16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2758 í B-deild Alþingistíðinda. (4491)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það er auðheyrt á umr. um þetta mál, að það er að komast í höfn. Brimið er að lægja, og þm. farnir að tala rólegar um málið.

Merkasta brtt., sem fyrir liggur, er sú, að fækka þm. um 2, úr 50 í 48. Þetta táknar, að uppbótarsætum sé fækkað um tvö. Þótt ég telji þetta miður farið, felur þetta samt enga höfuðbreyt. í sér. Tilgangurinn með frv. er að jafna svo um kosningarrétt, að meiri hl. þjóðarinnar hafi meiri hl. á þingi, og ennfremur að jafna á milli deilda. Till. um 48 í stað 50 þarf ekki að spilla framgangi málsins. Ég trúi því þess vegna, að þingið beri gæfu til að leysa þetta mál, svo að flestir megi vel við una.

Þá er brtt. frá 1. og 2. minni hl. um útdeilingu uppbótarsæta. Mitt álit er, að bezt sé gengið frá þessu í stjfrv. En þó geta jafnan komið fram gallar, sem við sjáum ekki fyrir. Till. um landslista er að vísu ekki óaðgengileg, en þó tel ég betra að láta þetta vera óbundið, eins og 2. minni hl. leggur til.

Fleiri brtt. geri ég ekki að umtalsefni. Þær eru engar líklegar til samkomulags. Mín skoðun er sú, að það sé gæfa fyrir land og þjóð, að þetta mál sé leyst. Þessi jöfnun er sein á ferðinni, en lausnin virðist líka ætla að koma fyrr en við mátti búast. Tvö ár er ekki langur tími til að koma slíku stórmáli í höfn.