16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2759 í B-deild Alþingistíðinda. (4492)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Halldór Stefánsson:

Við hv. þm. V.-Sk. höfum borið fram brtt. á þskj. 584 við stjskrfrv., og vil ég gera nokkra grein fyrir þeim. En áður en ég vík að efni brtt. vil ég taka það fram, að við flytjum þær algerlega á eigin ábyrgð. Við berum þessar till. fram sem miðlunartill. við aðrar brtt. og kröfur, og teljum þær ekki síður fallnar til miðlunar en aðrar brtt. og frv. sjálft.

Fyrst og fremst viljum við ákveða í stjskr. grundvöll kjördæmaskipunarinnar. Sú breyt. er þó ekki veruleg breyt. frá ákvæðum núgildandi kosningalaga. Brtt. er fyrst og fremst sú, að þetta sé ákveðið í stjskr. skýrt og ákveðið. Annars hefir þessi grundvöllur verið viðurkenndur síðan Alþingi var endurreist. Í lögum um kosningar til Alþingis 1877 segir:

„Sérhver sýsla á landinu skal vera eitt kjördæmi ... Kaupstaðurinn Reykjavík, með nágrenni, sem heyrir undir lögsagnarumdæmi bæjarins, skal vera kjördæmi fyrir sig“.

Hér er ákveðinn grundvöllur kjördæmaskipunarinnar. Skaftafellssýslu var skipt í tvö kjördæmi, jafnframt því sem henni var skipt í tvö lögsagnarumdæmi. Hinn eiginlegi grundvöllur er sá, að þær minni félagsheildir innan þjóðfélagsins, sem hafa nokkur sérmál, þ. á m. sérstaka fjárstjórn, skuli vera sérstök kjördæmi og hafa rétt til að kjósa einn eða tvo fulltrúa á þing. Mönnum var í þessu efni lengi ekki eins ljós réttur kaupstaðanna og sýsluanna, og Rvík var lengi vel eina kaupstaðakjördæmið. Enn má segja, að réttur kaupstaðanna sé nokkuð á reiki. En tilhögunin sjálf er byggð á þeirri eðlilegu hugsun að tryggja það, að menn með þekkingu á högum alls landsins eigi sæti á Alþingi. Fjölgun þingmanna síðan hefir orðið að mestu leyti á þessum grundvelli. Réttur kaupstaðanna, Ísafjarðar-, Akureyrar- og Seyðisfjarðarkaupstaðar, var viðurkenndur 1903 og síðar 1928, er Hafnarfjörður fékk fulltrúa. Þó eru tveir kaupstaðir afskiptir ennþá, Siglufjörður og Neskaupstaður. Úr því misrétti viljum við bæta með brtt. okkar. Þetta grundvallarákvæði hefir einnig verið nokkuð á reiki um sýslurnar, svo að nú eru tvær sýslur spyrtar saman til að kjósa einn fulltrúa, þótt aðrar sýslur megi kjósa einn eða tvo. Þetta er ranglæti, sem við viljum einnig leiðrétta. Þetta er misrétti, sem ekki er hægt að hafa á móti til lengdar, jafnvel þótt leiðréttingar verði synjað nú. Af þessum brtt. leiðir fjölgun þm. um fjóra.

Ég þykist hafa svarað með þessu því, sem hv. frsm. meiri hl. missagði um grundvöll kjördæmaskipunarinnar. Hugsunin, sem á bak við liggur, er upphafleg og á sér djúpar rætur með þjóðinni.

Eitt, sem hefir orðið að óánægjuefni í kjördæmaskipuninni, er tvímenningskjördæmin. Um réttmæti þeirra ætla ég ekki að ræða, þar sem brtt. okkar snertir þau ekki. En vegna vaxandi flokkshyggju, sem er aðalástæðan til ágreinings í þessu máli, hefir það vakið óánægju, að meiri hl. skuli ráða báðum þingsætunum. Því hafa komið fram raddir um, að hlutfallskosningar eigi að tryggja rétt minni hl. En þar sem aðeins á að kjósa tvo, verður þetta ekki til annars en að færa ranglætið til. Hlutfallskosningar þær, sem nú tíðkast, eru hugsaðar út frá því, að velja eigi a. m. k. þrjá fulltrúa, þannig að meiri hl. fái tvo og minni hl. einn.

Brtt. okkar um þetta eru miðlunartill., sem bæði þeir, sem vilja hafa hlutfallskosningar, og hinir ættu að geta fallizt á. 1)

Þá leggjum við til þá breytingu á landskjörinu, að landskjörnir þm. séu allir kosnir í senn og um leið og almennar kosningar fara fram. Með þeim hætti nýtur flokksfylgið sín betur en ella og fé og fyrirhöfn sparast. Jafnframt leggjum við til, að þingrof nái einnig til landskjörinna þm. Það samrímist betur lýðræðishugmyndum nútímans en það fyrirkomulag, sem verið hefir. Sama er að segja um þá till. okkar, að þeir séu kosnir inn í sameinað þing.

Það er ljóst af því, sem ég hefi nú sagt, að brtt. okkar hafa mikla yfirburði yfir núv. skipulag og eru byggðar á réttlátari grundvelli en stjfrv.

Þá flytjum við brtt., er virðist hafa vakið nokkra athygli, við 44. gr. stjskr. Frá öndverðu hefir þótt nauðsynlegt að setja í sjálfa stjskr. ákvæði til þess að tryggja, að þm. teygðust ekki um of til ósjálfstæðis gagnvart sínum kjósendum. Menn hafa séð þar svo stóra hættu, að ástæða væri til að slá varnagla við því. Á þeim tímum var flokkshyggjan þó ekki á því stigi, sem hún er nú, en reynslan hefir sýnt, að eftir því sem hið almenna stjórnarform, sem nú gildir, á sér lengri sögu að baki, eftir því hefir flokkshyggjan magnazt í öllum löndum, og það svo, að hún hefir rekizt á lýðræðisfyrirkomulagið og orðið því að falli. Þarf ekki annað en nefna Ítalíu og Þýzkaland sem dæmi þess. Í flestum löndum riðar núv. skipulag við fall. Yfirmönnum stjórnanna er verið að gefa alræðisvald í fleiri og fleiri málum. Hin vaxandi flokkshyggja er einn af þeim ókostum, sem komið hafa fram undir ríkjandi skipulagi. Hún er eins og mein, sem hefir vaxið með líðandi stund, eins og öll mein gera þangað til

1) Hér mun vanta í ræðuna. — HStef.

þau springa eða gerir út. Og þetta mein hefir nú í einstökum löndum orðið þjóðræðinu að bana og heldur áfram að verða þjóðræðinu að bana, ef engar skorður eru reistar. Nú er flokkshyggjan víðast hvar lengra komin en hjá okkur, en hún hefir einnig farið vaxandi hér og er í uppsiglingu. — Þegar ákvæði 1. mgr. 45. gr. stjskr. voru sett, þá gat engum dottið í hug að slá varnagla við þessu, af því að menn þekktu ekki flokkshyggjuna eins vel og nú. En þeir, sem sáu þörf á því að slá varnaðla við of miklum áhrifum kjósenda á þingmenn, sem að mörgu leyti eru þó réttmæt, mundu, ef þeir hefðu þekkt flokkshyggjuna, ekki síður hafa reynt að slá varnagla við henni. Með því, sem ég hefi hér rætt um flokkshyggju, vil ég ekki segja, að hún eigi ekki rétt á sér innan vissra frjálsra takmarka; þar hefir hún sína kosti. En það er svo um marga hluti, að þeir eru því aðeins góðir, að gætt sé hófs, en verða skaðlegir og hættulegir, þegar úr hófi keyrir. Í sambandi við þessi ummæli mín um flokkshyggjuna vil ég taka það fram, að ég á hér við þá flokkshyggju, sem heimtar, að löggjafarþing þjóðarinnar sé ekki skipað frjálsum mönnum, sem ráði málefnum þjóðarinnar til lykta í samráði hver við annan og eins og þeir vita sannast og réttast, heldur eftir vilja einhverra vissra manna, án þess að geta samþýtt skoðanir sínar þeirra manna skoðunum. Þá eru þm. og aðrir fulltrúar almennings, á hvaða samkomu sem er, ekki orðnir annað en taflmenn á borði, sem leikið er eftir geðþótta teflenda, en lok hvers tafls sýna þó, að teflendunum getur yfirsézt um leikinn. Hvort sem þessi till. fær meira eða minna fylgi hér í þinginu, og þótt það kynni að reynast, að slíkt ákvæði hefði minni þýðingu en orðin liggja til, þá látum við flm. það ekki hamla okkur frá því að bera hana fram. Síðan þessi till. kom fram, hefir komið fram í blöðum, að ástæðan til hennar myndi vera nýgerð samþykkt á flokksþingi framsóknarmanna um skipulag flokksins, sem snertir þetta atriði. En ég þykist hafa sýnt nægilega fram á, að það eru almennar ástæður fyrir því að bera þessa till. fram, og að nýgerð samþykkt á framsóknarþinginu liggur hér alls ekki til grundvallar, enda hygg ég, að fleiri flokkar hér á landi eigi þá óskilið mál við Framsfl. um flokkshyggju — og sízt minna. Til þess að gera til fulls grein fyrir þessum till. verður að bera þær saman við stjfrv., sem fyrir liggur, og brtt. meiri hl. Því þarf ekki að lýsa, sem öllum mönnum er kunnugt og komið hefir fram við umr. hér, að kröfurnar til breytinga á stjórnarskránni eru fyrst og fremst reistar á tveim meginástæðum: að meira flokkslegt jafnræði fáist við kosningarnar og að jafnari tala kjósenda standi bak við þm. Meiri áherzla er þó lögð á fyrra atriðið, og vil ég taka það fram um seinna atriðið, að ég mun ekki ræða það, því að deilur um það eru látnar falla niður um hríð og koma því ekki til greina. En þetta stjfrv., sem hér liggur fyrir, er árangur af þeim tilraunum til samkomulags um þessi meginatriði, auk ýmsra breytinga, sem ekki virðast vera ágreiningsatriði, sem gerðar hafa verið undanfarið, aðallega á næstseinasta þingi og síðan. Langt virðist vera dregið til samkomulags í málinu, þótt ekki virðist það hafa náðst til fulls, sem sjá má af brtt., sem fyrir liggja. Það má líka marka af brtt., að það, sem á milli ber, er ekki stórvægilegt, en þótt svona standi nærri um samkomulag í málinu að því er virðist, munu fáir eða engir vera ánægðir. Þegar gerð er miðlun, fær enginn framgengt öllu, sem hann óskar. Við flm. brtt. á þskj. 584 höfum borið þær fram með það fyrir augum, að e. t. v. gætu þær orðið til samkomulags. Það, sem helzt virðist standa fyrir samkomulagi í málinu, er tala þm. Það stendur aftur annarsvegar í sambandi við kröfurnar um flokkslegt jafnræði, sem krefur sem flestra þingsæta. Hinsvegar er það, að út af fyrir sig getur engin nauðsyn talizt til þingmannafjölgunar, enda hefir þeirri nauðsyn ekki verið haldið fram af einum einasta manni. Þingmannatalan yrði eftir till. okkar hv. þm. V.-Sk. fjórum færri en í frv. og 2 færri en í brtt. meiri hl. stjskrn. Ef brtt. okkar, jafnframt því að þm. fjölgar minna eftir þeim, gefa jafnmiklar líkur fyrir flokkslegu jafnræði, þá ætti að mega telja, að á þær gæti orðið fallizt, og einkum þar sem í þeim felst, eins og allir hljóta að viðurkenna, leiðrétting á ágreiningi og misrétti milli héraða og svo leiðrétting á skipun Alþingis. Eftir frv. á að kjósa 32 þm. óhlutbundnum kosningum, en um 18 þm. fær flokksfylgið að njóta sín, þar sem eru 6 þm. í Reykjavík og 12 uppbótarsæti. Eftir brtt. meiri hl. á að kjósa 32 þm. óhlutbundnum kosningum, svo að flokkslegt jafnræði fær að njóta sín um 16, eða tveim lægri. En eftir okkar till. eru einungis 24 kosnir óhlutbundnum kosningum, en flokksaðstaða fengi að njóta sín um 22, eða nærri því helming þm., það er fjórum fleiri en í stjfrv. og sem fleiri en eftir till. meiri hl. Ég þykist vita, að því verði svarað til, að áhrifin til flokksleg jafnræðis geti ekki náðst í hlutfalli við tölu þm. eftir brtt. okkar eins vel og eftir frv. eða brtt. meiri hl. Það er að einu leyti rétt, en þar kemur á móti, að þm. talan er lægri eftir okkar till., en á því byggist hið flokkslega jafnræði. Auk þess gat ég þess áður, að við höfum hugsað till. okkar til vara sem grundvöll til samkomulags, og því má segja, að möguleiki er eftir að ákveða uppbótarsæti í staðinn fyrir landskjör, og þá fengi hið flokkslega jafnræði enn betur að njóta sín. Annars er okkur miklu hugstæðara landskjör en uppbótarsæti og töldum miður fara á því, að flokkar úthlutuðu sætum á þingi en að kjósendurnir gerðu það sjálfir. En eigi að síður myndum við falla frá því, ef það gæti orðið til samkomulags.

Ég hefi þá gert í sem stytztu máli grein fyrir till. okkar og get þá farið að láta lokið máli mínu. Ég endurtek það, sem ég sagði, að við hugsuðum till. okkar sem miðlunartill. og e. t. v. samningsgrundvöll, og fela þær í sér skilyrði á borð við frv. um flokkslegt jafnræði — það, sem hefir verið höfuðatriðið. Þar að auki er leiðrétt ótvírætt misrétti milli einstakra héraða og þm. færri en frv. og till. meiri hl. gera ráð fyrir. Sýnist okkur því, að okkar till. hafi í sér skilyrði til þess að geta komið á samkomulagi. En ef hitt verður ofan á, sem okkur kemur heldur ekkert á óvart, að till. hljóti ekki fylgi, þá verður að skýra það þannig, að afstaðan í málinu sé orðin svo bundin á allar hliðar, að engu verði um þokað úr því, sem komið er. En þótt till. hljóti ekki fylgi, getum við sagt, að við sjáum þó, eins og sjálfsagt flestir aðrir, nauðsynina á því með tilliti til annara mála hér á þingi, bæði í nútíð og framtíð, að þetta mál leysist. Og í frv. felast ótvírætt og ágreiningslaust umbætur á öllum mikilsverðum atriðum hvað snertir kjördæmaskipunina og kosningafyrirkomulagið. — Um aðrar till., sem fyrir liggja, mun ég ekki ræða sérstaklega og sýni einungis afstöðu mína til þeirra við atkvgr.