16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2756 í B-deild Alþingistíðinda. (4490)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. 1. minni hl. (Héðinn Valdimarsson):

Alþfl. er sá flokkur, sem fyrstur barðist fyrir breyt. á stjórnarskránni til réttara kosningafyrirkomulags. Var það svo í nokkur ár, að enginn annar flokkur vildi líta við kröfum okkar. Sjálfstfl. lýsti því þá yfir, að hann væri algerlega mótfallinn þeirri breyt., sem við vildum gera á kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulagi. Framsfl. var einnig eindregið á móti þessu. Alþfl. hélt þó uppi baráttunni, og svo þegar Sjálfstfl. varð fyrir barðinu á kjördæmaskipuninni, þá tók hann þetta mál einnig upp. Síðan hefir Framsfl. staðið einn á móti þessu máli allt þangað til nú, að einhver bilbugur virðist einnig kominn á hann. Við Alþ.-fl.menn getum því verið ánægðir með þau áhrif, sem við höfum getað haft í þessu máli, þar sem báðir hinir flokkarnir hafa nú gengið inn á þá kröfu okkar, að breyta kosningafyrirkomulagi til hins betra.

Það er þó fjarri því, að þær till., sem nú liggja hér fyrir, séu svipaðar því, sem við mundum helzt kjósa. Þó að við viljum nú fallast á frv. hæstv. forsrh. með nokkrum breyt., þá er mjög fjarri því, að þar með sé fullnægt óskum okkar, en við höldum því fram, að bezta fyrirkomulagið sé það, að allir þingmenn séu kosnir með landskjöri um allt land. Þó að einhverjar breyt. kunni að verða gerðar á annan hátt, þá verður það aðeins um stundarsakir, því að það mun líða að því von bráðar, að breytingar verða heimtaðar og þær allar renna í þessa sömu átt.

En það er mjög aðkallandi, að einhver lagfæring verði gerð á því fyrirkomulagi, sem nú er. Því verður ekki neitað, að í frv. stj. er á ýmsan hátt gengið lengra en Framsfl. hefir áður viljað ganga. Þó fer því fjarri, að þar með sé réttlætinu fullnægt. T. d. hefði Alþfl. fengið með þessu fyrirkomulagi 8 þm. við síðustu kosningar, en hefði átt að fá 9½. En ef nú á að lækka tölu þm. úr 50, eins og er í frv., og niður í 48, þá er þar með aukið á misréttið.

Þá vil ég minnast aðeins á deildaskiptinguna. Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að einhver hluti Framsfl. mundi vera því fylgjandi að hafa eina deild. En ein af þeim stjórnarskrárbreytingum, sem við Alþfl.menn höfum áður barizt fyrir, er að hafa aðeins eina þingdeild. Það er auðséð, að þótt þm. séu 42, þá geta 7 þm. fellt frv., sem allir aðrir þm. væru fylgjandi. Þetta kæmi að vísu ekki fyrir um flokksmál, en það er þó sá möguleiki til, að ýmis mál falli fyrir mótstöðu einna 7 þm. Við Alþfl.menn mundum því verða fylgjandi brtt. um niðurfellingu deildaskiptingarinnar, ef fram kæmu, svo að Framsfl. er óhætt að koma með tillögur þar að lútandi, ef einhver alvara kynni að vera hjá honum um þær umbætur.

Um niðurfærslu kosningarréttar til 21 árs aldurs þarf ég fátt að segja. Það virðist nú svo komið, að allir flokkar séu sammála um það, en upphaflega voru það ekki aðrir en jafnaðarmenn, sem voru því fylgjandi.

Ég hefi í nál. sagt, að ég mundi fella mig við, að tala þm. verði 50, en eins og ég sagði áðan, þá er minnkun úr því ekki til annars en að auka á ranglætið með þeirri kjördæmaskipun, sem nú er. Aftur á móti álít ég mjög ranglega farið að, að veita uppbótarsætin eins og ráð er fyrir gert í frv., og hefi ég því borið fram brtt. um það, að allt að 12 þm. skuli kosnir hlutbundnum kosningum á sérstökum landslistum til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem mestu samræmi við atkvæðatölu þá, sem greidd er þingmannaefnum flokksins og landslista hans samtals við almennar kosningar, enda greiði kjósandi atkv. annaðhvort frambjóðanda í kjördæmi eða landslista.

Við Alþfl.menn leggjum það mikið upp úr þessu atriði, að ef það nær ekki fram að ganga, þá munum við ekki geta greitt þessu frv. atkv. út úr d. Það segir sig sjálft með flokk eins og Alþfl., sem á kjósendur sína sumpart safnaða saman í kaupstöðum, en sumpart dreifða út um allar sveitir landsins, að það er ákaflega mikilsvert, að allir kjósendur hans geti kosið flokkinn. Aftur á móti er það bæði of kostnaðarsamt og erfitt að stilla upp frambjóðendum í hverju kjördæmi, meðan flokknum er svo háttað sem nú er.

Ég geri nú ráð fyrir, að oftast sé það skipulag á stjórnmálaflokkum, að menn innan flokksins sætti sig við frambjóðanda hans, svo að það yrði fremur undantekning, að menn gæfu landslistanum atkv. sitt, þar sem frambjóðandi væri í kjöri á annað borð. En þar, sem frambjóðandi væri á einhvern hátt ógeðfelldur flokksmanni sínum, er það aukið frjálsræði fyrir kjósandann að mega greiða landslistanum atkv. sitt.

Landslistinn hefir og það í för með sér, að línurnar skýrast og síður er hætta á eftir en áður, að frambjóðendur kenni sig við flokka, sem þeir síðan ekki fylgja, þegar á þing kemur.

Þá hefi ég ekki fleira um till. okkar jafnaðarmanna að segja. Ég þakka hv. frsm. meiri hl. fyrir yfirlýsingu hans um það, að hann geti fallizt á brtt. okkar um varaþingmenn, en þó er það ekkert höfuðatriði í till. okkar, eins og landslistinn.

Þá eru brtt. sjálfstæðismanna, um að breyta megi með lögum stærstu kjördæmunum utan Reykjavíkur í tvímenningskjördæmi. Við höfum ekki við þessa brtt. að athuga og munum geta greitt henni atkv.

Um þá brtt., að ákveða megi hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum með einföldum lögum, er það að segja, að þetta er ekki mikils virði fyrir okkur Alþfl.menn, og að við höfum enga sérstaka ástæðu til að fá það inn í stjskr. Þó býst ég við, að við getum greitt atkv. með brtt. þessari. Þá er sú brtt., að óbundið sé í stjskr., hversu úthluta skuli uppbótarsætum. Þessari till. erum við andvígir, þar sem við höfum borið fram landslistann, enda álítum við, að svo eigi að ganga frá þessu atriði í stjskr., að eigi orki tvímælis.