkv. því, sem ég hefi sagt hér að framan, berum við svo fram brtt. um þau atriði, sem okkur finnst sérstaklega standa til bóta innan ramma frv.

Fyrsta brtt. á stuðning sinn í því, að úr því að halda á tvímenningskjördæmum, þá virðist einsætt, að ákveða megi með lögum, hver af kjördæmunum utan Rvíkur kjósi tvo þm. Og þá er engin önnur regla, sem gilt getur, en sú, sem upphaflega réði, þegar tvímenningskjördæmin voru ákveðin, sú, að það skuli vera fjölmennustu kjördæmin. Ákvæði þetta er í rauninni hliðstætt því ákvæði frv., að skipta megi tvímenningskjördæmi. Slíkar breyt. er alveg nauðsynlegt, að hægt sé að gera án þess að breyta sjálfri stjórnarskránni.

Þá er aðalbreyting okkar í því fólgin, að viðhafa megi hlutfallskosningar þar, sem kjósa á meira en einn þm. Í raun réttri ætti þetta að vera skylda, en við höfum viljað, einnig í þessu efni, koma til móts við andstæðinga okkar til samkomulags. Hitt er alveg ófært, að breyta þurfi stjórnarskránni, með öllu því, sem þeirri athöfn fylgir, ef lagfæra á svona einfaldan hlut eins og þetta. Í þingsköpum okkar er þetta t. d. orðin algild regla, að beita jafnan hlutfallskosning þegar velja á meira en einn mann, og það væri meira en lítið óviðkunnanlegt, ef binda ætti í stjskr. jafnúrelt fyrirkomulag, sem hefir verið yfirgefið af okkur sjálfum á nálega öllum sviðum annars.

Loks er svo till. frá okkur um það, að fella niður úr frv. ákvæðin um það, hvernig uppbótarsætum skuli úthlutað. — Hér er um algerlega nýtt atriði að ræða. Okkur vantar í þessu efni alla reynslu. Það, sem nú væri ákveðið, gæti reynzt mjög óheppilegt, en reynslan bent á aðrar leiðir miklu betri. Og þá væri það heldur óviðfelldið, að hafa bundið hendur sjálfs sín svo herfilega um málsatriði, sem í sjálfu sér eru lítilsverð og algerlega fyrirkomulagsatriði.

Um brtt. annara, sem liggja hér fyrir, höfum við ekki rætt okkar í milli, og ég ætla því ekki f. h. minni hl. n. að segja neitt um þær, og geymi mér þá að koma að þeim síðar í umr. Önnur ákvæði frv. hirði ég ekki að ræða, sakir þess, að um þau mun lítill eða enginn ágreiningur vera.

Ég vil ljúka máli mínu með því að taka undir þá ósk, er mun vera í huga hvers þm., sem ábyrgðartilfinningu hefir, að þetta þing megi bera gæfu til þess að ganga nú frá þessu máli á þann hátt, að þjóðin megi við una, og þannig, að þinginu verði sómi að, en ekki vansi í augum komandi kynslóða. En þetta næst því aðeins, að reynslan leiði í ljós góðan árangur fyrirkomulagsins. Að hrófa hér upp einhverri þeirri smíð, sem reynslan hlýtur þegar í stað að rífa niður, verður aðeins til þess að gera, illt verra. Það verður aðeins til þess, að óánægjuraddirnar verða enn háværari, og breytingin, sem þá kemur, enn róttækari. En til þess, að nokkur von sé um lausn — raunverulega lausn — á þessu máli fyrst um sinn, fæ ég ekki séð, að skemmra sé hægt að ganga en gert er í stjskrfrv. stj., með þeim breyt., sem við berum hér fram.