16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2765 í B-deild Alþingistíðinda. (4493)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Sveinn Ólafsson:

Till. þær allar, sem fram eru komnar, benda í raun og veru ljóslega til þess, að tillögumennirnir, hvað sem öðru líður, eru að leitast við að koma málinu í höfn á skynsamlegan hátt, hver frá sínum bæjardyrum skoðað. Ég hefi nú um stund hlustað á framsöguræður þriggja frsm. stjskrn., og skilst mér á ræðum þeirra, að hjá þeim öllum sé sá ásetningur einlægur og fastur, að reyna að teygja sig sem mest í samkomulagsáttina. Dálítið mismunandi skoðanir hefi ég samt sem áður á till. hvers um sig, en ætla ekki að fara langt í samanburð þeirra að þessu sinni. Ég hlýt líka, af því að nú er liðið langt á tímann, að takmarka mig sem mest og verð þó að minna á þær brtt., sem ég flyt á þskj. 621.

Hv. frsm. meiri hl. n. minntist lítillega á þær, eins og fleiri brtt., sem fyrir liggja, og gat þess um till. mínar, að hann eða meiri hl. n. mundi ekki geta aðhyllzt þær. En nú vill svo einkennilega til, að í áliti meiri hl. eru gerðar 2 till., gersamlega hliðstæðar mínum till. Þar er lagt til, að þm.talan verði 48 eins og ég hefi áður gert. Einnig er lagt til af meiri hl., að uppbótarsætin verði 10, eins og í till. mínum er lagt til, en ekki 12, eins og í frv. Meiri hl. er því búinn að fallast á till. mínar fyrirfram að mestu leyti. Ég skildi því ekki vel í því, þegar frsm. lýsti yfir því, að hann myndi ekki geta aðhyllzt till. mínar. Honum hlýtur að hafa orðið mismæli þarna, því að með þessu tvennu eru aðalatriðin í brtt. mínum á þskj. 621 talin. Aðalatriðin eru niðurfærsla þm.tölurnar úr 50 í 48 og niðurfærsla uppbótarsætanna úr 12 í 10. — Aðrar till., sem ég hefi borið fram, eru ýmist orðabreyt. eða afleiðing af þessum aðaltill., eða þá umorðun, þar sem mér, t. d. í 2. gr., þótti ekki nógu ljóslega ákveðið um deildaskiptingu og kosningar til Ed., en það er atriði, sem ekki ætti að geta valdið neinum ágreiningi. — Síðasta brtt. mín á þskj. 621 er að vísu nýmæli, og verð ég að fara um hana örfáum orðum, þótt hún sé að vísu svo auðskilin, að ekki ætti að vera þörf á að skýra hana. Ég geri þar ráð fyrir því, að aftan við 33. gr. stjskr. verði bætt nýrri málsgr., þannig hljóðandi: „Breyta má þessu með lögum“. Með lögum mætti þá ákveða að heyja Alþingi annarsstaðar en í Reykjavík, ef þurfa þætti. Þess hefir verið leitað nokkrum sinnum undanfarið, hvort Alþingi vildi fallast á það, að ákveða mætti annan samkomustað en Reykjavík, og hefir sú till. ekki hlotið stuðning meiri hl. Alþingis. Þrátt fyrir það er ekki ósennilegt, að Alþingi vilji nú hafa opna leið til að ákveða annan samkomustað án stjskrbreyt. Þeir atburðir hafa gerzt hér í seinni tíð, sem ljóslega og ákveðið benda til þess, að þörf kunni að verða á þessu. Sú ókyrrð, sem komið hefir upp hér á síðustu tímum og sem jafnvel hefir lýst sér í tilraunum til þess að beita ofbeldi og hnefarétti gagnvart friðsömum borgurum, ætti í rauninni að gera það ljósara en áður var, að til þess getur komið og að því getur rekið fyrr en varir, að nauðsynlegar verði þingsins vegna slíkar ráðstafanir. Að öðru leyti er ekki ástæða til að fara að taka hér upp af nýju það, sem mælir almennt með því að heyja Alþingi annarsstaðar en í Rvík. Ég hefi borið þessar brtt. fram nú með tilliti til þess, að ég tel ekki samkomustaðinn jafnöruggan og verið hefir, og ég myndi ekki furða mig á því, eftir því sem horft hefir undanfarið, þótt það kæmi hér fyrir einn góðan veðurdag, að ofbeldi yrði beitt við Alþ. og því hleypt upp með skrílæði.

Það er ekki, að því er ég hygg, ástæða fyrir mig til að fara lengra út í þetta mál. En ég verð með fám orðum að svara því, sem hæstv. forsrh. tók fram út af brtt. annara en nefndarhlutanna. Er um það að segja, að þar sem hann lét þess getið, að till. einstakra þm. mundu vera of stórfelldar til þess að þd. gæti fallist á þær, þá hefi ég bent á það áður, að 2 till. mínar eru nákvæmlega hliðstæðar við till. meiri hl. stjskrn., og má heita þær sömu, að undanteknu fyrrnefndu atriði um breyt. 33. gr. stjskr.

Ég skal þá ekki eyða meiri tíma til þess að ræða um þetta og ætla þá heldur ekki að fara að gera að umtalsefni þær aðrar till., sem fyrir liggja. En þó vil ég geta þess, að úthlutun uppbótarsæta eftir því, sem ráðgert er af 1. minni hl. n., virðist mér harla athugaverð. Það er einskonar sniðug veiðibrella, sem þar er hugsuð til þess að geta náð sem flestum uppbótarsætum. Ég get ekki fundið annað en að með hlufallskosningu verði langeðlilegust úthlutun uppbótarsætanna. Og einmitt þetta viðurkenndi hv. 3. þm. Reykv. í sinni ræðu, eða frsm. 2. minni hl., að með hlutfallskosningu mætti komast næst réttlátri úthlutun, og það er það, sem ég legg áherzlu á í mínum till., að úthlutunin fari þannig fram, að hlutfallskosning um allt land ákveði uppbótarsætin. Með þeim hætti koma eðlilega fram þau réttlátlegustu hlutföll, sem kostur er á, ef ekki á að viðhafa veiðibrellur. En fyrirkomulag sjálfs frv. um þetta atriði get ég ekki fallizt á, því að eftir frv. getur það í ýmsum tilfellum orðið hrein og bein tilviljun eða einskonar „lotteri“, hvar uppbótarsætin koma niður. Ég endurtek þess vegna, að ég er algerlega sammála hv. 3. þm. Reykv. um það, að næst verði komizt réttlátri úthlutun uppbótarsæta, ef hlutfallskosningar eru viðhafðar og öllum veiðibrellum á bug vísað.